Desember 2020

Dauðs manns gröf opnast – Draugasaga frá 17. öld

Bps. A. II, 8. Vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar um Austfirðingafjórðung og Eyjafjallasveit 1641–1672.

Biskup fór reglulega í vísitasíu- eða eftirlitsferðir um biskupsdæmi sitt. Sökum stærðar var aðeins hægt að komast yfir hluta þess árlega. Þegar búið var að fara yfir allt biskupsdæmið, þ.e. að þræða hvert prestakall og hverja kirkjusókn, var tími til kominn að fara aftur á upphafsreit og var því um viðvarandi verkefni að ræða sem lauk aldrei. Megintilgangurinn með þessu var að gæta þess að prestar níddu ekki niður eigur kirkjunnar og létu ekki landsvæði eða ítök, sem skiluðu þeim ekki lengur tekjum, renna úr greipum hennar. Sömuleiðis að gæta þess að kirkjujarðir héldust í byggð og bæjarhúsum væri vel við haldið en einnig að vel væri gengið um hús og muni kirkjunnar eða fylgifé hennar, þ.e. að ekkert týndist eða eyðilegðist vegna ógætilegrar notkunar eða illrar meðferðar. Allt var þetta fært inn í vísitasíubækur biskupa og gátu prestar og erfingjar þeirra orðið skuldugir kirkjunni ef viðhaldi á húsum hafði verið vanrækt eða illa gengið um gripi hennar.

En það var fleira sem biskup gat þurft að gera á vísitasíuferðum sínum um biskupsdæmið og var gjarnan fært inn í umræddar vísitasíubækur. Stundum voru haldnar prestastefnur í héraði og hafa þær ekki alltaf verið færðar inn í prestastefnubækur biskupa eftir að heim á biskupsstólinn var komið. Biskup kallaði líka gjarnan saman börnin í sókninni og kannaði kristindómsþekkingu þeirra. Þá þurfti hann stundum að setja niður deilumál milli prests og sóknarbarna.

Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup var mættur ásamt föruneyti sínu að Hofi í Öræfum, 21. september 1660, til að vísitera kirkjuna þar. Þá var séra Gísli Finnbogason (um 1631–1703) prestur í Sandfelli í Öræfum en hann vígðist þangað 16. nóvember 1656. Hof var útkirkja Sandfells og þjónaði séra Gísli því báðum kirkjunum. Biskup hafði boðað séra Þorleif Magnússon (d. e. 1660) til fundar við sig á Hofi en hann var ófriðarprestur sem hafði ítrekað lent upp á kant við sóknarbörn sín og jafnvel látið hendur skipta í samskiptum sínum við þau. Þorleifur var afsagður af sóknarbörnum sínum árið 1628 í Meðallandsþingum, hann fékk Þykkvabæjarklaustur í Álftaveri árið 1631 en þar fór einnig illt orð af honum. Loks fékk hann Sandfell um 1646 en var dæmdur frá prestskap á prestastefnu á alþingi sumarið 1656. Biskup var búinn að fá nóg af yfirgangi og ofbeldi séra Þorleifs og vildi láta reka hann burt frá Sandfelli þá strax um haustið því að annars væri hætta á að slægist í brýnu í milli séra Þorleifs og eftirmanns hans. Brynjólfur biskup hlífði séra Þorleifi ekki í bréfi til séra Magnúsar Péturssonar, prófasts í Skaftafellsprófastsdæmi, frá 1. október 1656. Þar kallaði biskup hann þvermóðskufullan skálk sem hefði alla tíð beitt meiriháttar menn jafnt sem minniháttar stöðugum ofstopa og hefði farið hríðversnandi eftir því sem áminningunum fjölgaði. Biskup sagðist ekki kæra sig um að hylma yfir með „[…] strákahnykkjum þeirra, sem prestanafnið bera, en lifa þó smaladrengjum og fjósamönnum miður […]“ Magnús prófastur aumkaði sig þó yfir séra Þorleif og leyfði honum að vera áfram í Sandfelli veturinn 1656–1657.

