Mars 2018

Uppdráttur af hverunum á Reykhólum í Barðastrandarsýslu 1754

ÞÍ. Rentekammer. B6/2–50. Isl. Journ. 2, nr. 265; ÞÍ. Teikningasafn, 5/8.

Í skjalasafni Landsnefndarinnar fyrri 1770–1771 er að finna uppdrátt af hverunum á Reykhólum í Barðastrandarsýslu eftir Magnús Ketilsson (1732–1803), sýslumann í Dalasýslu 1754–1803. Uppdráttinn gerði Magnús í september 1754 að undirlagi Skúla Magnússonar (1711–1794), landfógeta og forstjóra hinna nýju Innréttinga í Reykjavík, samhliða dálítilli tilraun með að nýta hitann frá hverunum til að vinna salt úr sjó.

Hinar nýju Innréttingar voru fyrsta hlutafélag á Íslandi, stofnað 1751 til að efla atvinnuvegi landsins og naut töluverðs fjárstuðnings danskra stjórnvalda. Megináhersla félagsins lá í ullarvinnslu, vefnaði, skinnaverkun og færaspuna, auk þess sem komið var á fót þilskipaútgerð og brennisteinsvinnslu. Einnig höfðu forráðamenn Innréttinganna hug á saltvinnslu úr sjó við hverahita og var tilraun Magnúsar liður í undirbúningi þess en lengra komst málið ekki að sinni. Innréttingarnar hófu ekki saltvinnslu. Ýmsir erfiðleikar steðjuðu að rekstrinum, enda starfsemin mjög fjölbreytt. Frá 1759 voru Innréttingarnar tengdar Konungsversluninni fyrri og frá 1764 sameinaðar Almenna verslunarfélaginu.

Aftur komst hreyfing á málið í kjölfar stofnunar Landsnefndarinnar fyrri 1770. Nefndin var stofnuð af konungi og falið að kanna almenna landshagi á Íslandi og leggja fram úrbótatillögur um hvað eina sem kynni að verða landinu til gangs og nytsemdar. Samkvæmt tólfta lið erindisbréfs nefndarinnar bar henni sérstaklega að kanna mögulega staði á Íslandi fyrir saltsuðu úr sjó.

Í þeim tilgangi fór Þorkell Fjeldsted, einn nefndarmanna, sérstaka rannsóknarferð vestur á Reykjanes við Ísafjarðardjúp og til Reykhóla í Barðastrandarsýslu sumarið 1771. Þessir tveir staðir voru í raun þeir einu sem til greina komu vegna þess hve hverirnir þar lágu nærri sjó. Þorkell tók báða staðina út og ritaði stuttar greinargerðir um aðstæður á hvorum stað fyrir sig, ásamt því að gera uppdrætti af þeim. Greinargerðum hans og teikningum ásamt öðrum gögnum Landsnefndarinnar var svo skilað inn í rentukammer í árslok 1771.

Skýrslur Þorkels voru svo teknar til skoðunar í rentukammeri snemma árs 1772. Á sama tíma, nánar tiltekið þann 29. febrúar það ár, hefur uppdráttur Magnúsar verið fundinn til og lagður í skjalasafn Landsnefndarinnar með teikningum Þorkels, sem sjá má af merkingu efst í vinstra horni hennar: Pr. 29. febr. 72. Nr. 25. Lit. c. Mjög sennilegt er að þar hafi verið að verki Jón Eiríksson (1728–1787), embættismaður í rentukammeri frá 1771, og er uppdráttur Magnúsar því nú varðveittur með skjölum Landsnefndarinnar fyrri. Er þetta ágætt dæmi um hvernig gögn geta færst til innan viðkomandi skjalasafns á ýmsum tímum meðan verið er að vinna með þau.

