Mars 2021

Íslenskur starfsmaður málmsteypuverksmiðju í dönskum iðnaðarbæ á seinni hluta 18. aldar

ÞÍ. Barðastrandarsýsla. GA/1, örk 3. Dóma- og þingbók 1791–1804.

Páll Kolbeinsson (um 1735–1815) var sonur Kolbeins Hildibrandssonar hreppstjóra og Halldóru Sigurðardóttur. Þau bjuggu á Staðarhóli í Saurbæ fram til ársins 1733 en eftir það í Neðri-Hundadal í Miðdölum og eignuðust sjö börn sem komust á legg. Auk Páls voru það Steinunn sem átti Halldór Jónsson á Harastöðum á Fellsströnd, Arndís átti Martein Egilsson á Vatni í Haukadal, Guðrún var seinni kona Magnúsar Jónssonar í Hvalgröfum á Skarðsströnd, Guðmundur sem var við verslun í Færeyjum en dó í Kaupmannahöfn, Sigurður á Mjóabóli í Haukadal og síðar í Neðri-Hundadal og loks Kolbeinn sem sigldi og mun hafa dáið á Grænlandi.

Páll er talinn hafa numið gullsmíði í Kaupmannahöfn en Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, dregur það í efa og segir hans ekki getið í heimildum þar. Heimild fyrir gullsmíðanámi Páls er Dalamenn Jóns Guðnasonar. Hann hefur væntanlega haft þessar upplýsingar úr viðbótum Hannesar Þorsteinssonar við Sýslumannaæfir Boga Benediktssonar, nema þá að þeir sæki þetta báðir beint til ættartölubókar Jóns Espólín sýslumanns. Sé gerðabók iðnfélags gullsmiða í Kaupmannahöfn hins vegar skoðuð má sjá að Eilert Martensen gullsmiður lét færa Poul Colbersen til bókar 11. janúar 1755 og mun námstíminn hafa byrjað á nýársdag 1755 og átti að ljúka sex árum síðar, þ.e. á nýársdag 1761. Þetta mun líkast til vera Páll Kolbeinsson og föðurnafnið aðeins lítillega afbakað.

Þá er vert að geta þess að gullsmíðameistarinn, sem hann lærði hjá, var Íslendingur að nafni Egill Marteinsson (um 1718–1793) en nafn hans er afbakað á ýmsa vegu í heimildum. Hann var sonur Marteins Björnssonar bartskera á Bustarfelli í Vopnafirði og Margrétar Egilsdóttur. Egill fór til Kaupmannahafnar árið 1751 og lærði hjá Sigurði Þorsteinssyni gullsmíðameistara. Hann var þá á fertugsaldri og hlýtur að hafa kunnað sitthvað fyrir sér áður en hann hélt utan því að hann fékk meistararéttindi og borgarabréf einungis tveimur árum síðar. Sama ár, þ.e. 1753, kvæntist hann Ellen Elisabeth Eegholm (1722–1788), dóttur Christen Jørgensen Eegholm (1686–1735) hattara (hattamakara) í Kaupmannahöfn. Verkstæði Egils var í Hummergade og þar hefur Páll væntanlega lært iðn sína. Hummergade lá á milli Laksegade og Holmens kanal. Hún er nú horfin að mestu en það eina sem eftir stendur af henni er hið svokallaða Bankatorg. Í manntalinu 1787 má sjá að Egill bjó í Store Købmagergade 99 (sem er lóðarnúmer en ekki húsnúmer), en það var sá hluti núverandi Købmagergade sem nær frá Amagertorgi á Strikinu til Skindergade. Þar bjó hann ásamt eiginkonu sinni, sem var titluð vurderingskone eða matskona, dóttur þeirra Cicilia Christina sem var 26 ára gömul ekkja og sjö ára syni hennar Christian. Þá var þar einnig til húsa tilvonandi tengdasonur þeirra Peter Johan Monrad (1758–1834) sem var þá aðstoðarmaður í kansellíinu en varð síðar deildarstjóri þar og konferensráð að nafnbót. Hann sat m.a. í stjórn Árnasafns. Til eru nokkur bréf frá Agli til rentukammers því að hann hafði milligöngu um lyfjasendingar til frænda síns Björns Jónssonar apótekara í Nesi en þeir voru bræðrasynir.

Humargata í Kaupmannahöfn.

Humargata sést hérna á milli Laxagötu og Styrjustrætis sem er í dag betur þekkt undir nafninu Hólmsins síki. Kort af Kaupmannahöfn frá árinu 1757. Mynd: https://www.indenforvoldene.dk/wp-content/uploads/2017/01/Hummergade-Geddes-Kvarterkort-fra-1757.jpg.

