Viðtaka pappírsskjalasafna í Þjóðskjalasafni - biðlisti

þriðjudagur, 15. janúar 2019 - 8:30
  • Þjóðskjalasafn Íslands
    Þjóðskjalasafn Íslands

Allt frá árinu 2013 hefur verið í undirbúningi að gera gagngerar endurbætur á einu geymsluhúsnæði Þjóðskjalasafns Íslands, svokölluðu húsi 5 við Laugaveg 164. Endurbætur hússins myndu auka geymslupláss Þjóðskjalasafns um 15.000 hillumetra. Upphaflegar áætlanir stefndu að því að húsið yrði tilbúið til notkunar árið 2017. Hönnun, öflun byggingarleyfa og gerð útboðsgagna drógst nokkuð og uppfærð áætlun gerði ráð fyrir að endurbætur yrðu boðnar út í ársbyrjun 2018 og framkvæmdir gætu hafist á vormánuðum og síðar sama ár gæti varsla gagna hafist þar í hluta hússins. Þessar áætlanir hafa ekki gengið eftir og útboð á verkinu hefur ekki enn farið fram.

Í janúar 2018 var safninu því nauðugur sá kostur að samþykkja engar nýjar afhendingar. Nú ári síðar hefur þessi staða ekki breyst og getur safnið því ekki samþykkt nýjar afhendingar pappírsskjala til safnsins. Árið 2018 voru gerðar breytingar á núverandi geymslum til að auka geymslupláss sem gera safninu kleyft að taka við megninu af þeim afhendingum sem lágu fyrir samþykktar í árslok 2017.

Þjóðskjalasafn Íslands tekur þó við beiðnum um afhendingu pappírsskjalasafna og setur þær á biðlista. Afhendingarbeiðnir verða afgreiddar í þeirri röð sem þær bárust, þegar úrlausn í geymslumálum safnsins liggur fyrir. Sækja afhendingarbeiðni.

Afhendingarskyldum aðilum er þökkuð þolinmæðin. Vonast er til þess að úrlausn í geymslumálum Þjóðskjalasafns liggi fyrir á næstunni.