Mars 2020

Stjórnarskráin 1874

ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin. 2004/3. Stjórnarskrá um hin sérstaklegu mál Íslands 1874.

Fyrsta stjórnarskrá Íslands, frá árinu 1874, er varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands en hún telst tvímælalaust vera eitt merkasta skjal íslenskrar sögu. Stjórnarskráin 1874 markaði tímamót á margan hátt. Hún veitti Íslendingum forræði í sérmálum landsins, en konungur hafði þó synjunarvald. Þar eru ákvæði um skipan og starfshætti alþingis, kjördæmi, kjörgengi og kosningarétt og alþingi fékk rétt til að setja fjárlög og leggja á skatta. Þar er að finna merk mannréttindaákvæði, svo sem um friðhelgi heimilis og eignarréttar, atvinnufrelsi, prent- og félagafrelsi og ekki síst trúfrelsi. Hún var ekki jafnvíðtæk og Íslendingar hefðu kosið, en hún hefur í meginatriðum verið í gildi síðan.

Varðveislusaga stjórnarskrárinnar 1874 er jafnframt merkileg, en hún átti talsvert ferðalag fyrir höndum áður en hún rataði endanlega í geymslur Þjóðskjalasafns.

Skjalasafn Íslensku stjórnardeildarinnar afhent til Íslands

Með heimastjórninni og þar með stofnun Stjórnarráðs Íslands árið 1904 færðist stjórn málefna landsins til Íslands. Sérstök deild um málefni Íslands hafði verið stofnuð í Kaupmannahöfn 10. nóvember 1848 og nefndist hún Íslenska stjórnardeildin og starfaði allt til 1904. Við stofnun Stjórnarráðs Íslands voru send til Íslands skjöl Íslensku stjórnardeildarinnar, þar á meðal frumrit stjórnarskrárinnar 1874 sem er varðveitt meðal konungsúrskurða um íslensk málefni 1849-1903 eða í tillögubók (forestillings- og resolutionsprotokol) 1874-1875. Skjöl þessi voru afhent Stjórnarráði Íslands og var án efa hugmyndin með afhendingunni að hið nýja Stjórnarráð þyrfti að hafa tiltæk skjöl er vörðuðu stjórn landsins síðustu áratugi. Voru skjöl Íslensku stjórnardeildarinnar varðveitt í Stjórnarráði Íslands allt til ársins 1915 þegar þau voru afhent Þjóðskjalasafni Íslands til varðveislu.

Skjalakröfur á hendur Dönum

Í byrjun 20. aldar óx þeirri hugmynd ásmegin að Danir ættu að skila til baka skjölum sem vörðuðu sögu og menningu Íslands. Þessar skjalakröfur voru settar fram með vísan í mikilvægi þess að sögulegar heimildir um Ísland ættu réttilega að vera varðveittar hér á landi og einnig blandaðist sjálfstæðisbaráttan inn í málið þar sem margir töldu að Ísland sem sjálfstætt ríki ætti rétt á að þessi gögn væru afhent til Íslands. Þannig var samþykkt á Alþingi árið 1907 þingsályktunartillaga Hannesar Þorsteinssonar, síðar þjóðskjalavarðar, að stjórnvöld gerðu ráðstafanir til þess að Danir skiluðu til Íslands öllum þeim skjölum og handritum embætta og stofnana sem Árni Magnússon hafði tveimur öldum fyrr fengið að láni en ekki skilað aftur.[1] Árangur þessarar kröfu var þó enginn og virðist sem að þetta mál hafi fallið í skuggann af sambandsmálum og þeim miklu deilum sem urðu vegna þeirra.[2]

Hreyfing komst ekki aftur á málið fyrr en nokkru eftir að samningur um samband Íslands og Danmerkur var gerður árið 1918 og áratuga deilur um tengsl ríkjanna höfðu hjaðnað.[3] Þingsályktunartillaga var samþykkt árið 1924 um að ríkisstjórnin gerði ráðstafanir til þess að endurheimta skjöl og handrit frá Danmörku. Ákveðið var að krefjast jafnframt skjala úr Ríkisskjalasafni Dana er vörðuðu íslensk málefni. Samningur milli Íslands og Danmerkur um gagnkvæma afhendingu á bókum og skjölum úr söfnum var svo gerður 1927 og fór afhending samkvæmt þessum samningi fram árið eftir. Um var að ræða skjalaskiptasamning og því urðu Íslendingar að afhenda skjöl úr skjalasöfnum sínum til Danmerkur. Íslandi var afhent úr Ríkisskjalasafni Danmerkur 833 bögglar og bindi skjala og skjalabóka frá 16.-19. öld. Í staðinn lét Þjóðskjalasafn Íslands skjöl úr skjalasafni Íslensku stjórnardeildarinnar, sem afhent höfðu verið frá Danmörku til Íslands árið 1904, alls 79 bindi, þar á meðal stjórnarskrána 1874 sem var hluti af skjalasafni Íslensku stjórnardeildarinnar. Þannig var stjórnarskráin frá 1874 nú komin aftur til Danmerkur og var hún varðveitt í Ríkisskjalasafninu.

