Júlí 2021

„… herra Páll, með hárið danska, hafðir á lopti reyrinn spanska.“ Illdeilur Páls Vídalín lögmanns og Jóns Jónssonar karls sumarið 1711

E.9. Einkaskjalasafn, Páll Vídalín, örk 12.

Þótt jarðabókin, sem tekin var saman á árunum 1702–1714, sé kennd þeim Árna Magnússyni prófessor og handritasafnara og Páli Vídalín lögmanni þá bar Páll hitann og þungann af verkinu ásamt nokkrum aðstoðarmönnum. Páll var mættur ásamt fylgdarmönnum sínum að Ingjaldshóli í Neshreppi á Snæfellsnesi þann 18. júní 1711. Þar tók hann á tíu dögum saman jarðabók yfir hreppinn sem var undirskrifuð 27. júní en tveimur dögum síðar var bætt við færslu um Mávahlíð. Páll stefndi hreppsbúum til samfundar við sig á Ingjaldshóli, sem var þingstaður hreppsins. Þar setti hann niður tjald sitt og virðist hafa haft aðstöðu í Ingjaldshólskirkju til þess að yfirheyra jarðeigendur, umboðshaldara og leiguliða.

Jón Jónsson (f. 1643), karl að viðurnefni, bjó í Fróðárkoti, sem var fjögur hundruð að dýrleika, ásamt Bergljótu Jónsdóttur (f. 1647) og þremur dætrum þeirra. Þar má finna hann í manntalinu 1703 og í jarðabókinni frá 1711, þar sem hann er færður til bókar sem Jón Jónsson karl og þannig skrifaði hann einnig nafn sitt eins og sjá má í skjali mánaðarins. Jón Ólafsson úr Grunnavík (1705–1779) fornritafræðingur segir að Jón karl hafi verið formaður á Sandi, þ.e.a.s. Hellissandi og tilfærir erindi um hann úr rímu um formenn þar og á þá líkast til við formannavísur fremur en sjóhrakningsrímu. Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður (1859–1924) kallar hann Jón rifsa, þ.e. kennir hann við verstöðina í Rifi, sem er skammt undan, en nefnir ekki heimildir sínar fyrir því.

Grunnavíkur-Jón ólst upp í Víðidalstungu hjá Páli lögmanni frá sjö ára aldri og allt þar til hann sigldi til Kaupmannahafnar haustið 1726. Hann rekur samskipti þeirra Jóns karls og Páls lögmanns þannig að Jón karl hafi flutt kvæði í Ingjaldshólskirkju og í því sneitt að virðingu lögmannsins. Páll hafi svo látið þénara sína „drepa í öskjur“ Jóns karls sem mun þýða að þeir hafi flengt hann. Grunnavíkur-Jón þekkir hins vegar aðeins tvær línur úr kvæðinu sem að hans sögn hljóða svo: „Herra Páll með hárið franska/hefir á lofti reyrinn spanska“. Hefði hann hins vegar haft allt kvæðið í höndum þá hefði hann áttað sig á því að atburðarrásin var með allt öðrum hætti. Í kvæðinu sést nefnilega að það fjallar um það þegar Páll og þénari hans gengu í skrokk á Jóni karli. (Lesa kvæðið).

Raunveruleg atburðarrás mun hafa verið einhvern veginn þannig að Jón karl var ölvaður og með háreysti. Það fór í taugarnar á lögmanni sem sló hann og lét svo þénara sinn tuska hann til. Í kjölfarið mun Jón karl svo hafa samið kvæðið Páli lögmanni til minnkunar. Það var hins vegar ekki fyrr en þremur árum síðar, þ.e. 12. júní 1714, að hann stefndi lögmanni fyrir aðfarirnar gegn sér og mundi þá ekki nákvæma dagsetningu, aðeins mánuðinn og árið. Við málshöfðunina mun hann líkast til hafa notið aðstoðar Odds Sigurðssonar (1681–1741) varalögmanns og umboðsmanns stiftamtmanns. Oddur bjó á Narfeyri á Snæfellsnesi og hélt einnig hálfa sýsluna, en hann var svarinn óvinur Páls lögmanns.

Í stefnuskjalinu segist Jón karl stefna Páli til Ingjaldshólsþings, 1. október 1714, fyrir þau „misverk“ sem hann hafi saklaus liðið af lögmanni í Ingjaldshólskirkju í júnímánuði 1711. Páll hafi rifið af sér höfuðfat sitt, þ.e. hettuna og lamið sig með henni en við það hafi derið rifnað af. Þá hafi hann barið sig í andlitið með reyrstaf sínum þannig að bólga og mar hafi myndast fyrir neðan annað augað. Loks bæri lögmaður ábyrgð á þeirri laklegu viðhöndlan og meðferð sem hann varð fyrir af þjónustumanni hans, Þórði Þorvarðssyni, sem hafi rifið föt Jóns karls í átökunum.

