Febrúar 2018

Fangaflutningur 1839

ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.

Yfirvöld, sýslumenn eða hreppstjórar, þurftu stundum að flytja fólk milli sveita og héraða. Voru annars vegar fátæklingar fluttir á sína sveit, þegar sjúkdómar eða ellilasleiki skerti vinnuþrekið, en hins vegar brotafólk fært til alþingis að þola þar dóm á málum sínum, eða þá dæmdir sakamenn sem voru fluttir til skips sem bar þá í kastalafestingar í Kaupmannahöfn. Svo kom að háyfirvöldum í Danmörku þótti rétt að koma ákveðinni skipan á fangaflutninga og var sett reglugerð þar um 10. maí 1788, birt á alþingi 11. júlí sama ár[1] og mun þar með hafa öðlast gildi hér á landi. Reglugerðin laut að flutningi sakamanna - misdædere, tugthus-forbrydere og römningsmænd, samt arrestanter i almindelighed - og skyldi flytja slíka þokkapilta frá hreppstjóra til hreppstjóra með bundnar hendur og í nauðsynlegri fylgd. Ef fangi slapp áttu fylgdarmenn yfir höfði sér fésektir en þeir fengu greitt fyrir ferðina, 32 skildinga fyrir þingmannaleið (um 35 km) og síðan í hlutfalli þar af eftir vegalengdum.

Sá ágæti herra, Friðrik konungur sjötti, hnykkti á þessum reglum og öðrum ákvæðum um „criminalvæsenet paa Island“ í miðjum Napóleonsstyrjöldunum, með tilskipun 25. júlí 1808, og loks er hreppstjórum í hreppstjóra instruxi frá 1809, uppálagt að sjá um fangaflutning eftir dómum eða yfirvalda fyrirsögn þangað „sem fanginn á varðhald að gista, hefta alla strokmenn og illvirkja úr fjarlægum sveitum.“[2] Hér er líka undirstrikað að bændur og búalið séu skyldug til að aðstoða við slíka flutninga.

Ekki er mikið til af gögnum um flutning fanga, þar sem leiðir eru raktar nákvæmlega, en í bréfasafni sýslumanns/bæjarfógeta í Reykjavík eru nokkur hnýsileg blöð um einn slíkan fangaflutning, þar sem nákvæmlega er rakið hvernig farið var með mann norðan úr landi í varðhald í Reykjavík.[3] Ferðin hefst eftir áramótin 1839 um miðjan vetur, en ætlunin var að koma sakamanninum í póstskipið sem lagði upp frá Reykjavík 8. mars.

Fanginn, Friðfinnur Jóhannesson að nafni, var úr Þingeyjarsýslu og dæmdur þar en þegar ferðin hefst, sú sem hér er greint frá, er hann kominn að Neðstalandi í Öxnadal í Eyjafirði. Fylgibréf eða leiðarbréf frá upphafi ferðarinnar hefur sennilega eyðilagst í Héraðsvötnum, þannig að ekki er hægt að tíunda gististaði hans eða áfanga ferðarinnar fyrr en kemur vestur í Skagafjörð. Hæstaréttardómur, upp á sex ára fangelsisvist, féll í máli hans 3. september 1838 og hefur maðurinn meðan málið gegn honum var rekið verið í haldi á vegum sýslumannsins, Arnórs Árnasonar, sem hafði aðsetur á Múla í Aðaldal. En nú, 5. janúar 1839, er drifið í að senda fangann til Reykjavíkur. Honum fylgdi leiðarbréf en einnig hafði hann með sér fataböggul og er það allt skrifað nákvæmlega upp, fötin voru sett í tvo belgi, loks er í farangrinum skjóða með „litlu af tóbaki og skrifuðum blöðum andlegs innihalds, samt minnisblöðum fangans, er ekkert fundust ískyggilegt að innihalda.“

Á sérstök fylgibréf, sem eru að hluta heft saman en að hluta stök, kvitta hreppstjórarnir á leið fangans síðan fyrir móttöku hans og farangurs, og gera grein fyrir næsta áfangastað, sem er hjá hreppstjóra í nálægum hreppi. Þannig er hægt að fylgjast með ferð fangans alla leið suður til Reykjavíkur. Stundum eru dagleiðir ekki langar, enda er þetta um miðjan vetur og trúlega mikil snjóalög, og fyrir kemur að fanginn sé hríðarfastur.

