Apríl 2021

Vinnumaður lögsækir sýslumann á 18. öld

ÞÍ. Skjalasafn stiftamtmanns III, 225. Dómskjöl yfirréttar 1758-1764 A 39, 23.

Þorði ég því ei annað en fara liðugur með honum sama dag til hans heimilis, þar ég öngvan cautionista fékk og hann ætlaði að taka mig fastan. Að hvörju gjörðu, þá ég var til hans heimilis kominn, lét hann böðulinn binda mínar hendur og fætur við fjósstaðina og lét hann þar hýða mig og hafði fyrir vitni þar til sína 2 þénara, hvar ég þorði í engu í móti að brjótast svo hans álagt straff yrði mér ei þyngra.

Þetta og meira mátti lesa í bónarbréfi (memorial) undir nafni Jóns Árnasonar, vinnumanns í Holti í Mýrdal, til Björns Markússonar lögmanns þann 30. nóvember 1758, þar sem hann kvartaði undan sýslumanninum Lýði Guðmundssyni og óskaði eftir landþingsréttarstefnu gegn honum. Forsaga málsins er sú að um mánuði fyrr, þann 23. október, hafði Jóni verið stefnt fyrir rétt sýslumannsins á Dyrhólum vegna gruns um að hafa stolið ýmsum verðmætum frá ábúendum á Norðurgarði. Þar á meðal voru blátt klæði, grátt vaðmál, sekkur með ull, þrír treflar og smámunir úr eiri og látúni ásamt fleiru.

Ástæða þess að Jón lá undir grun um þjófnað var sú að þegar innbrotið uppgötvaðist, þann 3. október, var hann stöðvaður á ferð á Sólheimasandi með poka af ull. Ullina sagðist hann hafa fengið hjá öðrum vinnumanni, Þorsteini Vigfússyni á Ketilsstöðum, vikuna áður. Í málsskjölunum kemur fram að Þorsteinn hafi verið „óærlegur maður“ og hafði því væntanlega sjálfur hlotið dóm fyrir þjófnað. Þorsteinn neitaði hins vegar að kannast nokkuð við þessa ull.

Það gekk illa að tengja fleiri hluti úr ráninu við Jón. Annað heimilisfólk í Holti, Jón Jónsson og Halla Pétursdóttir, gátu þar að auki veitt honum fjarvistarsönnun. Jón Jónsson sagði að Jón Árnason hefði verið lagstur til svefns í rúminu á móti þegar hann sjálfur fór að sofa þá þriðjungur var af nóttu. Jón hefði legið þar um morguninn þegar hann vaknaði og engir hestanna á bænum hefði verið hreyfðir um nóttina. Verjandi Jóns benti að auki á þá staðreynd að Jón Árnason ætti enga yfirhöfn. Þessa nótt hefði verið rigning og áin milli bæjanna nær ófær. Engu að síður hefði Jón vaknað í sömu fötum og hann lagðist í til svefns, þurrum.

Sýslumaðurinn dæmdi Jón sekan fyrir þjófslega meðhöndlan á ullinni en refsing fyrir fyrsta þjófnaðarbrot var húðstrýking. Einnig var hann dæmdur til að greiða eiganda hinna stolnu hluta tvígjöld í bætur, 30 ríkisdali, og 20 álnir í málskostnað. Þingvitnum bar saman um að Jón ætti færleik og tómt skrín. Jón áfrýjaði dómnum en daginn eftir var eftirfarandi færsla færð inn í dómabókina:

Þann 24. Octobris 1758 gekk Jón Árnason aftur frá þessu sínu hér að ofangjörðu appelli og gaf sig viljugur undir straffið eftir dómnum, sem hann útstóð að Vík í Mýrdal á heimili sýslumannsins Lýðs Guðmundssonar, vitnum vér undirskrifaður sem tilkvaddir viðverandi vottar,
Árni Oddsson, Árni Þorgeirsson.

Mánuði síðar kvartaði Jón undan meðferð Lýðs Guðmundssonar sýslumanns í fyrrnefndu bónarbréfi, þar sem hann ásakaði hann meðal annars um að hafa hallað á sig í réttarhaldinu, heimtað af sér 60 rd. tryggingu og loks neytt sig til að gefa áfrýjun upp á bátinn og gangast undir refsinguna. Ekki mættu allir mótaðilar Jóns til alþingis fyrir landþingsréttinn en Jón óskaði eftir aðstoð við að stefna málinu aftur til næsta árs. Um leið gaf hann í skyn að hann hefði mætt hindrunum heima í héraði þegar hann reyndi að færa sönnur á þá atburðarás sem hann lýsti í bréfinu.

