Maí 2018

Fullveldi í skugga Kötlugoss

ÞÍ. Hagstofa Íslands XXVI. Skjöl um sambandsmálið 1918 II.

Árið 1918 er sögufrægt fyrir margra hluta sakir. Á fyrri hluta ársins voru miklir kuldar viðvarandi, enda hefur veturinn 1917 – 1918 verið nefndur Frostaveturinn mikli. Um haustið gaus Katla stóru gosi og um það leyti sem Íslendingar voru að kjósa um fullveldi Íslands nam Spánska veikin land. Átti hún eftir að leggja marga í gröfina, einkum á suð-vesturhorni landsins. Hvorki Spánska veikin né Frostaveturinn höfðu áhrif á kosninguna um fullveldi Íslands. Öðru máli gegndi um Kötlugosið, sem hafði beinlínis áhrif á kosninguna sjálfa og talningu atkvæða og verður einkum gert að umfjöllunarefni hér.

Í maímánuði 1918 var orðið ljóst að danskir stjórnmálamenn voru viljugri en áður að samþykkja samningaumleitanir við Íslendinga um samband Íslands og Danmerkur. Undir lok maímánaðar kom fram tillaga í danska ríkisþinginu um skipun samninganefndar til viðræðna við Íslendinga og var hún samþykkt með yfirgnæfandi hluta atkvæða. Dönsku samninganefndina skipuðu: Christopher Friedenreich Hage, Erik Arup, Frederik Hedegaard Jeppesen Borgbjerg og Jens Christian Christensen. Sama dag og danska sendinefndin lagði af stað til Íslands kaus Alþingi fjóra menn í nefndina af Íslands hálfu og voru þeir fulltrúar stjórnmálaflokkanna á þingi. Þeir voru Bjarni Jónsson frá Vogi, Einar Arnórsson, Jóhannes Jóhannesson og Þorstein M. Jónsson.

Samningaumleitanir gengu afar hratt fyrir sig og virtist koma Íslendingum á óvart hversu viljugir Danir voru að mæta kröfum Íslendinga, eftir áratuga þjark þar sem hvorki gekk né rak. Raunar héldu flestir Íslendingar að danska sendinefndin væri komin til Íslands til að ræða upptöku sérfána fyrir Ísland, en ekki að ræða samband Íslands og Danmerkur í heild. Kom það því á óvart að fleira yrði þar til umræðu.[1] Fyrsti fundur nefndanna var haldinn 1. júlí, en sá síðasti 18. júlí og var þá tilbúið frumvarp til nýrra laga um samband Íslands og Danmerkur.[2]

Eftir umfjöllun Alþingis var sambandslagafrumvarpinu vísað til þjóðarinnar, eða þess hluta hennar sem hafði kosningarétt til Alþingis. Átti kosningin að fara fram 19. október. Atkvæðisrétt hafði nálega þriðjungur landsmanna. Lítill vafi var í hugum fólks að Sambandslagasamningurinn yrði samþykktur. Þó var það ekki svo að landsmenn væru einhuga í málinu og þótti sumum að einungis fullt sjálfstæði kæmi til greina.[3] Hins vegar bentu aðrir á að þátttaka yrði hugsanlega lítil, þar sem úrslitin væru fyrirfram ráðin og reyndust þeir hafa lög að mæla. Kosningaþátttakan var aðeins 43,8%.[4]

Víkur þá sögunni að kosningunni í Vestur-Skaftafellssýslu. Þar hóf Katla að gjósa þann 12. október. Eins og gefur að skilja hafði gosið mest áhrif í Skaftafellssýslum, þar sem Mýrdalssandur var ófær allt frá því gosið hófst og til loka þess þann 4. nóvember. Eldgosið var gríðarstórt og talið að með hlaupvatninu hafi borist til sjávar um 200 milljón rúmmetrar af sandi. Framburðurinn færði ströndina út um meira en þrjá kílómetra og varð Kötlutangi um skeið syðsti oddi landsins í stað Dyrhólaeyjar.[5]

