Útgáfu annars bindis Yfirréttarins fagnað á Alþingi

föstudagur, 1. apríl 2022 - 13:00
  • Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður og forseti Sögufélags, færði Benedikt Bogasyni, forseta Hæstaréttar, Birgi Ármanssyni, forseta Alþingis og Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, fyrstu tvö bindin úr ritröðinni.
    Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður og forseti Sögufélags, færði Benedikt Bogasyni, forseta Hæstaréttar, Birgi Ármanssyni, forseta Alþingis og Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, fyrstu tvö bindin úr ritröðinni.

Útgáfu annars bindis ritraðarinnar Yfirrétturinn á Íslandi var fagnað í móttöku sem forseti Alþingis bauð til í gær í Skála Alþingis. Af því tilefni fluttu ávörp Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður og forseti Sögufélags, Gísli Baldur Róbertsson og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritstjórar og skjalaverðir í Þjóðskjalasafni og Viðar Pálsson dósent í sagnfræði.

Fyrsta bindi ritraðarinnar kom út árið 2011 og í því birtust skjöl frá yfirréttinum 1690-1710. Árið 2019 samþykkti Alþingi að styrkja áframhaldandi útgáfu í tilefni aldarafmælis Hæstaréttar Íslands árið 2020. Útgáfuverkefnið er til tíu ára og bindin verða alls tíu talsins með öllum tiltækum dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi og aukalögþinga.

Annað bindi ritraðarinnar Yfirrétturinn á Íslandi kom út í desember síðastliðnum og inniheldur dóma og skjöl yfirréttarins 1711–1715. Stór hluti skjalanna tengist rannsókn þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns á réttarfari á Íslandi. Í bindinu koma fyrir galdramál, meiðyrðamál, rekamál, deilt er um málsmeðferð, krafist embættismissis Páls Vídalíns, Oddur Sigurðsson varalögmaður er ákærður vegna framkomu hans við biskup í eftirlitsferð hans og dregnir fram athyglisverðir vitnisburðir um framferði Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups á Alþingi árið 1713.

Yfirrétturinn var stofnaður á Alþingi á Þingvöllum árið 1563 og starfaði til ársins 1800. Hann var æðsta dómsstig landsins fram að því að Landsyfirréttur var stofnaður í Reykjavík. Skjöl og gögn yfirréttarins eru því hluti af sögu Alþingis hins forna á Þingvöllum. Ákveðið var að gefa út bæði dómana sjálfa þar sem þeir hafa varðveist og málsskjöl þar sem þeim er til að dreifa. Með því fæst einstök innsýn í samfélagið á þessum tíma, aðstæður, stjórnun, stéttaskiptingu, ágreiningsmál og viðhorf.

Það er Sögufélag sem gefur út ritröðina í samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands og Alþingi. Bækurnar eru fáanlegar hjá Sögufélagi: https://sogufelag.is/product/yfirretturinn-a-islandi-domar-og-skjol-ii-1711-1715.

Frétt á vef Alþingis um útgáfuna: https://www.althingi.is/tilkynningar/utgafu-annars-bindis-yfirrettarins-a-islandi-fagnad