Maí 2019

Milliliðalaus embættisveiting. Saga frá seinni hluta 17. aldar

Hið danska kansellí. KA/3, örk 2.

Jón Halldórsson (d. 1692) var sonur séra Halldórs Marteinssonar á Álftanesi á Mýrum og Þóreyjar Jónsdóttur. Að lokinni skólagöngu var hann um hríð í þjónustu Solveigar Magnúsdóttur, Björnssonar lögmanns, ekkju Þorkels Guðmundssonar (d. 1662) sýslumanns og klausturhaldara á Þingeyrum. Þorkell og Jón voru skyldir en langalangafi þeirra var Marteinn Einarsson Skálholtsbiskup. Solveig flutti að Hólum í Eyjafirði eftir lát eiginmanns síns en Jón mun hafa verið í þjónustu hennar í kringum 1666. Þá hafði hann a.m.k. milligöngu um að hún fengi lánaða Húsafellsbók, pappírshandrit frá miðri 17. öld sem inniheldur Noregskonungasögur, og veðsetti 3 hundruð í Álftanesi sem tryggingu fyrir bókinni. Níu árum síðar, eða 1675, sótti hann bókina norður til Solveigar og fékk hana aftur Þorsteini Þórðarsyni á Skarði á Skarðsströnd sem hafði höfðað mál á hendur honum þannig að hann varð annaðhvort að láta veðið af hendi eða bókina.

Jón vígðist prestur til Borgarþinga á Mýrum, sem samanstóðu af Borgar- og Álftanessóknum, 14. júní 1668 en bjó á Lambastöðum og síðar að Langárfossi. Hann átti í útistöðum við Vigfús Jónsson á Leirulæk (Leirulækjar-Fúsa) sem eina sumarnótt 1672 hettuklæddist og reið að Langárfossi í félagi við annan mann. Þeir læddust inn í bæinn og lömdu séra Jón með lurkum þar sem hann svaf í rúmi sínu þangað til að hann missti meðvitund. Í prestasögum séra Jóns Halldórssonar í Hítardal segir hann um deilur alnafna síns og Leirulækjar-Fúsa: „[...] ättu ÿmsar brósur sÿn i millum og forliött mäl ad lÿktunum og þo halladest ä Vigfus, samt spanst þar af ölän beggia.“ Jón Ólafsson úr Grunnavík getur óvildarinnar í bókmenntasögu sinni og nefnir nokkur kvæði sem Leirulækjar-Fúsi orti séra Jóni til háðungar.

Eftir að séra Jón sleppti hendinni af prestakalli sínu sumarið 1679 var hann embættislaus um hríð. Á þeim tíma mun hann hafa farið í tvígang til Kaupmannahafnar. Þegar Borgarþing losnuðu á ný 1681 vildu vinir hans og vandamenn fá hann aftur en biskup lét það sem vind um eyru þjóta. Hann þáði fé úr hendi biskups af tillagi fátækra presta árið 1682 og þjónaði Melum í Melasveit frá hausti 1682 til fardaga 1683. Loks fékk hann Ólafsvelli á Skeiðum vorið 1683 og hélt til æviloka. Það virðist ekki vera fyrr en séra Jón var komin til Ólafsvalla að hann kvæntist en kona hans var Randíður (f. 1650), dóttir Jóns Loftssonar frá Hróarsholti. Hún bjó sem ekkja í Arnarstaðahjáleigu í Flóa ásamt tveimur sonum þeirra, fæddum 1686 og 1689, þegar manntalið 1703 var tekið. Þannig að þau hafa væntanlega gengið í hjónaband skömmu fyrir 1686.

Hítardalsklerkur segir ennfremur um nafna sinn: „[...] hann var veitingasamur en slo ser i lausingjaskap og feck so stora þanka um sialfann sig ad þekkte sig ecke [...]“ Þegar séra Jón frétti af andláti séra Björns Snæbjarnarsonar (um 1606-í júní 1679) á Staðarstað fór hann fyrirvaralaust burt úr sóknum sínum og sigldi til Kaupmannahafnar í þeirri von að tryggja sér Staðarstað sem var eitt af bestu brauðum landsins. Alnafni hans í Hítardal segir um þessa ákvörðun að hann hafi ætlað að: „sigla hærri vind“, þ.e. að stefna hærra.