Spanskreyr var notaður hér áður fyrr af kennurum.

Spanskreyr var notaður hér áður fyrr af kennurum, jafnt til að hvetja nemendur áfram í náminu og til að refsa þeim fyrir agabrot. Það er spurning hvort þetta sé það sem átt er við þegar talað er um að illa undirbúnir skólasveinar hafi setið við asnastaf. Eins og flestum mun kunnugt þá þurfa asnar oft hvatningu til þess að komast úr sporunum (sbr. keyri kennir asna að ganga) og það að sitja við asnastaf hefur því væntanlega þýtt að sitja í höggfæri við kennarann. Mynd tekin af alnetinu.

Páll brást við þessu með því að stefna Jóni karli gagnstefnu til Skálholts, 30. ágúst 1714, til þess að heyra á vitnisburði séra Þorsteins Ketilssonar og Þorkels Þorsteinssonar um hegðun hans gagnvart sér á Ingjaldshóli í júnímánuði 1711. Þessir sveinar lögmanns voru séra Þorsteinn (1688–1754) sem varð kirkjuprestur í Skálholti 5. nóvember 1714 en fékk Hrafnagil í Eyjafirði tveimur árum síðar og Þorkell (um 1692–1723) sem varð prestur að Fagranesi á Reykjaströnd árið 1717. Þórður Þorvarðsson mun líkast til hafa verið sonur Þorvarðs Jónssonar og Þorbjargar Þórðardóttur á Laugum í Hvammssveit en hann var fæddur um 1688. Jón Magnússon, bróðir Árna og mágur Páls, segir í ættartölubók sinni að hann hafi verið „giftur ólánsstrákur“. Ekki hafa fundist heimildir um hvernig málinu lauk en í bréfi Jóns Vídalín Skálholtsbiskups til Páls lögmanns, frá 31. janúar 1715, segir: „[…] ekkert er átt við stefnu Jóns kalls […]“.

Grunnavíkur-Jón segir að móðir Páls hafi ávítað son sinn fyrir framkomu hans í garð Jóns karls. Hann segir: „Ég heyrði Hildi Arngrímsdóttur munnlega álasa syni sínum, Páli lögmanni, fyrir það, og kvað það ei fremdarstykki, en hann svaraði, að slíkum þrælmennum ætti með soddan móti að kenna að gera opinbera óvirðing hjá fólki.“ Gísli Konráðsson (1787–1877) sagnaritari segir að Páll, sem var lipurt skáld, hafi ekki viljað svara þessum vísum heldur sent Jóni karli spesíu og vinsamlegt bréf. Það má vel vera að málinu hafi lokið þannig að Páll hafi sæst við Jón karl og þurft að láta fé af hendi rakna til þess að jafna sakirnar.

Það er hins vegar spurning hvort Jón karl hafi samið þessar vísur sjálfur eða notið til þess aðstoðar Odds lögmanns og jafnvel Jóns Sigurðssonar Dalaskálds (um 1685–1720). Jón Dalaskáld var um hríð í þjónustu Odds og var lögsagnari hans, fékk Strandasýslu 1712 og hélt í eitt ár en varð svo lögsagnari í Dalasýslu. Það er fremur ólíklegt að Jóni karli hafi verið kunnugt um þau agameðöl sem beitt var í latínuskólunum en Oddur hafði sem skólapiltur fengið að kenna á spanskreyr (d. spanskrør), þ.e. reyrpriki, Páls Vídalín. Páll var skólameistari í Skálholtsskóla á árunum 1690–1696 og húðstrýkti Odd fyrir að skrifa móður sinni „hégómaþvætting“ úr skólanum. Efni bréfsins komst upp því að það rataði ekki á leiðarenda heldur lenti í hrakningi, blotnaði og varð afturreka í Skálholt en þangað komið var það svo slitið á jöðrum að hver sem vildi gat lesið innihald þess. Þetta mun, að sögn Grunnavíkur-Jóns, hafa verið upptök óvildar Odds í garð Páls lögmanns.

