Desember 2018

Bylting á Íslandi

Riksarkivet. Udenrigsministeriet. Gruppeordnede sager 1909 -1945. 9 -7. Revolution paa Island 9.D.12.

Þann 1. desember 2018 afhenti Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, Þjóðskjalasafni Íslands skönnuð gögn úr danska ríkisskjalasafninu sem vörðuðu samskipti Íslands og Danmerkur. Hluti þeirra gagna hefur nú verið birtur á stafrænum heimildarvef Þjóðskjalasafns Íslands. Í safni dönsku utanríkisþjónustunnar kennir ýmissa grasa. Meðal gagnanna er mappa merkt sem „Revolution paa Island“, eða bylting á Íslandi. Heitið var ritað á skjalamöppu í danska utanríkisráðuneytinu sumarið 1913. Hlutverk dönsku utanríkisþjónustunnar var meðal annars að fylgjast grannt með íslenskum málefnum. Í því skyni söfnuðu erindrekar utanríkisþjónustunnar saman öllu því sem þeir töldu máli skipta og snerti samskipti Dana og Íslendinga.

En hver var ástæðan fyrir þessu dramatíska nafni á skjalamöppunni dönsku? Vorið 1913 gerðist sá atburður að Einar Pétursson verslunarmaður reri á bát sínum um Reykjavíkurhöfn með íslenska blá-hvíta fánann í skut. Skipverjar á danska herskipinu Islands Falk reru þá að bátnum og gerðu fánann upptækan. Íslendingar mótmæltu kröftuglega, meðal annars á útifundi, sem haldinn að kvöldi sama dags. Var þar meðal annars samþykkt tillaga Bjarna Jónssonar alþingismanns frá Vogi að einungis yrði dreginn upp „íslenskur fáni“ í Reykjavík og þess væri vænst að sama yrði gert um allt land. Óhætt er að segja að nokkur órói hafi verið á Íslandi þessa vordaga árið 1913.

Danski lagaprófessorinn Knud Berlin hafði sig mjög í frammi varðandi lögfræðileg málefni, enda var hann prófessor í íslenskum rétti við Kaupmannahafnarháskóla. Hann hélt mjög fram rétti danskra stjórnvalda í samskiptum sínum við Íslendinga og mótmælti kröfuglega sögulegum rétti Íslendinga til sjálfstæðis. Óhætt er að segja að þessiframganga ekki áunnið honum miklar vinsældir á Íslandi. Knud Berlin var harður á því að sjálfsagt væri að dönsk yfirvöld tryggðu að danskur fáni blakti yfir Íslandi og sagði að Danir yrðu framvegis að láta til skarar skríða gegn því að Íslendingar veifuðu öðrum fána en þeim danska og ritaði blaðagreinar þar sem hann kom þeirri skoðun sinni á framfæri.

Víkur þá sögunni til London og ástæðu þessarar nafngiftar dönsku skjalamöppunar. Í skjalasafni utanríkisráðuneytisins er bréf frá dönsku ræðismannsskrifstofunni í London. Þangað hafði komið blaðamaður frá kanadíska blaðinu Toronto Star og spurst fyrir um þennan óróa uppi á Íslandi. Þar sem konsúlatið í London hafði alls ekki heyrt af þessum meintu byltingaráformum uppi á Íslandi var málinu vísað til Danmerkur.

Í skjalamöppunni eru raunar aðeins þetta bréf frá ræðismannsskrifstofunni og skeyti frá blaðamanni Toronto Star auk úrklippu af einni grein Knud Berlin.

Af fánamálinu er hins vegar það að segja að undir lok árs 1913 samþykkti konungur að Íslendingar fengju sérfána. Var skipuð fánanefnd sem tók á móti tillögum um gerð fánans og var niðurstaða hennar og konungs sú að fáni Íslands skyldi vera sá fáni sem við þekkjum í dag sem þjóðfána Íslands. Byltingin á Íslandi sumarið 1913 var því litlu meira en ein skjalamappa í skjalasafni danska utanríkisráðuneytisins.

Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • www.heimildir.is. Riksarkivet. Udenrigsministeriet. Gruppeordnede sager 1909 -1945. 9 -7. Revolution paa Island 9.D.12.
  • Gunnar Þór Bjarnason. Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Reykjavík 2018.
  • Ísafold, „Island erlendis“ 22. október 1913.
  • Morgunblaðið „Aldarminning. Einar Pétursson“ 17. júlí 1992.
  • Vestri, „Fánamálið“ 30. ágúst 1913.
Danska skjalamappan.
Bréf frá dönsku ræðismannsskrifstofunni í London.
Bréf dönsku senduráðsskrifstofunnar í London til danska utanríkisráðuneytisins.
Grein Knud Berlin.