Það var þó ekki svo að séra Jón sigldi upp á von og óvon því hann átti sér hauk í horni í þeim feðgum Hans Petersen Bladt og Peter Hansen Bladt sem hann kallar velgerðamann sinn. Hans var kaupmaður á Stapa en verslaði einnig í Hvalfirði og við Hvítá. Hann var svili Henriks Müller, rentumeistara Friðriks konungs III., sem var faðir Christians Müller fyrsta amtmanns á Íslandi 1688-1718. Þeir svilar fengu fjórðung íslenskra hafna þegar nýju verslunarfyrirkomulagi var komið á fót árið 1662, þ.e. Verslunarfélagi aðalútgerðarmanna sem fengu einkaleyfi á Íslandsverslun til 20 ára. Vegur Hans jókst jafnt og þétt og hann var borgarstjóri 1676-1677 og ráðmaður í borgarráði Kaupmannahafnar.

Peter fetaði í fótspor föðurs síns og kom að verslun hans á Íslandi. Hann rak verslun að Stapa og á Búðum í umboði föður síns. Þegar hann varð áskynja að Englendingar hefðu komið í land í Beruvík í Breiðavíkurhreppi sumarið 1668 og verslað þar með brennivín, tóbak og klæði gerði hann vörubirgðir þeirra upptækar. Hann lét menn sína gæta góssins á meðan hann reið að Ingjaldshóli til að gera sýslumanni viðvart. Á meðan komu Englendingar og vildu endurheimta eigur sínar en Dönum tókst að varna því. Sýslumaður dæmdi svo varning þeirra upptækan og var sá dómur staðfestur í lögréttu samsumars. Þetta hafði nokkrar afleiðingar því 1672 þegar hann sigldi til Lundúna í verslunarerindum var skip hans kyrrsett og hann hnepptur í varðhald vegna atburðanna í Beruvík. Hann sat lengi í haldi Englendinga sem vildu að hann greiddi skaðabætur og urðu talsverð eftirmál af þessu sem leystust loks vegna íhlutunar ríkisstjórna landanna.

Peter var assesor í Verslunarráðuneytinu (Kommercekollegiet) 1677-1680 og var aðlaður 15. desember 1679. Hann var hluthafi og sat í stjórn Vestur-Indíska verslunarfélagsins en margir af kaupmönnunum sem stóðu að stofnun þess höfðu áður komið að Íslandsverslun. Hann var skipaður landstjóri (opperhoved) í Trankebar, nýlendu Dana í Austur-Indíum, 13. ágúst 1680, fékk erindisbréf frá stjórn danska Austur-Indíska verslunarfélagsins og konungi 17. september 1680. Skipið Dansborg, sem átti að bera Bladt og fjölskyldu hans yfir hafið, fékk sjóvegabréf 13. október 1680 og gat við það látið úr höfn, þ.e. um leið og byr gafst. Sjóleiðin lá á milli Hjaltlandseyja og Færeyja en skipið lenti í vondu veðri og fórst undan Færeyjum. Austur-Indíafélagið sendi skip til Færeyja í apríl 1681 til að leita að Dansborg en það bar engan árangur.

Þegar séra Jón kom til Kaupmannahafnar með haustskipum 1679 þá hefur hann væntanlega reynt að tryggja sér Staðarstað. Það gekk hins vegar ekki eftir þar sem að séra Sigurður, sonur séra Sigurðar Oddssonar biskups Einarssonar, varð hlutskarpari. Sigurður sem þá var einnig staddur í Kaupmannahöfn fékk hirðstjóraveitingu fyrir staðnum 24. nóvember 1679 en konungur staðfesti þá veitingu 20. mars 1680. Líklegast hefur séra Jón í kjölfarið komist á snoðir um að í kansellíinu lægi umsókn séra Árna Þorvarðssonar á Þingvöllum um að verða aðstoðarprestur að Odda á Rangárvöllum og fá svo prestakallið eftir séra Þorleif Jónsson. Sú umsókn, frá 24. ágúst 1679, var samþykkt af kansellíinu 3. júní 1680 og konungi tveimur dögum síðar. Umsókn séra Jóns Halldórssonar fyrir Þingvöllum er dagsett 14. febrúar 1680 og var ákveðið í kansellíinu 19. maí 1680 að hann fengi Þingvelli og í greinargerð, dagsettri 21. maí 1680, segir að hann megi taka við kallinu þegar það losni. Þetta gekk hins vegar ekki eftir því séra Árni sat um kyrrt á Þingvöllum væntanlega vegna þess að séra Þorleifur í Odda taldi sig ekki hafa þörf fyrir aðstoðarprest.