Hófst þá viðureign Jóns Árnasonar og Lýðs Guðmundssonar og ekki verður annað sagt en Jón hafi farið halloka. Teknir voru fleiri vitnisburðir þess efnis að ullin sem Jón var gripinn með hafi verið þekkjanleg sem sú sama og stolið var úr Norðurgarði, auk þess sem Þorsteinn Vigfússon fékk að sverja fríunareið upp á að hann hefði ekki afhent Jóni neina ull. Vitni að handtöku Jóns og refsingu héldu því fram að hún hefði farið fram með hans samþykki. Eitt vitni að handtökunni minntist á viðmót Jóns við sýslumanninn, hann hefði haldið í ístað hans er hann fór á bak og leitað svo að keyri hans.

Árni Þorgeirsson, sem var vitni að hýðingunni, fullyrti að þó Jón hefði verið bundinn við fjósstoðina hefði hann allan tímann staðið í fæturna og aldrei hefði þungi hans hvílt á höndunum eða bandinu. „Í allan máta sýndist mér Jón óneyddur og viljuglega ganga undir straffið, jafnvel þó hann sýndist nokkuð glutna þá hann var að fara úr fötunum.“ Jóni hafi svo verið boðinn matur og hey en hann ekki þegið. Seinna þinginu um þetta mál lauk á því að sættadómarinn Bjarni Nikulásson lýsti því yfir að Jón hefði komið í sýsluna sem landhlaupari án þess að hafa með sér nokkra vitnisburði og hefði staðið í ýmsum óskilum.

Með þessa vitnisburði í farteskinu mætti Jón sýslumanninum á Alþingi sumarið 1760 en hafði þá að auki stefnt Bjarna Nikulássyni. Dómsniðurstaða Björns Markússonar var sú að upphaflegi dómurinn yfir Jóni var staðfestur og hann dæmdur til að greiða sýslumanninum 100 álna sekt innan sex vikna fyrir óþarfa málshöfðun. Ef marka má innlegg Lýðs fyrir þeim sama rétti hefur hann hugsað sér að Jón, allslaus maðurinn, innti þessa sekt af hendi með fangelsiserfiði. Lýður var aftur á móti dæmdur til að greiða einn ríkisdal til fátækra í Mýrdal þar sem það væri ekki „með skýlausum skýrum og ómótmælanlegum vitnum fullkomlega bevísað“ að Jón hefði hætt við áfrýjunina af frjálsum vilja. Talsmaður Jóns áfrýjaði dómnum en lagði hvorki fram tryggingu né skrifaralaun.

Sumarið 1763 rak Jón mál sitt fyrir yfirréttinum með hjálp tveggja konunglegra bréfa. Niðurstaða yfirrréttarins var sú að upphaflegi dómurinn var enn á ný staðfestur en Lýður var dæmdur til að greiða fjóra ríkisdali til fátækra í Mýrdal og fjóra til Jóns sjálfs, fyrir of hastarlega framkvæmd refsingarinnar. Samkvæmt konungsbréfinu bar Jóni að greiða talsmanni sínum laun af þeim bótum sem honum kynnu að verða dæmdar.

Það er hægara sagt en gert að finna frekari heimildir um Jón en þær sem urðu til í málarekstri hans fyrir yfirréttinum. Hann hét algengu nafni, fæðingarár hans kemur ekki fram og ekki heldur uppruni hans, nema hvað hann var aðkomumaður í Vestur-Skaftafellssýslu í tíð Bjarna Nikulássonar. Bjarni sagði sýslunni lausri árið 1756 en fékk formlega lausn 8. mars 1757. Af frumskjölum má sjá að Jón Árnason gat skrifað nafnið sitt en ekki meira en það. Málarekstur á borð við þann sem Jón Árnason stóð í krafðist góðrar skriftar- og dönskukunnáttu, þekkingu á lögum og stjórnkerfi, tíma og peninga. Því er ljóst að Jón stóð ekki einn í þessu og hið sama gaf Lýður Guðmundsson í skyn í vörn sinn fyrir landþingsréttinum: „Því sjá allir menn að þetta er hans underfindug partiska og hrekkvísar udflugter, af honum eður hans vinum samstilltar.“ En hverjir voru þessir vinir hans?