Það er til fjöldi gripa í Kaupmannahöfn sem Egill hefur smíðað. Í Kaldrananeskirkju í Bjarnarfirði má finna kaleik og patínu eftir hann frá árinu 1761. Engir smíðisgripir hafa þó fundist frá hendi Páls. Það er óljóst við hvað hann fékkst að námi loknu, þ.e. á árunum 1761–1763. Í umsókn hans til rentukammers, frá 27. apríl 1778, fór hann fram á að fá 30–40 ríkisdala styrk til þess að festa kaup á plógi því að hann hafði í hyggju að flytja heim til Íslands og starfa þar við jarðyrkju. Þar má jafnframt sjá í grófum dráttum hvað hann hafði fengist við undanfarin ár. Hann sagðist hafa síðastliðin 14 ár, þ.e. á árunum 1764–1778, unnið í málmsteypusmiðju í Frederiksværk á Norður-Sjálandi sem var fyrsti danski iðnaðarbærinn. Þar voru steyptar fallbyssur og önnur vopn fyrir danska herinn. Þá var þar einnig framleitt byssupúður, m.a. úr íslenskum brennisteini sem þótti óhreinn og var iðulega kvartað yfir lélegum gæðum hans.

Á árunum sem Páll var þar fór Johan Frederik Classen (1725–1792) fyrir málmsteypusmiðjunni. Alls voru starfsmenn og fjölskyldur þeirra um 300–400 talsins. Nálægur skógur var nytjaður til þess að reisa bindingsverkshús yfir starfsemina og til þess að byggja íbúðarhús fyrir starfsmenn. Þar að auki höfðu þeir landspildu til umráða og gátu haldið húsdýr. Þá var þar kornmylla og bakarí, auk þess sem bruggað var öl og framleitt brennivín á staðnum fyrir starfsmenn málmsteypusmiðjunnar.

Í umsókn Páls sagðist hann hafa tekið sveinspróf í gullsmíði og sú menntun hefði nýst honum undanfarin 14 ár í málmsteypusmiðjunni auk þess sem hann hefði á þeim tíma þjálfast í uppdráttarlist og látúnssmíði. Hann hefði verið kvæntur en væri nú orðinn ekkjumaður. Á þessum tíma hefði hann lagt stund á kornrækt, trjárækt og ræktað grænmeti í matjurtagarði sínum. Þar sem öll starfsemi í verksmiðjunni hefði legið niðri um hríð og allt útlit væri fyrir að hluti starfsmanna myndi missa lífsviðurværi sitt hefði hann hugsað sér að söðla um og halda heim til Íslands. Þar ætlaði hann að framfleyta sér með því að leggja stund á jarðrækt en til þess þurfi hann fyrrnefndan plóg. Um þetta leyti, nánar til tekið 12. ágúst 1777 og 20. febrúar 1778, urðu miklar sprengingar í púðurgerðinni sem sprengdu hús hennar í loft upp og ullu talsverðu tjóni á nærliggjandi byggingum og stöðvaði það framleiðsluna um hríð.

Í bréfi Skúla Magnússonar landfógeta, frá 6. apríl 1779, til rentukammers kom fram að þeir hefðu komið sér saman um að Páll skyldi sigla frá Kaupmannahöfn með fyrsta skipi sem léti úr höfn til Suðurlands. Skúli hafði hins vegar hvorki séð tangur né tetur af honum síðan og taldi hugsanlegt að hann væri jafnvel hættur við Íslandsförina þrátt fyrir að hafa tekið við 20 ríkisdölum sem hann átti að fá til fararinnar.

Hvað varð til þess að Páll hætti við Íslandsferðina liggur ekki fyrir. Hann átti þó eftir að snúa aftur til Íslands þó að óljóst sé nákvæmlega hvenær það gerðist. Í manntalinu 1801 má finna Pál meðal heimilismanna í Saurbæ á Rauðasandi og er hann titlaður gullsmiður. Þar bjó Arnfríður Brynjólfsdóttir (1742–1832) ekkja Eggerts Eggertssonar (um 1748–1783) bónda. Sjá má í dóma- og þingbók Barðastrandarsýslu að Páll var kominn til landsins talsvert fyrir það. Hann var þingvottur á manntalsþingi 11. júní 1792 í Sauðlauksdal. Þar krafðist séra Jón Ormsson (1744–1828) prófastur í Sauðlauksdal þess að sýslumaður kallaði fyrir þingið Eyjólf Árnason sem hafði yfirgefið skip Arnfríðar í Bæ og farið frá Sjöundá á Rauðasandi án hennar leyfis. Jón prófastur var kvæntur Ragnheiði systur Eggerts bónda í Saurbæ. Þá var Páll meðal vitna sem kölluð voru fyrir aukahéraðsþing 10. ágúst 1795 í Sauðlauksdal þar sem Bjarna Bjarnasyni í Kirkjuhvammi, fyrrverandi vinnumanni Arnfríðar í Bæ, var stefnt vegna orða og athafna hans við hana. Páll bar vitni um samtal þeirra.