Það var um haustið 1680 sem séra Jón tók sig til og orti lofkvæði á íslensku til heiðurs Peter Bladt sem eftir öll árin við Íslandsverslunina hefur e.t.v. getað skilið það. Kvæðið er frekar stirt kveðið og fyrir vikið gerði gamli óvildarmaður hans Leirulækjar-Fúsi óspart grín af honum í mun lipurlegar ortu háðkvæði. Kvæði séra Jóns er samið eftir 13. ágúst 1680 þegar Bladt var skipaður landstjóri því þar segir: „Hvörn kóngurinn hefur sjálfur sett/ í sinn stað að hann stjórni rétt/ yfir borg Indíafróns [...]“ og virðist sem þetta sé reisu- eða skilnaðarkvæði en hann óskar þess að guð gefi honum góða ferð. Síðar sést að það er ort skömmu fyrir brottför Bladt en þar biður skáldið hann að athuga hvað guð hafi gert vegna fyrirhugaðrar Indlandsferðar hans. Þar á hann við bruna mikinn sem kom upp í Kaupmannahöfn 21. október 1680 eða rúmri viku eftir að Dansborg fékk sjóvegabréfið. Hann virðist ekki hafa verið sjónarvottur að brunanum en segist hafa heyrt að 13 hús hafi orðið eldinum að bráð. Eldurinn kom upp á svæði sem afmarkaðist af Kompagnistræde, Knabrostræde, Brolæggerstræde og Raadhusstræde og var tjónið metið á rúmlega 29.000 ríkisdali.

Í lok kvæðisins segir:

Hér með bið ég þig herra hreinn
að hugsir til mín þó ég sé seinn
að mæla munnlega við,
hjá göfugum kóngi og góðum þeim
sem guð hefur sett yfir lönd og geim.

Að orða þinna æ njóti ég,
eflaust þá þú víkur á veg
[...]

Af þessu að dæma virðist sem að séra Jón hafi mælst til við Bladt að hann nýtti sambönd sín innan stjórnkerfisins og ræddi jafnvel við konung til að útvega sér embætti. Hann var embættislaus og þó hann væri ókvæntur og barnlaus þá þurfti hann með einhverju móti að framfleyta sér. Vonarbréfið fyrir Þingvöllum leysti ekki bráðan vanda hans heldur var framtíðar-músík enda sat séra Árni Þorvarðsson þar allt til æviloka, eða 2. ágúst 1702. Af bréfi séra Torfa Jónssonar prófasts í Gaulverjabæ, frá 30. júlí 1683, til Þormóðar Torfasonar sagnaritara í Noregi má sjá að séra Jón hafi borið sig eftir björginni þegar kom að því að tryggja vonarbréfið fyrir Þingvöllum. Honum hefur væntanlega í framhaldi af því verið gert ljóst að þannig skyldi hann ekki fara að aftur enda ættu umsóknir og önnur erindi að fara eftir réttum kanölum. Í bréfinu segir séra Torfi, yfirmaður séra Jóns sem þá var nýorðinn prestur að Ólafsvöllum: „Enn nu er afftur komenn D. Jonas Hallthorius Sem ellte Kong vorn a Slotzplatzenu og nade Þar med Gratis sijnu breffe fyrer Þijngvollum, [...]“ Það hefur sjálfsagt ekki verið vel liðið að menn eltu konunginn um hallartorgið í leit að milliliðalausri embættisveitingu.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp bréf og kvæði.