Fullveldiskosningin í Vestur-Skaftafellssýslu fór því fram undir drunum eldfjallsins, þar sem gríðarlegt öskufall setti svip sinn á kosninguna. Þátttaka var því afar dræm, en alls greiddu 169 atkvæði í sýslunni, eða 27,6% af kosningabæru fólki. Ekki kemur á óvart að kosningaþátttakan hafi verið dræm í ljósi aðstæðna en allir þeir sem lögðu það á sig að fara á kjörstað sögðu já við fullveldissamningnum.[6]

Eitt var að kjósa en annað að telja atkvæðin. Í kosningalögum var gert ráð fyrir að atkvæði yrðu talin hjá sýslumanni, sem var Gísli Sveinsson í Vík í Mýrdal, en þar sem Mýrdalssandur var algjörlega ófær vegna gossins var ljóst að útilokað yrði að telja atkvæði úr fimm hreppum sýslunnar sem voru austan sandsins. Lítill tími var til stefnu að tilkynna um úrslitin og talsverður þrýstingur á það frá Dönum að fá sendar niðurstöður kosningarinnar. Það var því ákveðið að tilkynna Dönum kosningaúrslitin þó enn hafi ekki verið talið í hreppunum austan Mýrdalssands. Sú talning fór ekki fram fyrr en 16. desember.[7] Eins og kunnugt er hafði Ísland þá þegar lýst yfir fullveldi við hátíðlega athöfn 1. desember. Þess ber að geta að talningin í hreppunum austan Mýrdalssands hafði ekki áhrif á heildarniðurstöðuna, en allir 71 kjósendurnir sem atkvæði greiddu sögðu já við sambandslögunum.[8]

Unnar Ingvarsson ritaði kynningartexta.

__________________

  1. Lögrétta. „Sambandsmálið.“ 22. júní 1918.
  2. Gísli Jónsson: 1918. Fullveldi Íslands 50 ára. 1. desember 1968. Rvk. 1968.
  3. Gísli Jónsson: 1918. Fullveldi Íslands 50 ára. 1. desember 1968, bls. 175-179.
  4. Gísli Jónsson: 1918. Fullveldi Íslands 50 ára. 1. desember 1968, bls. 179.
  5. Vísindavefurinn „Hvað getur þú sagt mér um Kötlugosið 1918?“. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=61203. Sótt 20.4.2018.
  6. ÞÍ. Hagstofa Íslands. XXXI. Skjöl um sambandsmálið 1918. II. Fylgibréf við atkvæðagreiðsluna. Skýrsla um atkvæðagreiðsluna í Vestur-Skaftafellssýslu dags. 16. des. 1918.
  7. ÞÍ. Sýslumaðurinn Vestur-Skaftafellssýslu MA/1-2. Gjörðabók kjörnefndar Vestur-Skaftafellssýslu 1908-1959.
  8. ÞÍ. Hagstofa Íslands. Skjöl um sambandsmálið 1918. II, Fylgibréf við atkvæðagreiðsluna. Skýrsla um atkvæðagreiðsluna í Vestur-Skaftafellssýslu dags. 16. des. 1918.
Kötlugosið 1918. Mynd Þjóðminjasafn Íslands.
ÞÍ. Hagstofa Íslands XXVI. Skjöl um sambandsmálið 1918 II. Bréf frá Gísla Sveinssyni sýslumanni til Hagstofu Íslands 16. des. 1918.
ÞÍ. Hagstofa Íslands XXVI.  Skjöl um sambandsmálið 1918 II. Niðurstaða kosningarinnar í Vestur-Skaftafellssýslu.
ÞÍ. Sýslumaður Vestur-Skaftafellssýslu MA/1-1 Kjörbók. Talning atkvæða 16. des. 1918 úr fimm hreppum í sýslunni.
ÞÍ. Sýslumaður Vestur-Skaftafellssýslu MA/1-1 Kjörbók. Talning atkvæða 16. des. 1918 úr fimm hreppum í sýslunni.
ÞÍ. Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn B/14-1. Skeyti sent til Krabbe, sendifulltrúa í Kaupmannahöfn með úrslitum sambandslagakosninganna.