Svo virðist sem Páll hafi haft vistaskipti og farið í vinnumennsku til séra Jóns í Sauðlauksdal. Hann var þó enn í Saurbæ árið 1808 þegar prestur húsvitjaði þar í marsmánuði. Skoski presturinn og trúboðinn Ebenezer Henderson ferðaðist um Ísland á árunum 1814–1815. Hann fór m.a. út í Flatey á Breiðafirði sumarið 1815 og að lokinni stuttri heimsókn þar hélt hann til lands á ný. Ákveðið hafði verið að koma við í Hergilsey á heimleiðinni þótt klukkan væri þrjú að morgni. Einn farþeganna var ofurölvi eftir ferð sína í kaupstaðinn og var skilinn eftir í bátnum í umsjá áttræðs vinnumanns síns. Hann nýtti sér ástand húsbónda síns til þess að gerast helst til nærgöngull við brennivínskútinn. Þegar vinnumaðurinn reyndi svo að komast upp úr bátnum var hann orðinn svo drukkinn að hann datt í sjóinn. Húsbóndi hans var ekki í standi til þess að rétta honum hjálparhönd og ef Henderson og föruneyti hans hefði ekki borið að þegar þetta gerðist hefði vinnumaðurinn drukknað. Þegar búið var að drösla honum um borð átti að halda af stað en Henderson sannfærði menn um að hann myndi ekki lifa af fimm klukkustunda róður til Brjánslækjar á Barðaströnd. Hann var því skilinn eftir í eynni þar sem hlúð var að honum. Það dugði þó ekki til því að kaldur sjórinn hafði reynst gamla manninum ofraun og hann dó tveimur dögum síðar.

Henderson nefnir engin nöfn í frásögn sinni en það gerir séra Friðrik Eggerz (1802–1894), prestur í Skarðsþingum, hins vegar í ævisagnariti sínu. Hann segir með eftirfarandi hætti frá sömu atburðum:

Séra Jón Ormsson var drykkju- og hröslumaður, hvar um ég heyrði tekið til dæmis, að hann hefði eitt sinn komið ofan í Vestureyjar með mönnum, er gengu þar til bæjar og skildu við prófast í bátnum, og karl, Pál Kolbeinsson, báða drukkna. En er þeir komu til baka hafði prófastur getað bolað Pál út úr bátnum, og stóð hann í sjónum og vildi komast aftur upp í bátinn, en hinn varnaði þess og mælti í þeim stympingum við sjálfan sig: „Sum, sum. Ekki að reisa, fella, fella.“ En fyrir því að kuldaveður var, og Páll hafði lengi verið í volkinu, varð hann innkulsa, er menn sögðu, að síðar hefði dregið honum að fullu.

Í prestsþjónustubók Flateyjar má finna færsluna um andlátið en þar segir: „Dag 12ta Junii [1815] Deide i Hergilseÿ Paull Kólbeinss. frá Saudlauksdal 84 ára gamall af takverk. Grafinn þann 18da s:m:“ Taksótt mun vera lungnabólga.

Henderson virðist hafa gefið sig á tal við Pál á ferðalaginu og þeir spjallað saman því að hann hafði eftir honum að hann hefði: „[…] ferðast um mestan hluta Evrópu og farið eina eða tvær ferðir til Austur-Indía, og staðið af sjer storma meir en áttatíu ára.“ Þegar handverksdrengir höfðu lokið sveinsprófi var ætlast til þess að þeir færu á valsinn, þ.e. leggðu land undir fót og lærðu meira í iðn sinni. Páll hefur því e.t.v. ferðast um Evrópu á árunum 1761–1763. Þá kann einnig að vera, að í stað þess að virða samkomulagið, sem hann hafði gert við Skúla landfógeta um að halda heim til Íslands vorið 1779 og vinna við jarðyrkjustörf, hafi hann ráðist í siglingar og þá komið til hafna víða í Evrópu á leið sinni til Austur-Indía.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta bréfanna.