Þó svo að Jón karl nefni það ekki berum orðum í stefnuskjali sínu þá er líklegt að Þórður Þorvarðsson hafi flengt hann að skipan Páls lögmanns. Grunnavíkur-Jón segir það a.m.k. og í stefnunni kemur fram að Þórður hafi slitið föt Jóns karls í átökunum. Þar að auki þá lýkur kvæðinu með eftirfarandi hætti og er orðunum beint að lögmanni sem hefur horft upp á aðfarirnar:

Það var yður lítillæti lofstír sléttur
að sýna yður smáan svo á hjalli
að sjá í rass á Jóni kalli.

Skólameistari refsar lærisveini sínum.

Skólameistari refsar lærisveini sínum. Mynd eftir Pieter Breugel eldra frá 1556 sem ber heitið: Asninn í skólanum. Neðst á myndinni er áletrun þar sem segir eitthvað á þá leið: Ef þú kostar asna til náms þá skaltu ekki búast við því, ef hann er í raun og veru asni, að hann útskrifist sem hestur. Mynd tekin af alnetinu.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta stefnu Jóns karls.

Heimildir

  • Lbs 21 fol, bl. 59v. Bréf Jóns Vídalín biskups til Páls Vídalín lögmanns, 31. janúar 1715.
  • Arne Magnussons private brevveksling. København 1920, bls. 27.
  • Bragi Guðmundsson, Efnamenn og eignir þeirra um 1700. Athugun á íslenskum gósseigendum í jarðabók Árna og Páls og fleiri heimildum. Ritsafn Sagnfræðistofnunar 14. Reykjavík 1985, bls. 10–13.
  • Dalamenn. Æviskrár 1703–1961 II. Tekið hefur saman Jón Guðnason. Reykjavík 1961, bls. 42.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1950, bls. 260–261.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 V. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1952, bls. 153, 219–220.
  • Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns V. Kaupmannahöfn 1931–1933, bls. 200, 241 256, 258.
  • Jón Ólafsson, „Um þá lærðu Vídalína“. Merkir Íslendingar. Ævisögur og minningargreinar IV. Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar. Reykjavík 1950, bls. 101–102, 109, 161–162.
  • Jón Ólafsson, „Oddur Sigurðsson“. Merkir Íslendingar. Ævisögur og minningargreinar V. Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar. Reykjavík 1951, bls. 34–35.
  • Manntal á Íslandi árið 1703. Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Ásamt manntali 1729 í þrem sýslum. Reykjavík 1924–1947, bls. 111.
  • Páll Vídalín, Recensus poetarum et scriptorum Islandorum hujus et superioris seculi. Viðauki séra Þorsteins Péturssonar I. Texti. Jón Samsonarson bjó til prentunar. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Rit 29. Reykjavík 1985, bls. 220.
  • Vísnakver Páls lögmanns Vídalíns (1667–1727). Jón Þorkelsson sá um prentun á því. Kaupmannahöfn 1897, bls. civ–cv, 198–199.

 

Kvæði Jóns Jónssonar karls

[Kvæði Jóns Jónssonar karls, sbr. Vísnakver Páls lögmanns Vídalíns (1667–1727). Jón Þorkelsson sá um prentun á því. Kaupmannahöfn 1897, bls. 198–199.]

Nokkrar gamanvísur.

Heldur varstu hátalaður Hóls á þingi,
herra Páll, með hárið danska,
hafðir á lopti reyrinn spanska.

Heyrt hef eg þinn herradómur hér á nesi,
að keypt hafi af þrælum þínum
að þjaka fast að beinum mínum.

Og gefið til þess gjaldið slétta (úr) gulum posa;
svo sköruglega skeinkja meiga
og skyrinu sletta, sem það eiga.

Þú gefur mér hvorki gelgjuroð né gáms þunnildi,
það er víl og þó án hneisu,
þér eigið sjálfir langa reisu.

Aldrei hef eg á æfi minni áður fyrri
verið úr húsi drottins dreginn
og dapurlega höggum sleginn.

Gerzt hef eg hjá góðum mönnum glaðr af víni,
alli(r) þeir með æru sína
ósiðsemi liðu mína.

En það leizt ekki þér að gera, þú lögmaður!
ef þú mátt með heiðri heita;
heppinn er sá góðs skal leita.

Aldrei skal eg þó áhrinsorðum illa biðja,
nema eg til þess neyðast meigi;
náðin drottins bregzt mér eigi.

Það var yðar lítillæti lofstír sléttur
að sýna yður smáan svo á hjalli
að sjá í rass á Jóni kalli.

Smelltu á tengilinn hér að neðan til að sækja uppskriftina.

 

Stefna Jóns karls í Fróðárkoti 12. júní 1714.
Stefna Jóns karls í Fróðárkoti 12. júní 1714.