Desember 2021

Vinnukona stefnir bónda fyrir dóm

ÞÍ. Sýslumaðurinn í Árnessýslu 2003 GA/1-3. Dómsmálabók 1916-1917. ÞÍ. Sýslumaðurinn í Árnessýslu GB/8-1. Dómsskjöl 1917.

Réttur íslenskra vinnukvenna fram á 20. öld var nánast enginn og hægt var að fara með þær svo að segja að vild. Laun kvennanna voru lengi vel aðeins fæði og klæði og ævinlega voru laun þeirra mun lægri en laun karla þrátt fyrir sömu vinnu. Vinnudagur þeirra var í ofanálag mun lengri. Konur unnu til að mynda sömu vinnu og karlmenn við heyskap. Álagið var mikið og jafnvel svo að kvenfólk gekk að slætti fram á síðasta dag á meðgöngu. Að loknum löngum og jafn erfiðum vinnudegi beggja kynjanna beið kvenna hins vegar að sinna ýmsum þjónustubrögðum þ.á.m. að þjónusta vinnumennina þegar inn í bæinn kom. Eftir kvöldmatinn háttuðu karlmennirnir, ósjaldan með aðstoð kvennanna, og við tók vinna fyrir þær við að þvo sokka og vettlinga, bæta og stoppa í föt jafnvel langt fram á nætur. Þessi siður var landlægur jafnt sumar sem vetur eitthvað fram yfir aldamótin 1900. Snemma næsta morgun beið svo það verk að sjá um morgunverðinn áður en farið var út í heyskapinn. Það er því ljóst að vinnudagur kvenna var mun lengri en karla. Um þetta segir Guðmundur Hjaltason í greininni „Um kjör kvenna“ árið 1885:

Það er t.d. heldur leiðinlegt að sjá hvernig vinnukonur þurfa að stjana við vinnumenn, rétt eins og þeir væru hjálparlausir krakkar. Þegar piltar koma inn eru stúlkur skyldar til að leysa skó þeirra, færa þá úr sokkunum og stundum buxunum, þurka síðan fætur þeirra, þvo og þurka sokka og föt þeirra og svo kemur nú skemmtivinnan! að taka skóna blauta, foruga og götótta, þurka þá upp og sitja síðan við að staga þá og það stundum langt fram á nótt … - Og nú bætist eitt við: vinnumenn reka eftir þeim og heimta vægðarlaust að skór, sokkar og föt sé þurt, bætt og að öllu í góðu standi að morgni.

Allar vinnukonur þjónuðu tilteknum heimilismanni og það fyrsta sem beið þeirra þegar í kaupavinnuna kom var að fá vitneskju um það hverjum þær skyldu þjóna. Ekki hafa vinnukonur almennt þorað að kvarta því flestar þeirra voru í bágri stöðu og jafnvel með barn eða börn til þess að sjá fyrir.

Sumarið 1916 gerðist hins vegar það merkilega að Guðrún Þorleifsdóttir (1873-1961) í Árnessýslu hreinlega neitaði að þjóna kaupamanninum sem hún átti að þjóna. Missti hún vinnuna fyrir vikið. Hún hafði ráðist sem kaupakona til bóndans Indriða Guðmundssonar á Kringlu í Grímsnesi þá um sumarið og var samningurinn til eins árs. Með henni var barn hennar á þriðja ári og skyldu laun hennar vera fæði og klæði fyrir barnið, sokkar, skór og vettlingar fyrir hana sjálfa. Þegar hún neitar svo að þjóna kaupamanninum segist bóndinn muna stefna henni fyrir rétt ef hún sinni þessu ekki og þjóni kaupamanninum. Indriði lét ekki verða að þessari hótun heldur ráku hann og kona hans Guðrúnu og barnið þess í stað út af heimilinu.

