Ágúst 2021

Íslenskur sjómaður ferst í Portúgal

ÞÍ. Lögmaðurinn í Reykjavík, 0/274. B/1, örk 1.

Í skjalasafni Lögmannsins í Reykjavík sem varðveitt er á Þjóðskjalasafni Íslands má finna sjóferðabók Friðjóns Friðrikssonar og nokkur bréf tengd henni. Embætti Lögmannsins í Reykjavík var til á árunum 1929-1944 og var liður í þróun embættis Bæjafógetans í Reykjavík yfir í Borgarfógeta. Flest skjöl embættis Lögmanns eru í dag hluti af skjalasafni Borgarfógeta en einhvern tímann í þróunarsögu skjalasafnsins urðu nokkrar öskjur viðskila við meginsafnið og mynda þær í dag lítið skjalasafn Lögmannsins í Reykjavík.

Friðjón fæddist í Reykjavík 3. janúar árið 1909. Foreldrar hans voru Friðrik Hansson og Jónína Björg Jónsdóttir. Hann var fyrsta barn þeirra en þau áttu síðan eftir að eignast sjö börn til viðbótar. Fyrir átti Jónína svo tvo syni með Jóhanni Ágústi Jóhannssyni. Fjölskyldulífið var erfitt, fjögur systkini Friðjóns fengu berkla sem drógu tvö þeirra til dauða og sökum slæmrar heilsu heimilisföðurins þurfti fjölskyldan oft að reiða sig á stuðning frá Reykjavíkurbæ, svokallaða fátækraframfærslu.

Þegar Friðjón var 16 ára fór hann að stunda sjóinn. Í sjóferðabók hans má sjá að frá 5. ágúst til 22. október 1925 var hann í áhöfn á fiskiskipinu Baldri frá Reykjavík. Þar starfaði hann sem hjálparmaður og er hegðun hans sögð hafa verið góð. Næst er Friðjón skráður til skips árið 1928 á gufuskipinu Langanesi frá Siglufirði. Þar tók hann tvo túra á hákarlaveiðum, annars vegar frá 26. apríl til 25. júní og aftur frá 6. júlí til 7. september. Líkt og á Baldri þótti Friðjón standa sig með prýði og var hegðun hans sögð góð og ágæt. Því næst var Friðjón skráður á gufuskipið Vestra frá Flateyri í Önundarfirði. Vestri var stórt skip, 923 lestir og var í millilanda fraktflutningum. Friðjón var tvo túra á Vestra, fyrst frá 19. september 1929 til 22. nóvember sama ár, staða hans á skipinu var skráð sem óvaningur. Strax daginn eftir, 23. nóvember var Friðjón aftur skráður á Vestra og hafði hann þá fengið stöðuhækkun og var skráður sem viðvaningur.

Enn fréttist af Friðjóni í portúgölsku hafnarborginni Porto í janúar 1930 og var hann því þá nýorðinn 21 árs. Vestri lá þá fyrir akkerum á legunni í ánni Douro um 30 faðma frá landi. Þá hófst atburðarrás sem var skráð í skipsbók Vestra og er varðveitt í útdrætti og þýðingu danska konsúlatsins í Porto og fer hér á eftir.

Klukkan tvö eftir miðnætti fimmtudaginn 30. janúar kallar Bjarni Pálmason fyrsti stýrimaður á Vestra til vaktmanns og segist halda að skipverji hafi fallið í ánna við nokkra pramma sem eru staðsettir milli skips og lands. Upp á dekki sér Bjarni ekkert og kallar til vaktmannsins á næsta skipti, S.S. Bro, sem liggur fyrir austan Vestra og spyr hvort hann hafði séð einhvern detta í ánna. Sá segist hafa heyrt hróp og köll fyrir 10 mínútum og séð mann í ánni og farið samstundis að sækja björgunarhring en á þeim fáu sekúndum sem það tók hafi maðurinn í ánni horfið. Bjarni kallar í land á þá Ólafur Sigurðsson og Bjarni Pálsson, skipverja á Vestra, sem standa á hafnarbakkanum. Þeir segjast hafa verið að tala við lögreglumann en ekki orðið var við neitt fyrr en þeir heyrðu hróp frá ánni. Þá hafi þeir orðið þess varir að Friðjón væri horfinn og hlaupið þegar niður að prömmunum sem voru næst landi en sáu ekkert. Því næst var gerður út árabátur frá Vestra og leitað í kringum skipin og prammana en leitin bar ekki árangur.

Í Morgunblaðinu 8. febrúar birtist smáfrétt sem sagði frá hvarfi Friðjóns og 9. apríl birti fjölskylda hans tilkynningu í Alþýðublaðinu þar sem sagt var frá andlátinu en lík hans fannst aldrei.

Eftir að Friðjón lést tók Bjarni stýrimaður saman og skráði eigur hans og voru þar á meðal ýmiskonar fatnaður og yfirhafnir, pakki með myndum, veski, rakaraáhöld, tóbak og fleira. Svavar Einarsson bryti og Hrólfur Þorsteinsson háseti vottuðu skránna. Þegar Vestri kom aftur til Íslands var foreldrum Friðjóns afhendar eigur hans auk launa þeirra er hann átti inni hjá útgerðinni.

Höfundur texta: Ólafur Valdimar Ómarsson

Heimildir

  • Alþýðublaðið, 9. apríl, bls. 1.
  • Finnur Jónasson, „Fátækir menn í ónýtum hjöllum. Félagsleg aðstoð í Reykjavík á 2. og 3. áratug 20. aldar.“ Sagnir 31:1 (2016), bls. 59-72.
  • Manntal 1910.
  • Morgunblaðið, 8. febrúar 1930, bls. 4.
  • ÞÍ. Lögmaðurinn í Reykjavík, 0/274. B/1, örk 1.

Smelltu á tengilinn hér að neðan til að sækja uppskriftina.

 

Sjóferðabók fyrir Friðjón Friðriksson
Sjóferðabók fyrir Friðjón Friðriksson - Lýsing á eiganda bókarinnar
Sjóferðabók fyrir Friðjón Friðriksson - Skýrsla um ferðir eiganda bókarinnar með íslensku skipi
Sjóferðabók fyrir Friðjón Friðriksson - Skýrsla um ferðir eiganda bókarinnar með íslensku skipi
Sjóferðabók fyrir Friðjón Friðriksson - Skýrsla um ferðir eiganda bókarinnar með íslensku skipi
Bréf frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til lögmannsins í Reykjavík
Bréf frá danska konsúlnum í Porto vegna drukknunar Friðjóns Friðrikssonar
Skrá yfir eftirlátna hluti Friðjóns Friðrikssonar