Janúar 2022

„Margir óttast að mennirnir farist í nótt“

ÞÍ. Sýslumaðurinn í Barðastrandarsýslu, 2009/69, FA1/1, örk 2.

Um Dhoon strandið við Látrabjarg 1947

Rétt fyrir hádegi föstudaginn 12. desember 1947 reyndi Jóhann Skaptason, sýslumaður í Barðastrandarsýslu, sem staðsettur var á Patreksfirði, að ná símasambandi við Króksfjarðarnes. Það var hins vegar ekki hægt að því Slysvarnarfélag Íslands var í stöðugu hrað- og forgangssambandi við Saurbæ á Rauðasandi og Haga á Barðaströnd og línur því uppteknar. Ástæðurnar fyrir þessu álagi á símalínunum var að þá stóð yfir leit að breskum togara sem talið var að væri strandaður í námunda við Stálfjall eða Skor fyrir austan Rauðasand. Eftir að hafa frétt af strandinu þá hélt Jóhann sýslumaður áfram að reyna að hringja um sýsluna í leit að upplýsingum um gang mála. Hann hringdi meðal annars í Garðar Jóhannesson forstjóra á Vatneyri í Patreksfirði en Garðar var umboðsmaður fyrir breska togara. Hann hafði ekki fengið tilkynningu um strandið en hafði frétt frá öðrum skipum á svæðinu að enski togarinn Dhoon frá Fleetwood væri strandaður undir Látrabjargi.

Á þessa leið hefst frásögn Jóhanns sem hann skráði niður í lögregluþingbók Barðastrandarsýslu. Frásögnin er á fyrstu blaðsíðum bókarinnar og svipar lítið til hefðbundinnar embættisfærslu í lögregluþingbók. Frásögnininni svipar meira til dagbókarfærslu og segir Jóhann að hann hafi skrifað niður jafnóðum og honum bárust nýjar fréttir. Mögulega hefur hann gripið til næstu tómu bókar og hafist handa við að skrifa niður atburðarrásina og því er hún nú varðveitt í Þjóðskjalasafni í lögregluþingabók Barðastrandarsýslu.

Jóhann sat áfram við símann. Síðla kvölds talaði hann við Daníel Eggertsson, bónda á Hvallátrum, sem þá hafði farið af stað ásamt fleirum og fundið strandsstaðinn. Skipið var strandað undir Látrabjargi við Geldingsskorardal. Aðstæður voru afar erfiðar og ekki hægt að athafna sig í myrkrinu en þá var verið að safna liði af næstu bæjum sem átti að leggja af stað aftur á strandstað snemma næsta morgun. Þá frétti Jóhann frá öðrum skipum að á Dhoon höfðu skipverjar kveikt bál á hvalbaknum og að samband hefði náðst við þá með morse-ljósmerkjum. Þá hafði einnig sést ljós í fjörunni fyrir innan strandstaðinn. Taldi Jóhann víst að þar væri björgunarflokkur frá Örlygshöfn en að ekki væri fært í fjörunni að strandinu og að þeir myndu snúa til Keflavíkur og dvelja þar um nóttina. Jóhann endar föstudagskvöldið á þungum nótum og segir að „margir óttast að mennirnir farist í nótt.“

Á laugardeginum hélt Jóhann áfram að fylgjast með. Hann hitti héraðslækninn um morguninn og bað hann að vera til taks og um hádegið fylgdist hann með björgunarflokki leggja af stað á strandstað. Á sama tíma voru björgunarmenn komnir niður í fjöru og byrjaðir að bjarga skipverjum í land. Það tókst að koma þeim í fjöruna og þá var hafist handa við að hífa þá upp gríðarhátt bjargið það tókst þó ekki á fyrsta degi sökum myrkurs. Hluti skipverjanna og björgunarmanna dvöldu næstu nótt á Flaugarnefi, sem var sylla í miðju bjarginu, og þá hafðist hluti þeirra við í fjörunni. Jóhann virðist hafa verið í stöðugu samband við heimilisfólk á Hvallátrum og fengið fréttir þegar að björgunarmenn komu frá strandstað að sækja vistir eða annað búnað.

Eftir erfiða nótt í bjarginu og fjörunni var hafist handa á sunnudeginum við að hífa mennina upp á bjargbrúnina. Um klukkan 17 talaði Jóhann við Guðmund Kristjánsson, sem hafði þá komið heim í Breiðuvík með þrjá skipverja og einnig voru fjórir til viðbótar komnir að Hvallátrum. Þegar Guðmundur hafði farið frá strandstaðnum voru eftir í fjörunni einn skipverji og 3 björgunarmenn. Hinir voru komnir upp á Flaugarnef. Guðmundur sagði að skipið væri fast milli tveggja hleina um það bil skipslengd frá fjörunni og að Þórður Jónsson bóndi á Hvallátrum hafi skotið línu út í skipið og hitt í öðru skoti.

Seinustu skipverjarnir og björgunarmennirnir komust upp á bjargbrún klukkan 18 á sunnudeginum en þeir voru í tjaldi á brúninni um nóttina ásamt tveimur björgunarmönnum. Þeir komu síðan til Hvallátra á hádegi á mánudeginum þremur sólarhringum eftir að björgunarstarfið hófst. Jóhann lýkur frásögn sinni á að hrósa björgunarmönnum fyrir áræði sitt og hreysti og segir björgunina einstætt afrek.