Þann 11. janúar 1839 er Friðfinnur sendur frá Neðstalandi í Öxnadal til næsta hreppstjóra í Skagafirði, Eiríks Eiríkssonar í Djúpadal, sem fylgir honum til Sigurðar Jónssonar í Krossanesi í Vallhólmi, þann 16. janúar. Þannig að gangan yfir Öxnadalsheiði hefur tekið þrjá til fjóra daga. Sigurður í Krossanesi var kominn undir áttrætt, þegar þetta var, en engin ellimörk eru á rithönd hans þar sem hann gerir grein fyrir því að föt og farangur fangans hefðu blotnað í Héraðsvötnum. Sigurður hreppstjóri segir að fylgibréfið hafi verið að „útvortis áliti svo fordjarfað að ég varð að setja það í annað umslag.“ Hann bætir við að „sumt af fötunum sem vegna vætu var óbrúkanlegt lét ég þurrka og læt svo flytja fangann með öllu honum tilheyrandi til hreppstjórans í Bólstaðarhlíðarhreppi innan Húnavatnssýslu.“

Þetta er undirritað í Krossanesi 17. janúar 1839.

Arnljótur Árnason hreppstjóri á Gunnsteinsstöðum í Langadal bætir við: „Að yfirvalda ráðstöfun var arrestent Friðfinnur Jóhannesson til mín fluttur með öllu framan skrifuðu fylgjandi, þann 18da januari 1839, kl. 6 e[ftir] m[id]d[ag] en á leið fluttur til næsta hreppstjóra með tveimur fylgdarmönnum næsta dag eftir kl. 9u fyrir middag.

Gunnsteinsstöðum þann 19da jan. 1839.“

Fanginn var fluttur fram að Hvammi í Vatnsdal til Björns sýslumanns Blöndal, sem setur fylgibréf stiftamtmannsins í nýtt umslag. Óvíst er hvort fanginn er þar um nótt en morguninn 21. janúar fer hann frá Hjallalandi, yst í Vatnsdal, að Auðunarstöðum í Víðidal og er þar um nóttina, næstu nótt, 22. janúar, á Urriðaá í Miðfirði og þann 24. janúar er komið að Fallandastöðum í Hrútafirði, og „verður svo téður sakamaður að forfallalausu á morgun með tveimur mönnum fluttur með öllu því er honum tilheyrir (eftir ráðstöfun herra sýslumanns Blöndahls) til sýslumannsins í Strandasýslu, herra Johnsen á Melum.“

Undir þetta ritar Tómas Bjarnason hreppstjóri í Staðarhreppi í Hrútafirði.

Nú hefði mátt ætla að fanginn yrði fluttur skemmstu leið yfir Holtavörðuheiði, en líklega hefur hún ekki verið fær um þessar mundir. Lagt er upp frá Melum í Hrútafirði 25. janúar og haldið vestur í Dalasýslu, verið á Leikskálum í Haukadal 26. janúar, komið að Hamraendum í Miðdölum þann 27. og lagt af stað þaðan til hreppstjóra í Norðurárdalshreppi 28. janúar í fylgd tveggja manna, sem líklega eru hreppstjórarnir „H. Björnsson“ og „J. Jónsson.“ En "kafalds óveður hindrar" ferðalangana svo þeir gista á Gröf í Miðdölum um nóttina, leggja á Bröttubrekku daginn eftir og ná Glitstöðum í Norðurárdal um kvöldið. Þaðan er fanginn sendur næsta hreppstjóra, sem er Þorbjörn Sigurðsson á Helgavatni í Þverárhlíð, en hann kemur honum af sér samdægurs upp að Sleggjulæk í Hvítársíðu og eftir nótt þar er hann kominn að Sturlu-Reykjum í Reykholtsdal þann 1. febrúar. Jón Jónsson hreppstjóri á Sturlu-Reykjum bætir þessu á fylgiseðilinn: „Þann 1. Februari 1839 var fanginn, Friðfinnur Jóhannesson, fluttur hingað síð dags og hjá mér dvaldi í 2 nætur óveðráttu vegna, og sendist nú með 2 vottum til næsta hreppstjóra og allt það er hann kom með.