Það fór þó eins og Brynjólfur hafði spáð og hann stefndi séra Þorleifi á sinn fund til þess að svara því hvers vegna hann hefði haldið sig frá altarissakramentinu í nærri 1 ½ ár í Öræfum og 1 ár í Hornafirði. Altarissakramentið, eða heilög kvöldmáltíð, var ásamt skírninni annað af tveimur sakramentum, þ.e. heilögum athöfnum, lúthersku kirkjunnar. Hann svaraði því til að tvennt hefði orðið til þess að hann vanrækti það að ganga til altaris umræddan tíma. Í fyrsta lagi hefði hann ekki skilið sumar kenningargreinar séra Gísla. Í öðru lagi þá hefði síðasta vetur séra Þorleifs á Sandfelli, þ.e. veturinn 1656–1657, opnast dauðs manns gröf í kirkjugarðinum. Þegar það gerðist hafði séra Gísli verið búinn að taka við prestakallinu en ekkert aðhafst og hafi því gröfin staðið opin „[…] einkum frá 22. Februarii en séra Gísli hafi hana aftur byrgt 8. Martii […]“. Frá 25. febrúar og til páska, en páskadagur árið 1657 mun hafa borið upp á 29. mars, hafði mikil „[…] ónáð og ófriður orðið á næturnar svo rúm hafi skolfið […]“

Brynjólfur biskup tók málið föstum tökum og sagðist reiðubúinn að taka kærumál séra Þorleifs til skoðunar ef hann útlistaði nánar ákærugreinarnar. Fyrst yrði hann þó að gera grein fyrir því hvaða kenningar það voru sem séra Gísli hefði sett fram sem voru svo hneykslanlegar að hann treysti sér ekki til þess að ganga til altaris hjá honum. Auk þess yrði hann að leiða til tvö lögleg vitni um kenningargreinarnar. Það gat séra Þorleifur ekki gert, a.m.k. ekki þar og þá, en hann taldi sig geta gert það síðar. Biskup sagðist vænta skriflegs vitnisburðar þar um því að sjö sóknarmenn Hofskirkju höfðu þegar borið séra Gísla góðan og heiðarlegan vitnisburð um lærdóm hans og lifnað. Engu að síður brýndi biskup fyrir séra Gísla að tala varlega um leyndardóma drottins og halda sig við guðs orð eins og það kæmi fyrir í biblíunni. Þá skyldi hann einnig forðast tvíræða, torskilda og óvenjulega ritningarstaði sem ekki væru öllum einfeldingum ljósir né almennir í þjónustugjörðinni. Þessu lofaði séra Gísli biskupi með handabandi.

Því næst bað Brynjólfur biskup séra Þorleif að gera grein fyrir því hvernig fyrrnefndur ófriður í Sandfelli kæmi séra Gísla við. Það stæði upp á hann að sanna að ónáðadraugur hafi verið á gangi í Sandfelli og að því búnu að bera upp á séra Gísla að hann hafi valdið draugaganginum. Þorleifur gat það ekki og sagðist ekki ætla að kenna séra Gísla um hann. Biskup sagði að enginn kannaðist við að séra Gísli hafi haft neitt slíkt um hönd og þ.a.l. næðu þessar ásakanir ekki lengra. Afbatanir séra Þorleifs afsökuðu því ekki fjarveru hans frá altarissakramentinu. Því næst sættust séra Gísli og séra Þorleifur heilum sáttum og lofuðu hvor öðrum kristilegum kærleika „[…] leynt og ljóst, bak og brjóst […]“ til æviloka og að gleyma öllum gömlum væringum. Brynjólfur biskup taldi að séra Þorleifur og Þuríður, kona hans en föðurnafn hennar er óþekkt, hefðu með fjarveru sinni frá altarissakramentinu í svo langan tíma unnið sér til opinbera aflausn, þ.e. að játa syndir sínar frammi fyrir söfnuðinum og iðrast. Hann miskunnaði sig þó yfir þau vegna beiskleika, elli og andstreymis þeirra í lífinu og fyrirskipaði að þau skyldu opinberlega áminnast af séra Högna Guðmundssyni í Einholtskirkju á Mýrum í Hornafirði en takast svo til leynilegrar aflausnar.

