September 2020

Banvæn glímutök í upphafi 18. aldar

ÞÍ. Skaftafellssýsla (Sýslumaðurinn í Vík)
C/1. Bréfabók 1692-1714, bl. 41r-v

Á vormánuðum árið 1706 barst Páli Jónssyni Vídalín (1667–1727), lögmanni í Víðidalstungu, bréf frá Magnúsi Björnssyni (um 1668–1707) sýslumanni í Snæfellsnessýslu. Páll gerði boð eftir Þórarni Jónssyni hreppstjóra á Stóru-Ásgeirsá enda tilkynnti bréfið voveiflegt andlát Ingimundar Arngrímssonar, bróðursonar hans, eftir glímukeppni í verstöð á Hellissandi.

Þórarinn Jónsson (1653–1719) átti Vatnshorn í Vatnsneshreppi en bjó á Stóru-Ásgeirsá í Víðidalshreppi sem var í eigu systra Páls Vídalín og eiginmanna þeirra. Þar var hann uns Jón Magnússon, bróðir Árna handritasafnara og mágur Páls Vídalín, fluttist þangað vorið 1711 eftir að hafa verið gert að yfirgefa Skálholtsstifti vegna hórdómsbrots. Þórarinn fluttist þá á jörð sína Vatnshorn. Hann var kallaður Þórarinn ríki því þegar best lét átti hann 800 fjár en það var talsvert meira en t.d. Páll í Víðidalstungu átti. Árni Magnússon bar Þórarni vel söguna og sagði „[…] að hann hefði aldrei vitað drykkiskap eður atburði so svífa á hann, að hann talaði af óviti […]“ Jón Ólafsson úr Grunnavík tók undir það og sagði um Þórarin að „[…] flest í fari hans var af nokkru viti […]“ Þórarinn var kvæntur Kristínu, dóttur Odds Eiríkssonar bónda og annálaritara að Fitjum í Skorradal og fyrri konu hans Sesselju Halldórsdóttur.

Ekki er vitað hverjir foreldrar Þórarins voru en í manntalinu 1703 bjó Björg (f. 1648) systir hans hjá honum en Arngrímur bróðir hans virðist hafa verið fallinn frá þegar manntalið var tekið. Þar má sjá að fjögur af börnum hans bjuggu hjá Þórarni, föðurbróður sínum, og voru titluð sem vinnufólk, þ.e. þau Gísli (f. 1674), Guðríður (f. 1677) auk Bergþórs og Kristínar (f. 1685) sem hafa líkast til verið tvíburar. Þriðji bróðirinn Jón (f. 1682) var vinnumaður á Lækjamóti árið 1703 og í jarðabókinni sem tekin var í nóvember 1706, var hann ábúandi á hálfu Lækjamóti, þ.e. þeim hluta sem tilheyrði Páli Vídalín.

Í manntalinu 1703 var Ingimundur Arngrímsson (f. 1681) 22 ára gamall vinnumaður hjá Páli Vídalín í Víðidalstungu. Grunnavíkur-Jón, sem var uppeldissonur Páls, greindi frá í ævisögu hans hvernig Páll, sem hafði verið skólameistari í Skálholti, fór að því að kenna unglingum. Hvað refsingar varðaði þá straffaði hann ógjarnan börn „[…] nema fyrir strákskap, en aldrei fyrir meinlausan leikaraskap, heldur jafnvel skipaði þeim að glíma og leika sér […]“ Menn ólust því upp við glímutök í Víðidalstungu. Þá mun Páli hafa verið annt um vinnumenn sína eins og sést af eftirfarandi frásögn Grunnavíkur-Jóns:

Marga sveitardrengi tók hann og uppól, vandi þá við harðræði, og man ég lag hans að láta menn verða sterka og reglur til að verða lagkæna í vinnu […] Þá, er hann so upp ól, urðu að vinnumönnum hans, þá hann fann þá nýta, kvænti þá frá sér, hélt þeirra brullaup, var þeim til aðstoðar alltíð síðan og tók börn þeirra til fósturs, en sjálfir þeir áttu jafnan gott ráðaskot til hans í hverju helzt, sem þeim lá nauðsyn við.

Þrátt fyrir skemmdina í skjalinu mun ljóst að Ingimundur var í þjónustu Þórarins þegar slysið átti sér stað og mun hann væntanlega hafa verið sendur út á Snæfellsnes til þess að fara í verið eða sækja þangað fisk að lokinni vetrarvertíð. Þórarinn skrifaði svo Magnúsi sýslumanni, sem bjó á Arnarstapa og var umboðsmaður Stapajarða, úr Víðidalstungu og bað hann um að taka eiða af þeim sem voru viðstaddir glímuna og mun sjálfsagt hafa notið við það góðra ráðaskota Páls lögmanns.

Þeir menn sem fram koma í vitnisburðinum og þeir sem votta hann finnast allir í Breiðavíkurhreppi á Snæfellsnesi í byrjun 18. aldar. Glíman átti sér hins vegar stað á Hellissandi en þar var verstöð sem tilheyrði Hraunskarði í Neshreppi sem var ein besta útvegsjörð landsins og ein helsta tekjulind Stapaumboðs. Sá, sem felldi Ingimund á leggjarbragði og varð valdur að dauða hans, var Þórður Guðmundsson. Í manntalinu 1703 var hann í Hrómundarbúð, sem var grasbúð frá hálfu Einarslóni í Breiðavíkurhreppi, hjá foreldrum sínum Guðmundi Bjarnasyni, örfátækum búðarmanni, og konu hans Ástríði Jónsdóttur. Þórður var þá 28 ára (f. 1675) og var með laungetinn son sinn Gísla, þriggja ára, á sínu framfæri. Í vitnisburðinum frá 1706 virðist hann kenndur við Lón, þ.e. Einarslón. Í jarðabókinni sem tekin var yfir Staðarsveit árið 1714 má finna mann með sama nafni í Glaumbæ, hjáleigu Syðri-Tungu.