Í kjölfarið gerðist sá tímamótaatburður að Guðrún ákvað að kæra bóndann. Lýsti hún atburðarásinni svo með sínum eigin orðum í kærubréfi til sýslumannsins í Árnessýslu 19. október 1916:

Jeg undirskrifuð Guðrún Þorleifsdóttir var vistráðið hjú hjá Indriða Guðmundssyni bónda á Kringlu Grímsnesi og kom til hans í vistina 2 Júlí, s.l. Vistarsamningar voru þannig að ég skildi vera hjá honum árlangt og hafa í kaup föt og fæði fyrir barn mitt 2 ára gamalt og sokka, skó og vetlinga handa sjálfri mér; En 6.þ.m. skipaði húsmóðir mín mér í burtu með ókristilegum orðum og aftur 8.þ.m. Skipuðu þau bæði (húsbændur mínir) mér í burtu út af sínu heimili með barn mitt og þá undir nótt út í mirkur og rigningu án þess þó að bera fyrir sig nokkurjar lögmætar ástæður. Útaf þessu neiddist ég til að fara án þess þó að eiga nokkurn verustað fyrir mig eða barnið mitt. Er ég því …. komið til að krefjast skaðabóta fyrir burtreksturinn og vistarsvikin. Sem svari lífeyri fyrir mig og barn mitt það sem eftir er af árinu (til 2. Júlí, 1917)

Krafa mín er að nemdur Indriði Guðmundsson; - verði látinn greiða mér 2 kr á dag í lífeyri handa mér og barni mínu fyrir þá 266 daga sem eftir voru af árinu þegar hann rak mig í burtu sem verður samtals ---

Samtals kr 532,00

(stafrétt uppskrift)

Málið var tekið fyrir í rétti í Árnessýslu 13. janúar 1917 og var margt fólk á þingstað, enda hafði það ekki gerst áður að vinnukona stefndi bónda fyrir dóm í slíku máli. Sagt er að fólk hafi hrifist mjög af frammistöðu og hugrekki Guðrúnar og ekki síst kvenfólkið. Fór svo að sátt náðist í málinu en Indriði Guðmundsson bauð Guðrúnu 80 kr. í peningum gegn því að hún léti málið niður falla. Hún féllst á boð Guðmundar þó upphæðin hafi verið mun lægri en hún fór fram á:

Sátt

Indriði Guðmundsson býður fram í rjettinum 80 kr. í peningum upp í kaup Guðrúnar Þorleifsdóttur hjá sjér gegn því að hún láti þar með falla niður allar frekari kröfur og kærur gegn honum út af vistarráðningu hennar á yfirstandandi vistári hjá honum á Kringlu. Þessu boði tók Guðrún Þorleifsdóttir og lýsa þau bæði yfir því að hjúamáli þessu skuli með þessari sáttagerð vera lokið að öllu leyti af hálfu þeirra beggja. Hin greidda fjárhæð, 80 kr. var afhent Guðrúnu Þorleifsdóttur í rjettinum.

Aðiljar undirrita til staðfestu

Guðrún Þorleifsdóttir

Indriði Guðmundsson

(stafrétt uppskrift)

Með þessu dómsmáli má segja að brotið hafi verið blað í réttindamálum vinnukvenna á Íslandi og sagt var að eftir þetta hafi sá siður að vinnukonur þjónuðu kaupamönnum endurgjaldslaust lagst að mestu leyti niður þar um slóðir.

Margrét Jochumsdóttir ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • ÞÍ. Sýslumaðurinn í Árnessýslu 2003 GA/1-3. Dómsmálabók 1916-1917.
  • ÞÍ. Sýslumaðurinn í Árnessýslu GB/8-1. Dómsskjöl 1917.
  • Anna Áskelsdóttir: Úr safni minninganna – Strandapósturinn, 8. árg. 1974, bls. 104
  • Anna Sigurðardóttir, Vinna kvenna á Íslandi í 1100 ár, Reykjavík 1985, bls. 230-232
  • Guðmundur Hjaltason: „Um kjör kvenna“. Norðanfari. 24(7-8, 4. feb. 1885)
  • Sigríður Hjördís Jörundsdóttir, „Fáar voru frelsisstundirnar“, Sagnir 14. árg. 1993, bls. 14-21
  • Sigríður Th. Erlendsdóttir: „Í vist“. Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttur. Reykjavík 1980, bls. 162-165

 

Guðrún Þorleifsdóttir (1873-1961)
Bréf í lögreglurétti Árnessýslu dagsett 12. janúar 1917
Sátt í lögreglurétti Árnessýslu 13. janúar 1917