Þó svo að séra Þorleifur hafi verið skapstyggur ofbeldisseggur og sjálfsagt gjarnan viljað spilla fyrir eftirmanni sínum þá mun hann hafa haft eitthvað til síns máls, þ.e.a.s. að gröf hafi opnast og staðið opin í tvær vikur. Væri það ósannindi hefði verið auðvelt fyrir séra Gísla að fá vitnisburð sóknarbarna sinna um að séra Þorleifur lygi þessu. Tveir samtímaannálar geta um jarðskjálftahrinur árið 1657. Þannig segir í Vallholtsannál, séra Gunnlaugs Þorsteinssonar í Hofstaðaþingum (um 1601–1674): „Miklir jarðskjálftar syðra og vestra, svo 2 bæir hrundu í Flóa án mannskaða.“ Þá segir í viðauka Vatnsfjarðarannáls, eftir séra Sigurð Jónsson í Ögri í Ísafjarðardjúpi (1631–1665): „Varð mikill jarðskjálfti, sérdeilis í Fljótshlíð, 16. Martii, svo víða hrundu veggir, og einn bær nær niður í grunn.“

Það er langur vegur úr Fljótshlíðinni og að Sandfelli en ljóst er að jarðhræringar áttu sér stað um svipað leyti og vart varð við „draugaganginn“ í Sandfelli. Sandfell er í Öræfum og þá hvarflar hugurinn til þess að hugsanlega hafi eldstöðin í Öræfajökli látið á sér kræla með tilheyrandi jarðhræringum sem hefðu getað borist yfir í næstu sýslur en ekkert meira orðið úr. Þá er einnig mögulegt að skjálftavirkni í vestanverðum Vatnajökli, þ.e. í Grímsvötnum eða Bárðarbungu, hafi verið sökudólgurinn þar sem að skjálftinn fannst einnig í Fljótshlíð og í Flóanum. Jarðskjálftar munu sjálfsagt orsök þess að gröfin opnaðist og rúmstæðin hristust. Snjó virðist hafa verið farið að taka upp fyrst gröfin sem opnaðist sást svona greinilega og frost í jörðu vafalaust ástæða þess að tvær vikur tók að loka henni. Hugmyndaheimur séra Þorleifs bauð uppá þessa útskýringu á fyrirbærinu sem hann hafði upplifað, þ.e. að tengja þetta tvennt saman með ofangreindum hætti. Hann var einn af prestunum sem höfðu lofað að sverja með séra Illuga Jónssyni í Kálfafelli í Fljótshverfi í galdramáli hans árið 1628 en snerist svo hugur, þ.e. treysti sér ekki að sverja eið þess efnis að séra Illugi hafi ekki beitt fyrir sig göldrum. Það virðist því sem að þessi draugasaga frá 17. öld sé í raun dulbúin jarðsaga, óháð því hvaða eldstöð hafi verið að verki.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp textann úr vísitasíubókinni.

Heimildir

  • Annálar 1400–1800 I. Reykjavík 1922–1927, bls. 347 (Vallholtsannáll).
  • Annálar 1400–1800 III. Reykjavík 1933–1938, bls. 83 (Viðauki Vatnsfjarðarannáls).
  • Björk Ingimundardóttir, „Sett út af sakramentinu“, Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi. Reykjavík 2001, bls. 140–151.
  • Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639–1674. Már Jónsson tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 10. Reykjavík 2005, bls. 128–129, 194–196.
  • H[annes] Þ[orsteinsson], „Æfiágrip fjögra klerka í Skaptafellsþingi á 17. og 18. öld“, Blanda. Fróðleikur gamall og nýr IV (1928–1931), bls. 97–102, bein tilvitnun af bls. 101.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 II. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1949, bls. 51, 221.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 IV. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1951, bls. 233.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 V. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1952, bls. 183.
  • Úr bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar. Jón Helgason bjó til prentunar. Safn Fræðafélagsins um Ísland og Íslendinga XII. Kaupmannahöfn 1942, bls. 84–88.

Smellið á tengilinn hér fyrir neðan til að sækja uppskriftina úr vísitasíubókinni.

 

Bps. A. II, 8. Vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar um Austfirðingafjórðung og Eyjafjallasveit 1641–1672.
Bps. A. II, 8. Vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar um Austfirðingafjórðung og Eyjafjallasveit 1641–1672.
Bps. A. II, 8. Vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar um Austfirðingafjórðung og Eyjafjallasveit 1641–1672.
Bps. A. II, 8. Vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar um Austfirðingafjórðung og Eyjafjallasveit 1641–1672.
Bps. A. II, 8. Vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar um Austfirðingafjórðung og Eyjafjallasveit 1641–1672.