Þegar sjóslys eða önnur atvik á sjó eiga sér stað fer fram rannsókn á þeim í dómi sem kallast sjópróf. Hjá sýslumönnum voru þessir dómar skráðir í sérstakar bækur fyrir sjó- og verslunardóm. Ekkert sjópróf er þó að finna fyrir Dhoon í sjó- og verslunardómsbókum Barðastrandarsýslu sem finna má í sama skjalasafni. En í lögregluþingbókina sem Jóhann skráði frásögn sína í er þó einskonar sjópróf. Þann 19. desember, viku eftir að Dhoon strandaði setti Jóhann sýslumaður lögreglurétt á skrifstofu embættisins á Patreksfirði. Tilgangur réttarins var að taka skýrslu vegna strandsins og var rætt við tvo skipverja, Charles Knight 1. vélstjóra og Albert Head bátsmann.

Við skýrslutökuna lýstu þeir aðdraganda þess að skipið strandaði. Knight sagði að skipið hafi strandað klukkan 9:45 á föstudagsmorgninum en allt hafi verið í góðu lagi fyrir strandið. Skipið hafi legið við akkeri en haldið síðan af stað á rólegri ferð með skipstjóra og stýrimann í brúnni og að ekki hafi sést til lands fyrr en skipið strandaði. Head sagði að skipstjórinn, Fred Kirby, hafi reynt að senda út neyðarmerki en senditækin ekki virkað, þá hafi Head sjálfur sent upp rakettu. Einnig reyndu skipverjar að setja út björgunarbát en hann hvarf samstundis í öldurnar. Íslenskt skip kom að strandinu en gat ekki komist nógu nálægt til þess að geta hjálpað.

Á fjöru gátu skipverjar farið milli brúar og hvalbaks en það var ekki hægt að flóði og þurfi skipverjar þá að vera í brúnni eða uppi á hvalbaknum. Um nóttina voru skipstjóri, stýrimaður og einn háseti í brúnni en restin af skipverjum var á hvalbaknum. Head bátsmaður sagðist hafa ákveðið að kveikja þar bál og héldu þeir því við yfir nóttina. Þegar fjaraði út um morguninn fór Head aftur í brúnna til þess að athuga stöðuna en þá voru skipstjórinn, stýrimaðurinn og hásetinn horfnir í sjóinn. Rétt fyrir dögun á laugardeginum sáu skipverjarnir ljós á bjargbrúninni og vissu þá að björgun yrði reynd frá landi

Margt hefur verið ritað um strand torgarans Dhoon. Árið 2009 kom út bók í Útkalls bókaflokki Óttars Sveinssonar, Útkall við Látrabjarg, sem segir frá björguninni. Í bók Steinar J. Lúðvíkssonar Þrautgóðir á raunastund er sagt frá björguninni og þar er meðal annars frásögn Alberts Head. Þá kom einnig út árið 1949 heimildarmyndin Björgunarafrekið við Látrabjarg í leikstjórn Óskars Gíslasonar. Við framleiðslu myndarinnar átt að sviðsetja björgunina í Kollsvík þar vestra. Þá vildi svo ótrúlega til að á meðan á tökum stóð að breski togarinn Saragon strandaði undir Hafnarmúla í Örlygshöfn. Þá tókst að bjarga 6 manns úr 17 manna áhöfn. Upptökur af þeirra björgun voru notaðar í heimildarmyndina. Í Morgunblaðinu 19. desember 1947, viku eftir strandið, birtist frásögn Daníels Eggertssonar af björguninni. Þá má finna ítarlega frásögn á björguninni í Tímanum 13. og 14. janúar árið 1948 eftir Sigurbjörn Guðjónsson frá Hænuvík. Hann segist ekki hafa verið beinn þátttakandi en 3 synir hans hafi tekið þátt frá upphafi til enda. Þá var birt grein í Lesbók Morgunblaðsins 5. desember 1987, 40 árum eftir strandið, sem er sögð frásögn frá björgunarmönnunum sjálfum. Þar er ítarleg lýsing á strandinu.

Allt tókst að bjarga 12 af 15 skipverjum af Dhoon og telst björgunarafrekið við Látrabjarg vera eitt stærsta afrek í björgunarsögu Íslands.

Ólafur Valdimar Ómarsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • www.kvikmyndavefurinn.is/films/nr/434. Sótt 11.11.2021.
  • Lesbók Morgunblaðsins 5. desember 1987, bls. 11-12.
  • Morgunblaðið 19. desember 1987, bls. 2 og 12
  • Tíminn 13. og 14. janúar 1948, bls. 3 og 6.
  • ÞÍ. Sýslumaðurinn í Barðastrandarsýslu, 2009/69, FA1/1, örk 2.

Dhoon strandið 1947. Úr lögregluþingbók Barðastrandarsýslu
Dhoon strandið 1947. Úr lögregluþingbók Barðastrandarsýslu
Dhoon strandið 1947. Úr lögregluþingbók Barðastrandarsýslu