Júní 2021

„Arftaki Trabantsins verður að sjálfsögðu Volkswagen“

ÞÍ. Félagið Ísland – DDR 2018/104.

Ekki finnast nákvæmar heimildir um hvenær Íslensk-þýska menningarfélagið var stofnað en líklega var það árið 1953. Árið 1974 var nafni félagsins breytt í Félagið Ísland – DDR. Markmið félagsins var að treysta vináttubönd og samstarf við Þýska alþýðulýðveldið, betur þekkt sem Austur-Þýskaland. Félagið starfaði allt til 12. desember 1990 þegar því var slitið á félagsfundi en þá hafði Þýska alþýðulýðveldið verið lagt niður og Þýskaland sameinast í eitt ríki þann 3. október sama ár. Því töldu félagsmenn að tilgangur félagsins væri brostinn enda „í rauninni ekkert eftir af því sem tengdi okkur við Þýskaland“ svo vitnað sé í fundargerð félagsins frá 27. nóvember 1990. Sameining Þýskalands í eitt ríki kom í kjölfar þess að um ári áður hafði gætt vaxandi á óánægju og ólgu meðal íbúa Austur-Þýskalands með stjórnvöld. Það leiddi m.a. til þess að Berlínarmúrinn, sem skildi að Austur- og Vestur-Berlín og kommúnistastjórn Austur-Þýskalands hafði reist árið 1961, féll dagana 9.-10. nóvember 1989. Atburðarrásin í kjölfarið leiddi til þess að kommúnistastjórnir Austur-Evrópu féllu hver af annarri og þar með hið svokallaða járntjald.

Skjalasafn Félagsins Ísland – DDR var afhent Þjóðskjalasafni Íslands til varðveislu 11. september 2018. Í skjalasafninu er að finna upplýsingar um starfsemi félagsins aftur til sjöunda áratugar síðustu aldar og þar til það var lagt niður. Í skjalasafninu má sjá að starfsemi félagsins hefur verið fjölbreytt. Má þar nefna að í gegnum félagið gátu íslensk börn sótt æskulýðsbúðir í Austur-Þýskalandi og Eystrasaltsríkjunum, félagið stóð fyrir sýningum á fræðslukvikmyndum frá Austur-Þýskalandi, tónlistarviðburðum, ferðum til Austur-Þýskalands og árlegri dagskrá á þjóðarhátíðardegi alþýðulýðveldisins.

Í fundargerðarbók Félagsins Ísland – DDR má sjá að félagsmenn fara að ræða áhyggjur af málum í Austur-Þýskalandi í lok árs 1989 og allt árið 1990. Á fundi 12. desember 1989 var sérstaklega boðað til stjórnarfundar til að gera grein fyrir að „allt væri við sama í starfi félagsins þrátt fyrir umrót í DDR“. Aðalfundi sem vera átti í lok nóvember það ár hafði jafnframt verið frestað. Á öllum fundum félagsins árið 1990 var rætt um ástand mála í Austur-Þýskalandi og á nokkrum fundum fengnir gestir til að skýra frá málum. Klaus Bredow, sendifulltrúi Austur-Þýskalands á Íslandi, lýsti ástandi mála í sínu heimalandi á aðalfundi félagsins 27. febrúar 1990. Í máli Bredow kom m.a. fram að ríkisstjórn Austur-Þýskalands hefði metið ástand mála rangt og ekki gert sér grein fyrir kröfu almennings um breytingar „og Perestrojku“. Í kjölfarið tók „fjöldinn á götunni [...] völdin í sínar hendur og gerbreytti heimsmynd okkar“ eins og frásögn Bredow er orðuð í fundargerðarbók félagsins en það var Haukur Már Haraldsson, varaformaður, sem ritaði. Frásögn Bredow er athyglisverð og er samtímaheimild um breytingarnar sem voru í gangi í Þýskalandi, en Bredow hafði verið sendiráðsfulltrúi á Íslandi frá árinu 1986. Frásögnin er yfirveguð og gætir gagnrýni á stjórnvöld í Austur-Þýskalandi og að þau hafi ekki svarað kalli tímans. Um sameiningu þýsku ríkjanna tveggja sagði Bredow að íbúar Austur-Þýskalands vildu ekki láta kaupa sig né hernema heldur vildu þau nálgast samstarf og hugmyndir um sameiningu á jafnréttisgrundvelli: „arftaki Trabantsins verður að sjálfsögðu Volkswagen“. Endurrit af frásögn Bedrow má finna hér fyrr neðan. Þess má geta að í viðtali við Morgunblaðið 8. febrúar 1990 kvað við sama tón hjá Bredow.

