Febrúar 2016

Að gjöra úr börnunum ráðvanda og siðferðisgóða menn

Þí. Skjalasafn Álftaness. BB/4/1.

„Það er ætlunarverk skólans að gjöra úr börnunum ráðvanda og siðferðisgóða menn, og veita þeim þá þekkingu og kunnáttu að þau geti orðið nýtir borgarara í Þjóðfélaginu“. Svo segir í reglugjörð um barnaskólann í Bessastaðahreppi sem árið 1914 flutti úr skólastofunni á Bessastöðum í nýbyggt skólahús á Bjarnastöðum þar sem skólinn var svo til ársins 1978.

Til þess að ná þeim árangri sem stefnt var að var skrifuð reglugjörð í 17 liðum þar af varða 12 liðir nemendur beint. Skjalið, reglugjörðin frá árinu 1914, er varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands.

Í fyrsta lið þess segir að öll börn í Bessastaðahreppi sem hafi náð 9 ára aldri eigi rétt á inngöngu í skólann að uppfylltum þeim skilyrðum að þau séu læs eða nánast læs. Það mátti veita undanþágu frá þessari kröfu að fengnu leyfi frá skólanefndinni. Námið tók fjögur ár og skólaárið byrjaði 1. október og því lauk 1. apríl. Börnin áttu að hafa með sér bækur og annað sem þau þurftu á að halda til að geta stundað námið en ef barn, sökum fátæktar hafði ekki efni á því sem það þurfti til námsins átti að kaupa námsgögnin handa því og skólasjóðurinn greiddi fyrir. Námsgreinarnar voru: kristindómur, lestur, skrift, reikningur, réttritun og landafræði (einkum Íslands) og grundvallaratriði náttúrufræðinnar.

Í reglugerðinni segir að börn með næma sýki (smitandi) mega ekki koma í skólann fyrr en þrem vikum eftir að veikindi þeirra eru gengin yfir og veikinda hafi ekki orðið vart á heimili þeirra. Ef börn voru með "næm útbrot" bar skólanefnd, að fengnum upplýsingum frá kennara að hlutast til um að barnið fengi lækningu.

Það er heimild í reglugerðinni til að vísa barni úr skóla verði því eitthvað á og það er rakið hvernig eigi að bregðast við og hvaða ferli fari af stað sem geti endað með brottrekstri barns úr skólanum. Það er ekki tekið fram í reglugerðinni hvaða brot geti leitt af sér brottrekstur. Börn sem tóku öðrum fram í „yðni og góðri hegðun“ mátti skólanefndin veita „hæfileg verðlaun“.

Náin tengsl voru á milli kennara skólans og kirkjunnar skv. reglugjörðinni. Kennarar voru ráðnir af skólanefndinni að fengnu áliti sóknarprests og sóknarnefndar og kennara bar að sýna sömu aðilum kennsluáætlun vetrarins þegar skóli var settur í byrjun vetrar, þrátt fyrir að þriggja manna skólanefnd væri kosin af hreppsnefndinni en störf skólanefndarinnar fólust frekar í að halda utan um fjármál skólans, allan búnað og að reglugerð væri fylgt.

Þórunn Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Þí. Skjalasafn Álftaness. BB/4/1.
  • Anna Ólafsdóttir Björnsson. Álftanessaga, bls. 214. Rvk. Þjóðsaga 1996.
Reglugjörð um barnaskólann í Bessastaðahreppi frá árinu 1914, síða 1
Reglugjörð um barnaskólann í Bessastaðahreppi frá árinu 1914, síða 2
Reglugjörð um barnaskólann í Bessastaðahreppi frá árinu 1914, síða 3