Uppdrætti Magnúsar hefur fylgt greinargerð, dagsett 20. september 1754, þar sem hann gerir nánari grein fyrir aðstæðum á Reykhólum. Greinargerðin hefur einhvern tíma orðið viðskila við uppdráttinn og hefur ekki enn komið í leitirnar. Hins vegar er til ódagsettur og óundirritaður útdráttur úr viðkomandi greinargerð sem er áreiðanlega gerður af Jóni Eiríkssyni og liggur í skjalasafni rentukammers ásamt afritum af greinargerðum Þorkels Fjeldsteds og fleiri gögnum varðandi saltvinnslu á Reykhólum og Reykjanesi við Ísafjarðardjúp frá árinu 1776.

Í útdrættinum segir að Magnús hafi fundið 20 hveri eins og sjá má á teikningu hans. Hann gat ekki mælt hitann í þeim af því að hann vantaði hitamæli en var þó fullviss þess að í öllum þeim væri nægur hiti til að láta sjó gufa upp. Augljóst er af orðalagi að þennan sama útdrátt notaði Jón Eiríksson í hið gagnmerka rit sitt um viðreisn Íslands, Udtog af afgangne lavmand Povel Vidalins afhandling om Islands opkomst under titel Deo, Regi, Patriæ, sem kom út í Sorø 1768 (bls. 234–236). Það má nálgast hér. Uppskrift af útdrættinum má nálgast hér fyrir neðan.

Á árunum 1772–1776 voru gerðar nokkrar tilraunir með saltvinnslu, bæði á Reykhólum og Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, kostaðar af konungssjóði. Verksmiðja var reist á Reykjanesi 1773 og rekin til 1793 en fallið var frá hugmyndum um saltvinnslu á Reykhólum þar sem athuganir sýndu að verksmiðja þar þyrfti að vera mun stærri í sniðum til að vera hagkvæm og stofnkostnaður meiri.

Frá árinu 2013 hefur fyrirtækið Norður & Co rekið saltverksmiðju á Reykhólum sem í grunninn byggir á sömu tækni, að nýta hitann frá hverunum til að vinna salt úr sjó. Upphaf fyrirtækisins má rekja til samstarfs tveggja aðila, Íslendings og Dana.

Áletrun á teikningu Magnúsar:
Num. 1–20. Hverene eller de varme vande. AAA. Banken. BBBB. Moradserne. C. Den lille dam som söen om floeden gaaer höyest op i. DDD. Strandbreeden. EEE. Den korteste vey op fra söen til hverene.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift á útdrættinum.

Prentaðar heimildir

  • ÞÍ. Teikningasafn, 5/8. Fylgir: ÞÍ. Rentukammer. D3/6–6. Lit. Vv. N° 1. (Greinargerð Þorkels Fjeldsteds um jarðhitan á Reykhólum til Landsnefndarinnar fyrri 29. júní 1771).
  • ÞÍ. Rentekammer. B6/2–50. Isl. Journ. 2, nr. 265. (Konungsúrskurður um saltvinnslu á Reykhólum 15. jan. 1776).
  • [Jón Eiríksson], Udtog af afgangne Lavmand Povel Vidalins Afhandling om Islands Opkomst under Titel Deo, Regi, Patriæ; samt nogle andres af samme Indhold anvendt paa nærværende Tider. Sorø 1768.
  • Jón Eiríksson og Páll Vídalín, Um viðreisn Íslands. Deo, regi, patriae. 1699, 1768. Steindór Steindórsson frá Hlöðum þýddi. Reykjavík 1985. (Frumútgáfa, Sorø 1768).
  • Lýður B. Björnsson, „Saltvinnsla á Vestfjörðum og saltverkið í Reykjanesi.“ Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1977. 20. ár. s. 7–65.

Smelltu hér að neðan til að sækja uppskrift á útdrætti Jóns Eiríkssonar.

 

Uppdráttur af hverasvæðinu á Reykhólum í Barðastrandarsýslu 1754 eftir Magnús Ketilsson sýslumann í Dalasýslu
Útdráttur Jóns Eiríkssonar í rentukammeri úr greinargerð um hverina á Reykhólum sem fylgja hefur átt uppdrætti Magnúsar Ketilssonar sýslumanns frá 1754
Útdráttur Jóns Eiríkssonar í rentukammeri úr greinargerð um hverina á Reykhólum sem fylgja hefur átt uppdrætti Magnúsar Ketilssonar sýslumanns frá 1754