Leitin að stjórnarskránni 1874

Ár og áratugir liðu og svo virðist sem að varðveislustaður stjórnarskrárinnar 1874 hafi horfið úr minni manna á einhverjum tímapunkti. Þannig má lesa í dagblaðinu Pressunni 12. mars 1992, undir fyrirsögninni „Stjórnarskráin 1874 er týnd“ frásögn af leit blaðamanns að stjórnarskránni, hún fannst ekki í Þjóðskjalasafni og skjalaverðir Ríkisskjalasafns Danmerkur virðast ekki heldur hafa vitað hvar hún væri niðurkomin. Þá virðist sem blaðamaður hafi ekki heldur fundið stjórnarskránna 1944 og svo litið út að þjóðin hafi týnt stjórnarskránum sínum eins og titill leiðara blaðsins sama dag bar með sér, „Þjóðin sem týndi stjórnarskránni“. Í leiðaranum er fjallað um hinar meintu týndu stjórnarskrár og hirðuleysi Íslendinga í þessu máli sett í samhengi við virðingaleysi landans fyrir stjórnarskrá lýðveldisins. Í leiðaranum sagði m.a.:

„Í aðra röndina er hægt að hlæja að þessu. Í hina er það auðvitað sorglegt ef einhver íslenskur embættismaður hefur tekið sig til og hent þessum plöggum um leið og hann tók til í skápunum hjá sér. Eða ef stjórnarskrárnar eru týndar inni í stöflum af óflokkuðum skjölum í gömlu Mjólkurstöðinni, þar sem Þjóðskjalasafnið er til húsa. En ef til vill er þetta mál lýsandi fyrir okkur Íslendinga. Við höfum aldrei borið neina sérstaka virðingu fyrir stjórnarskránni. Við höfum hampað henni sem skrefi í átt til sjálfstæðis þjóðarinnar. Við höfum hins vegar gefið lítið fyrir þau réttindi sem stjórnarskráin færir þegnum landsins.“

Birgir Thorlacius, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, svaraði vangaveltum blaðamanns í grein í blaðinu viku síðar. Þar benti hann á hvar stjórnarskrárnar væri að finna. Stjórnarskráin 1944 væri í skjalasafni forsætisráðuneytisins sem varðveitt væri í Þjóðskjalasafni og stjórnarskráin 1874 væri í Danmörku. Þá benti Birgir á að styttan af Kristjáni IX. fyrir framan Stjórnarráð Íslands væri villandi, en þar sést hann rétta fram skjalavöndul „með frelsisskrá í hendi“ sem á að vera stjórnarskráin 1874. Birgir benti á að styttan væri ekkert annað en táknmynd og ekki hafi verið um raunverulega afhendingu á stjórnarskrá að ræða árið 1874 og að styttan hafi mótað hugmyndir manna síðar um að slík afhending hefði farið fram. Í greininni færði Birgir þessi rök fyrir sínu máli:

„Kristján konungur IX steig á land í Reykjavík 30. júlí eða um hálfu ári eftir að stjórnarskráin hafði verið undirrituð og auglýsing birt um það. Undirritað eintak stjórnarskrárinnar er sjálfsagt meðal ríkisráðsskjala í Kaupmannahöfn frá þessum tíma. En ekki er líklegt að konungur hafi komið með hálfsársgamla, löngu birta stjórnarskrá til Íslands til afhendingar með viðhöfn. Og hverjum átti hann að afhenda slíkt skjal? Æðsti maður landsins, búsettur hér, var þá Hilmar Finsen, er verið hafði konungsfulltrúi. Hefði konungur átt að afhenda undirmanni sínum þennan póst? Eða hefði hann átt að afhenda Alþingi skjalið? Hugsanlega. En líklegast er að konungur hafi enga stjórnarskrá haft meðferðis þótt hann heimsækti Ísland fyrstur ríkjandi konunga í sambandi við afmæli þúsund ára byggðar í landinu og að stjórnarskránni útgefinni fyrir mörgum mánuðum.“

Frumrit stjórnarskrárinnar 1874 kom því aldrei til landsins á því herrans ári 1874 og ólíklegt er að konungur hafi afhent hana í heimsókn sinni eins og Birgir bendir á. Stjórnarskráin var þó birt í dagblaðinu Þjóðólfi og lesin upp á manntalsþingum og var þannig birt fyrir þjóðinni.

Stjórnarskráin 1874 afhent 2003

Stjórnarskráin, ásamt 79 bindum af skjölum Íslensku stjórnardeildarinnar, var því í Danmörku frá árinu 1928, í vörslu Ríkisskjalasafns Danmerkur. Það var svo um aldamótin síðustu að Ólafur Ásgeirsson, sem var þjóðskjalavörður 1984-2012, fór að hreyfa við málum við kollega sinn hjá Ríkisskjalasafni Danmerkur um að skjöl Íslensku stjórnardeildarinnar yrðu afhent Þjóðskjalasafni Íslands til varðveislu.

Árið 2003 var loks gert nýtt samkomulag milli þjóðanna um að skjöl íslensku stjórnardeildarinnar skyldu afhent Íslendingum til varðveislu en danska Ríkisskjalasafnið geymdi afrit þeirra. Samningur var undirritaður 9. apríl 2003 og sama dag afhenti Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Dana Davíð Oddssyni forsætisráðherra frumrit stjórnarskrárinnar frá 1874 við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík sem fyrsta hluta formlegrar afhendingar. Þar með var stjórnarskráin 1874 endanlega komin til Íslands en önnur skjöl Íslensku stjórnardeildarinnar bárust Þjóðskjalasafni árið 2004.

Þar með lauk flakki stjórnarskrárinnar 1874 og er hún nú varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands.

Njörður Sigurðsson ritaði kynningartexta.

__________________

  1. Alþingistíðindi 1907 A, bls. 1149.
  2. Sigfús Haukur Andrésson: Þjóðskjalasafn Íslands, bls. 38.
  3. Sigfús Haukur Andrésson: Þjóðskjalasafn Íslands, bls. 38.
Stjórnarskráin frá 1874.
Styttan af Kristjáni konungi IX. fyrir framan Stjórnarráðið.
Frétt Morgunblaðsins um afhendingu stjórnarskrárinnar frá 1874.