Heimildir

 • Barðastrandarsýsla. GA/1, örk 3. Dóma- og þingbók 1791–1804, bls. 56–58, 108–112.
 • Flatey á Breiðafirði. BA/1. Prestsþjónustubók 1788–1816, bls. 284.
 • Sauðlauksdalur við Patreksfjörð. BC/2, örk 1. Sóknarmannatal 1808–1849, bls. 41–43.
 • Københavns Stadsarkiv. Guldsmedlavet. 4b. Lavsprotokol 1750–1864, án blaðsíðutals en sjá færslur frá fundi 11. janúar 1755.
 • Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir II. Með skýringum og viðaukum eptir Jón Pétursson og Hannes Þorsteinsson. Reykjavík 1889–1904, bls. 706–707.
 • Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir III. Með skýringum og viðaukum eptir Hannes Þorsteinsson. Reykjavík 1905–1908, bls. 299, 312.
 • Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir IV. Með skýringum og viðaukum eptir Hannes Þorsteinsson. Reykjavík 1909–1915, bls. 772–773.
 • Bøje, Chr. A., Danske guld og sølv smedemærker før 1870 I, København. Revideret og udvidet udgave af Bo Bramsen. København 1979, bls. 146–147.
 • Dalamenn. Æviskrár 1703–1961 I. Tekið hefir saman Jón Guðnason. Reykjavík 1961, bls. 157.
 • Dansk biografisk lexikon. Tillige omfattende Norge for tidsrummet 1537–1814 III, Brandt–Clavus. Kjøbenhavn 1889, bls. 595–600.
 • Dansk biografisk lexikon. Tillige omfattende Norge for tidsrummet 1537–1814 XI, Maar–Müllner. Kjøbenhavn 1897, bls. 467.
 • Ebenezer Henderson, Ferðabók. Frásagnir um ferðalög um þvert og endilangt Ísland árin 1814 og 1815 með vetursetu í Reykjavík. Reykjavík 1957, bls. 291–292.
 • Eriksen, Egon, Frederiks-værk. Fra kanoner til kedler 1756–1906–1956. [Án útgáfustaðar og -árs], bls. 26, 65–67.
 • Eriksen, Egon, Krudtværket på Frederiksværk 1758–1958. Frederiksværk 1958, bls. 51, 61, 65, 73–75, 106–108, 182–183.
 • Friðaðar kirkjur í Húnavatnsprófastsdæmi I. Kirkjur Íslands 7. Ritstjórn Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson. Reykjavík 2006, bls. 59–60.
 • Friðrik Eggerz, Úr fylgsnum fyrri aldar I. Bjarni Pétursson á Skarði og getið niðja hans, Ævisaga Eggerts prests Jónssonar. Reykjavík 1950, bls. 148.
 • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1950, bls. 244, 476.
 • Jón Helgason, Íslendingar í Danmörku. Fyr og síðar. Reykjavík 1931, bls. 157.
 • Lyfjafræðingatal. Lyfjafræðingar á Íslandi 1760–1982. Reykjavík 1982, bls. 30.
 • Manntal á Íslandi 1801 II, Vesturamt. Reykjavík 1979, bls. 238.
 • Nystrøm, Eiler, „Den Eegholm´ske slægtebog“, Personalhistorisk tidskrift 33:6:3 (1912), bls. 133–134, 139, 143–144.
 • „Páll Indíafari og ævilok hans“, Tíminn. Sunnudagsblað, III. ár, 8. tbl. (23. febrúar 1964), bls. 170–171, 190.
 • Þór Magnússon, Íslenzk silfursmíð II. Reykjavík 2013, bls. 142, 191.
 • Vef. Manntalsvefur danska Ríkisskjalasafnsins.

Smellið á tengilinn hér fyrir neðan til að sækja uppskriftir bréfanna.

 

Bréf Skúla Magnússonar 23. maí 1778.
Bréf Skúla Magnússonar 6. apríl 1779.
Bréf Páls Kolbeinssonar 27. apríl 1778.
Umsókn Páls Kolbeinssonar 22. júní 1778.
Friðriksverk á Norður-Sjálandi, fyrsti iðnaðarbær Danmerkur, er á milli Hróarskeldufjarðar og Arresø sem er stærsta stöðuvatn landsins. Koparstunga frá 18. öld eftir ókunnan listamann. Mynd: https://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/7/78/Frederiksv%C3%A6rk_i_Classens_tid.jpg.