Í héraði voru hreppstjórarnir Bjarni Eiríksson og Hávarður Einarsson talsmenn Jóns. Fyrir landþingisréttinum sá lögréttumaðurinn Þórður Árnason úr Múlaþingi um mál Jóns en Pétur Þorsteinsson, sýslumaður í Norður-Múlasýslu, rak mál hans fyrir yfirréttinum 1763. Það er þó ekki víst að Jón Árnason hafi sérstaklega valið þá til að sinna málum sínum. Þess má geta að 14. júní 1762 lét Pétur Þorsteinsson lýsa eftir Jóni Árnasyni úr Skaftafellssýslu, dæmdum þjófi sem hafi nú framið sitt þriðja barneignarbrot. Sé um sama mann að ræða má segja að Jón Árnason hafi verið heldur óheppinn með verjanda sumarið 1763.

Athygli vekur að í hinum tveimur konunglegu bréfum frá árinu 1763 er heimili Jóns sagt vera Skriðuklaustur. Þar bjó sýslumaðurinn í Suður-Múlasýslu, Hans Wium. Þá er enn óminnst á Jón Sigurðsson, fyrrverandi sýslumann í Holti í Mýrdal. Hann hafði gegnt sýslumannsstörfum í Skaftafellsþingi árin 1731-1734 og í mið- og suðurhluta Múlaþings 1752-1756. Hann var viðstaddur fyrstu réttarhöldin yfir Jóni Árnasyni og Jón óskaði eftir honum sem sættadómara í málinu.

Jón Sigurðsson var húsbóndi Jóns Árnasonar þegar ránið var framið, þó hann sé ekki titlaður svo í málsskjölunum og hafi ekki verið stefnt sem vitni. Um það leyti sem ránið var framið átti Jón Sigurðsson í miklum deilum við klausturhaldarann Jón Thorlacius vegna reikninga Kirkjubæjarklausturs og þar kom Lýður Guðmundsson við sögu. Þann 28. september 1758 dæmdi Lýður Jón Sigurðsson til að greiða klausturhaldaranum umtalsverða fjármuni vegna vangoldinna reikninga. Þann 5. og 7. maí 1759 innsiglaði Lýður svo öll bæjarhús á Holti og bannaði Jóni Sigurðssyni að fjarlægja þaðan nokkurn hlut. Báðum þessum ákvörðunum sýslumannsins áfrýjaði Jón Sigurðsson til lögþingisdóms í júlí 1759, á sama þingi og dæmt var í máli Jóns Árnasonar, og hafði í frammi „grófar expressionir“. Því er hægt að álykta að Jón Árnason hafi lent á milli tveggja sér voldugri manna.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • ÞÍ. Skjalasafn stiftamtmanns III, 225. Dómskjöl yfirréttar 1758-1764 A 39, 23 (skjöl í þjófnaðarmáli Jóns Árnasonar úr Skaftafellssýslu (1758-1763) eru varðveitt í skjalasafni stiftamtmanns. Þau munu birtast í heildarútgáfu skjala yfirréttarins sem Þjóðskjalasafn Íslands vinnur að með styrk frá Alþingi).
  • Alþingisbækur Íslands XIV, 1751–1765. Reykjavík 1977, bls. 332-336 og 339-340.
  • Dómabók N-Múlasýslu (1758-1778), bls. 170. Aðgengileg í dómabókagrunni Þjóðskjalasafns Íslands.
  • Kongs Christians þess fimmta Norsku lög á íslensku útlögð (Hrappsey, 1779), bls. 737-738.
  • Páll Eggert Ólason, Íslenskar æviskrár I bindi (Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag 1948) bls. 183.
  • Páll Eggert Ólason, Íslenskar æviskrár II bindi (Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag 1949) bls. 325.
  • Páll Eggert Ólason, Íslenskar æviskrár III bindi (Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag 1950) bls. 261.

 

Dómskjal yfirréttar árið 1758.
Dómþing í Mýrdal voru haldin í Loftsalahelli. Ljósmynd: <a href="http://www.katlageopark.is/" target="_blank">Katla Geopark</a>.