Janúar 2020

Fálkaorðuhafinn Katrín Sigríður Magnússon

ÞÍ Einkaskjalasafn E/157. Katrín Magnússon.

Sumarið 1921 heimsóttu Kristján X. konungur og Alexandrine drottning Ísland. Mikið var um dýrðir í tilefni heimsóknarinnar. Konungshjónin fóru víða og vöktu mikla athygli. Nokkru fyrir heimsóknina ákvað konungur að stofna til hinnar íslensku fálkaorðu. Í konungsbréfi sem undirritað var í Reykjavík 3. júlí 1921 sagði m.a:

Oss hefur þótt rétt, til þess að geta veitt þeim mönnum og konum, innlendum og útlendum, sem skarað hafa fram úr öðrum í því að efla heiður og hag fósturjarðarinnar að einhverju leyti, opinbera viðurkenningu, að stofna íslenska orðu, sem Vér viljum að sé nefnd „Íslenski fálkinn“.[1]

Fálkaorðan var teiknuð af Hans Christian Tegner, prófessor við Listaháskólann í Kaupmannahöfn í samstarfi með Jóni Hjaltalín Sveinbjörnssyni konungsritara og Paul Bredo Grandjean skjaldarmerkjafræðingi. Í Þjóðskjalasafni eru varðveitt frumdrög teikninga að orðunni sem bárust safninu frá danska ríkisskjalasafninu árið 2004.

Gögn er varða fálkaorðuna eru varðveitt í nokkrum skjalasöfnum innan Þjóðskjalasafns Íslands. Má þar nefna afhendingar frá embætti Forseta Íslands og forsætisráðuneytinu. Þá eru elstu gögnin varðveitt í einkaskjalasafninu E/157. Fálkaorðan hefur alla tíð verið umdeild. Lengi vel voru langflestir þeirra sem hlutu orðuna karlmenn og oft á tíðum voru þeir embættismenn, en venjulegt daglaunafólk, sem þó hafði látið til sín taka, var sjaldséð í hópi orðuhafa. Þetta hefur þó breyst á síðustu áratugum og er hópur þeirra sem hlotið hefur orðuna orðinn mun fjölbreyttari en áður.

Sérstök orðunefnd hefur starfað frá upphafi. Hefur hún það hlutverk að leita einstaklinga sem þykja hafa til þess unnið að hljóta orðuna. Í þeim tilgangi er almenningi gert kleift að tilnefna einstaklinga. Í skjalasöfnunum eru því varðveitt talsvert magn af greinargerðum og bréfum þar sem ýmsir einstaklingar eru tilnefndir. Þá var bundið í reglur um orðuna lengst af að orðuhöfum bar að senda ritara orðunnar æviferilsskýrslu. Illu heilli virðist sú regla hafa verið afnumin í forsetabréfi um starfsháttu orðunefndar árið 2005.[2] Þessi regla var hins vegar í heiðri höfð til þess til tíma a.m.k. þegar um var að ræða íslenska orðuhafa. Því er varðveitt talsvert magn af æviferilsskýrslum sem sumar hverjar a.m.k. hafa sögulegt mikilvægi. Æviferilsskýrslunar eru misítarlegar, flestar stuttar en sennilega hefur enginn ritað ítarlegri skýrslu en Finnur Jónsson prófessor sem skilaði inn stílabók með afar ítarlegri ævilýsingu.[3]

Eins og áður sagði voru orðuhafar yfirleitt karlmenn lengst af. Erlendir ríkisborgarar voru einnig áberandi. Oft var þar um að ræða erlenda embættismenn, en einnig ýmsa sem áttu í viðskiptum við Íslendinga eða fræðimenn sem höfðu sinnt rannsóknum á íslenskum mönnum eða málefnum. Fyrstu handhafar orðunar árið 1921 voru konungshjónin Kristján X og Alexandrine. Í kjölfarið fylgdu fjölmargir embættismenn, jafnt danskir sem íslenskir. Þó voru í hópi þessara fyrstu orðuhafa nokkrir einstaklingar sem voru ekki af því sauðahúsi. Að undanskildum drottningunni Alexandrine og Louise Josephine Eugenie ekkjudrottningu, voru aðeins tvær konur sem hlutu fálkaorðu. Það voru þær Elín Briem kvennaskólastjóri og Þórunn Jónassen fyrsti formaður Thorvaldsenfélagsins og stofnandi Húsmæðrafélagsins. Fræðast má um þá einstaklinga sem hlotið hafa Fálkaorðu á ágætum vef embættis Forseta Íslands.

Heimild janúarmánaðar árið 2020 er æviferilsskýrsla Katrínar Sigríðar Magnússon (1858–1932). Katrín lét mjög til sín taka í kvenréttindabaráttu og stóð framarlega í baráttunni fyrir jöfnum kosningarétti karla og kvenna. Hún var formaður Hins íslenska kvenfélags 1903–1924 og skipaði efsta sæti Kvennalistans til bæjarstjórnarkosninganna 1908. Þar hlaut hún flest atkvæði allra sem kjörnir voru það ár. Katrín sat í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908–1916. Katrín var eiginkona Guðmundar Magnússonar héraðslæknis í Skagafirði og síðar prófessors við Háskóla Íslands. Guðmundur var í hópi fyrstu lækna á Íslandi sem framkvæmdi holskurði og var Katrín honum til aðstoðar við uppskurðina frá fyrstu tíð. Sagt var að velgengi Guðmundar sem læknis hafi ekki síst verið Katrínu að þakka.[4]

Katrín var sæmd stórriddarakrossi fálkaorðunnar 1. desember 1926.[5]

Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta.

__________________

  1. Vefheimild: https://www.forseti.is/falkaordan/saga-falkaordunnar/.
  2. Vefheimild: https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=aeed09a9-1418-460d-993b-d390f44aacb7.
  3. ÞÍ. Einkaskjalasafn. E/157. Hin íslenska fálkaorða.
  4. Morgunblaðið 14.7.1932, bls. 2.
  5. ÞÍ Einkaskjalasafn E/157. Katrín Magnússon.

 

Heimildir

 

Frumdrög að útliti íslensku fálkaorðunnar.
Frumdrög að útliti íslensku fálkaorðunnar.
Æviferilsskýrsla Katrínar Sigríðar Magnússon (1858–1932).
Æviferilsskýrsla Katrínar Sigríðar Magnússon (1858–1932).
Æviferilsskýrsla Katrínar Sigríðar Magnússon (1858–1932).
Æviferilsskýrsla Katrínar Sigríðar Magnússon (1858–1932).