Eðlilega voru félagsmenn að velta fyrir sér hver framtíð félagsins yrði í þessari nýju heimsmynd. Var m.a. rætt um stofnun nýs félags. Á félagsfundi 12. desember 1990 var að lokum borin upp tillaga um að slíta félaginu enda starfsvettvangur félagsins brostinn. Á þessum síðasta fundi var farið yfir málin vítt og breytt, farið yfir tæplega 40 ára sögu félagsins og m.a. rætt um að koma fundargerðarbókum félagsins til varðveislu á Þjóðskjalasafnið. Tillaga um slit félagsins var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Örn Erlendsson, formaður félagsins, kvaddi Félagið Ísland – DDR og félagsmenn með þessum orðum:

„Við kveðjum þetta félag með söknuði, kveðjum hugsjónir, drauma og vonir sem kannski lifa enn með einhverjum en þarf ef til vill einhverja hvíld áður en byrjað er á nýjan leik.“

Njörður Sigurðsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp valda texta (sjá meðfylgjandi skjal neðar).

Heimildir

  • ÞÍ. Félagið Ísland – DDR 2018/104..
  • Morgunblaðið 8. febrúar 1990, bls. 22.

Smellið á tengilinn hér að neðan til að sækja uppskrift af völdum textum úr fundargerð félagsins.

Úr fundargerðarbók Félagsins Ísland – DDR. Hér er birt frásögn Klaus Bredow, sendifulltrúa Austur-Þýskalands á Íslandi, um ástand mála í sínu heimalandi á aðalfundi félagsins 27. febrúar 1990. Haukur Már Haraldsson, varaformaður félagsins, var fundarritari.
Úr fundargerðarbók Félagsins Ísland – DDR. Hér er birt frásögn Klaus Bredow, sendifulltrúa Austur-Þýskalands á Íslandi, um ástand mála í sínu heimalandi á aðalfundi félagsins 27. febrúar 1990. Haukur Már Haraldsson, varaformaður félagsins, var fundarritari.
Úr fundargerðarbók Félagsins Ísland – DDR. Hér er birt frásögn Klaus Bredow, sendifulltrúa Austur-Þýskalands á Íslandi, um ástand mála í sínu heimalandi á aðalfundi félagsins 27. febrúar 1990. Haukur Már Haraldsson, varaformaður félagsins, var fundarritari.
Úr fundargerðarbók Félagsins Ísland – DDR. Hér er birt frásögn Klaus Bredow, sendifulltrúa Austur-Þýskalands á Íslandi, um ástand mála í sínu heimalandi á aðalfundi félagsins 27. febrúar 1990. Haukur Már Haraldsson, varaformaður félagsins, var fundarritari.
Bæklingur um Þýska alþýðulýðveldið frá árinu 1981 sem fylgdi með skjalasafni Félagsins Ísland – DDR
Bæklingur um Þýska alþýðulýðveldið frá árinu 1981 sem fylgdi með skjalasafni Félagsins Ísland – DDR
Borðfáni með merki Austur-Berlínar sem fylgdi með skjalasafni Félagsins Ísland – DDR.
Bréf Félagsins Ísland – DDR til félagsmanna með boði á kvikmynd í tilefni 38. þjóðhátíðardags Þýska alþýðulýðveldisins sem var 7. október 1987.