Óvíst er um lyktir þessa máls en því bregður ekki fyrir í dóma- og þingbók Magnúsar Björnssonar, sýslumanns í Snæfellsnessýslu, sem nær yfir árin 1697–1706, það hefur ekki farið fyrir alþingi og Páll Vídalín færir það ekki einu sinni til bókar í samtímaannál sínum sem nær yfir árin 1700–1709. Gísla Þorkelssyni (um 1676–1725), annálaritara á Setbergi við Hafnarfjörð, fannst þó ástæða til þess að geta um þetta í sínum annál sem nær til ársins 1712. Hann nefnir ekki nafn hins látna en færslan er svohljóðandi: „Deyði snögglega maður undir Jökli á Hellissandi úr glímu.“ Í Jónsbók var gert ráð fyrir að slíkar aðstæður gætu komið upp en þar er fjallað um voðaverk í 13. kafla mannhelgi: „Nú gengur maður til leiks, fangs eður skinndráttar að vilja sínum, þá ábyrgist hann sig sjálfur að öllu þó að hann fái mein af eður skaða. En sá sem lék við hann skal synja vilja síns meður séttareiði eða bæti eftir dómi.“ Líkast til hefur Þórður svarið eið þess eðlis að um slys hafi verið að ræða og enginn illvilji búið að baki og því hafa engir eftirmálar orðið af þessu fyrir hann.

Það er merkilegt að sjá svo gamlan vitnisburð um að menn hafi glímt í verstöðvum. Þó að menn hafi væntanlega gert það allt frá upphafi Íslands byggðar þá voru vitnisburðir um það ekki skjalfestir nema eitthvað færi úrskeiðis. Þeir vitnisburðir þurfa svo að standast tímans tönn, þ.e. að standa af sér hirðuleysi aldanna og varðveitast fram á okkar dag.

Annan eldri vitnisburð má einnig nefna en það mál var tekið fyrir á tveimur þingum þann 27. apríl 1624 á Nesi í Selvogi og 7. maí 1624 á Laxárholti í Árnessýslu. Þá kærði Björn Guðmundsson mann að nafni Ívar Guðlaugsson fyrir að hafa lagt til leikfangs við sig á móti vilja sínum, fellt sig til jarðar en við það gekk handleggur hans úr liði. Glíman fór fram í eða við Vindásskála í Selvogi en þaðan var fyrrum mikið útræði. Í dómnum kemur ýmislegt merkilegt fram eins og t.d. að glímumennirnir hafi svipst upp yfir áhorfendur og að þar hafi verið sérstakur völlur þar sem glíman fór fram.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta bréfs og vitnisburðar.

Heimildir

 • AM 254 4to. Dóma- og þingbók Einars Hákonarsonar sýslumanns 1619–1626, bl. 52v, 54r–55r (bls. 102, 105–107).
 • Alþingisbækur Íslands IX, 1697–1710. Reykjavík 1957–1964, bls. 352–353.
 • Annálar 1400–1800 I. Reykjavík 1922–1927, bls. 694–702 (Annáll Páls Vídalín).
 • Annálar 1400–1800 II. Reykjavík 1927–1932, bls. 5 (Fitjaannáll).
 • Annálar 1400–1800 IV. Reykjavík 1940–1948, bls. 191 (Setbergsannáll), 334 (Sjávarborgarannáll).
 • Einar Þorkelsson, „Kenningarheiti manna í verstöðvum á Snæfellsnesi o.fl.“, Blanda VIII (1944–1948), bls. 130–131.
 • Eiríkur Guðmundsson, Jón Árni Friðjónsson, Ólafur Ásgeirsson, Sjávarbyggð undir jökli. Saga Fróðárhrepps I. Án útgáfustaðar 1988, bls. 249–250.
 • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1950, bls. 411.
 • Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns V. Kaupmannahöfn 1931–1933, bls. 133.
 • Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VIII. Kaupmannahöfn 1926, bls. 102, 239–241.
 • Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns XIII. Fylgiskjöl. Reykjavík 1990, bls. 345, 348.
 • Jón Magnússon, Grammatica Islandica. Íslenzk málfræði. Jón Axel Harðarson gaf út með inngangi, þýðingu og athugasemdum. Reykjavík 1997, bls. xviii.
 • Jón Ólafsson „Um þá lærðu Vídalína“, Merkir Íslendingar IV. Ævisögur og minningargreinar. Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar. Reykjavík 1950, bls. 133, 135–136.
 • Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 8. Reykjavík 2004, bls. 109.
 • Lúðvík Kristjánsson, Íslenzkir sjávarhættir II. Reykjavík 1982, bls. 36–37.
 • Lúðvík Kristjánsson, Íslenzkir sjávarhættir IV. Reykjavík 1985, bls. 208–212.
 • Manntal á Íslandi árið 1703. Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Ásamt manntali 1729 í þrem sýslum. Reykjavík 1924–1947, bls. 102, 257–258.
 • Þorsteinn Einarsson, Þróun glímu í íslensku þjóðlífi. Reykjavík 2006, bls. 103–115.

Smelltu á tengilinn hér fyrir neðan til að sækja uppskrift skjalsins.

 

Bréf Þórarins Jónssonar og vitnisburður viðstaddra manna.
Bréf Þórarins Jónssonar og vitnisburður viðstaddra manna.