Heimildir

 • ÞÍ. Hið danska kansellí. KA/2, örk 99. Umsókn séra Árna Þorvarðarsonar á Þingvöllum um að verða aðstoðarprestur séra Þorleifs Jónssonar í Odda, 24. ágúst 1679.
 • ÞÍ. Skjalasafn Þjóðskjalasafns Íslands. KA/33. Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna 33 (séra Jón Halldórsson á Ólafsvöllum).
 • Lbs 174 4to. Prestasögur séra Jóns Halldórssonar um Skálholtsbiskupsdæmi, bl. 127v.
 • Lbs 175 4to. Prestasögur séra Jóns Halldórssonar um Skálholtsbiskupsdæmi, bl. 226v-227r.
 • Lbs 437 8vo. Kvæðabók m.h. Jóns Egilssonar á Stóra-Vatnshorni, skr. ca. 1755-1760, bls. 419-422.
 • AM 285b fol. IV. Bréfaskipti Þormóðar Torfasonar og séra Torfa Jónssonar í Gaulverjabæ. Bréf séra Torfa Jónssonar til Þormóðar Torfasonar, 30. júlí 1683. (Myndir á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum).
 • Annálar 1400-1800 II, bls. 253 (Fitjaannáll), 513, 515 (Hestsannáll).
 • Biskupa sögur II. Kaupmannahöfn 1878, bls. 623, 626.
 • Bricka, C.F., Dansk biografisk lexikon, tillige omfattende Norge for tidsrummet 1537-1814 XI (Maar-Müllner). Kjøbenhavn 1897, bls. 582-586.
 • Bro-Jørgensen, J.O., Vore gamle tropekolonier I. Dansk Vestindien indtil 1755. Kolonisation og kompagnistyre. Under redaktion af Johannes Brøndsted. København 1966, bls. 43.
 • Den danske civile centraladministrations embedsetat 1660-1848. Særtryk af meddelelser fra det kgl. gehejmearkiv og det dermed forenede kongerigets arkiv for 1886-88. København 1889, bls. 107.
 • Diller, Stephan, Die Dänen in Indien, Südostasien und China (1620-1845). Wiesbaden 1999, bls. 189.
 • Fúsakver. Kveðskapur eftir Leirulækjar-Fúsa. Sveinbjörn Beinteinsson hefur safnað. Hringur Jóhannesson gerði myndir. Reykjavík 1976, bls. 26-31.
 • Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639-1674. Már Jónsson tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 10. Reykjavík 2005, bls. 340-341.
 • Gøbel, Erik, Vestindisk-guineisk kompagni 1671-1754. Studier og kilder til kompagniet og kolonierne med Peder Mariagers beretning om kompagniet. Odense 2015, bls. 205, 207.
 • Hassø, Arthur G., Københavns brandvæsens historie. Et bidrag til Københavns historie. København 1931, bls. 29.
 • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1949-1952 I, bls. 79, 248; II, bls. 266; III, bls. 142; IV, bls. 255; V, bls. 148.
 • Jakob Benediktsson, Gísli Magnússon (Vísi-Gísli). Ævisaga, ritgerðir, bréf. Safn Fræðafélagsins um Ísland og Íslendinga XI. Reykjavík 1939, bls. 112, 124.
 • Jón J. Aðils, Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602-1787. Reykjavík 1919, bls. 111, 115, 118, 598.
 • Jón Ólafsson, Safn til íslenskrar bókmenntasögu. Guðrún Ingólfsdóttir og Þórunn Sigurðardóttir önnuðust útgáfu. Hjalti Snær Ægisson þýddi latneskar málsgreinar. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rit 99. Reykjavík 2018, bls. 223-224.
 • Nielsen, Oluf, Kjøbenhavns historie og beskrivelse V. Kjøbenhavn i aarene 1660-1699. Kjøbenhavn 1899, bls. 429-430.
 • Ólafur Halldórsson, „Um Húsafellsbók“, Grettisfærsla. Safn ritgerða eftir Ólaf Halldórsson gefið út á sjötugsafmæli hans 18. apríl 1990. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Rit 38. Reykjavík 1990, bls. 149-166, sbr. bls. 149-151.
 • Parmentier, Jan, „»Voogel Phoenix«s rejse til Bantam 1677-1679“, Handels- og Søfartsmuseet på Kronborg. Årbog 44 (1985), bls. 114-141, sbr. bls. 116, 119.
 • Westergaard, Waldemar, The Danish West Indies Under Company Rule (1671-1754). With a supplementary chapter, 1755-1917. New York 1917, bls. 290.
 • Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal I. Texti. Guðrún Ása Grímsdóttir annaðist útgáfu. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rit 70. Reykjavík 2008, bls. 358.

Smellið á tengilinn hér fyrir neðan til að hlaða niður uppskriftinni.

 

Umsókn séra Jóns Halldórssonar um Þingvelli
Umsókn séra Jóns Halldórssonar um Þingvelli
Umsókn séra Jóns Halldórssonar um Þingvelli
Umsókn séra Jóns Halldórssonar um Þingvelli
Umsókn séra Jóns Halldórssonar um Þingvelli
Umsókn séra Jóns Halldórssonar um Þingvelli