Sturlu-Reykjum þann 3. Februari.
Jón Jónsson“

Í næsta áfanga er farið til Runólfs Jónssonar á Skeljabrekku í Andakíl og þaðan átti að flytja fangann til næsta hreppstjóra „og tveir duglegir menn með sendir,“ þann 4. febrúar 1839. Líklega hefur þó orðið dags dvöl á Skeljabrekku því hreppstjórinn í Leirárhreppi, Sigurður Þórðarson á Bakka í Melasveit, sendir manninn áfram „samdægris fluttur undir 2ggja duglegra mann vöktun og leiðsögn“ til hreppstjórans í Skilmannahreppi, Narfa Ólafssonar á Ósi, sem flytur hann áfram út á Akranes til Magnúsar Sigurðsson hreppstjóra í Lambhúsum. Ef til vill hefur Friðfinnur verið orðinn dasaður eftir langa dagleið því einn dag virðist hann dvelja á Skaganum en er fluttur að morgni þess 7. febrúar til Jóns Þorsteinssonar á Kambshóli í Hvalfjarðarstrandarhreppi sem virðist, eftir því sem ritað er á fylgibréfin, senda hann frá sé þegar þann 8. Hins vegar fer hann ekki frá næsta hreppstjóra, Þorsteini Guðmundssyni í Laxárnesi í Kjós, fyrr en 11. febrúar og þá til Magnúsar Bjarnasonar hreppstjóra í Kollafirði þar sem hann dvelur næstu nótt. Síðasti hreppstjórinn, sem Friðfinnur heimsækir í þessari langferð, er Jón Björnsson Korpúlfsstöðum, sonur Björns Stephensen yngsta sonar Ólafs stiftamtmanns. Hér er ekki gist enda trúlega ekki langt liðið á dag en fanginn þegar í stað fluttur til Reykjavíkur og seldur í hendur Bardenfleths stiftamtmanns.

Stiftamtmaðurinn kvittar fyrir móttökuna og beinir því til bæjarfógetans að geyma fangann í varðhaldi um sinn: „Den nu hertil ankomne arrestant, Friðfinnur Jóhannesson, der med höjesteretsdom af 3de september f.a. er dömt til festningsarbejde i 6 aar og derfor nu skal nedsendes til Kjöbenhavn med postskibet, anmodes herr land- og byfoged om behageligen at ville besörge midlertidligen indtil postskibets afgang herfra hensat til forvaring i Reykjavigs arrester paa sædvanlig fangekost.

Islands stiftamtshuus den 13de februari 1839.
Bardenfleth“

Þetta langa ferðalag hófst 5. janúar og stóð rétt tæpar sex vikur, vaflaust í slæmri færð víðast hvar, þótt ekkert sé um það talað í fylgibréfunum. Stundum er hins vegar beinlínis tekið fram að veður hafi hamlað ferðum en einnig virðist sem stundum hafi ekki verið farin beinasta leiðin, heldur nákvæmlega fylgt þeirri reglu að færa fangann jafnan næsta hreppstjóra.

Jón Torfason ritaði kynningartexta.

__________________

  1. Lovsamling for Island V, bls. 527-529 og Alþingisbækur XVI, bls. 374-375.
  2. Lovsamling for Island VII, bls. 198 og 330-331.
  3. Borgarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.

Hér má sjá líklega flutningsleið fangans Friðfinns Jóhannessonar á korti.

ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.
ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.
ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.
ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.
ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.
ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.
ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.
ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.
ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.
ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.
ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.
ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík B/87, örk 1.