Þjóðskjalavörður lætur af störfum

föstudagur, 8. júní 2012 - 8:45
  • Ólafur Ásgeirsson
    Ólafur Ásgeirsson

Ólafi Ásgeirssyni þjóðskjalaverði hefur að eigin ósk verið veitt lausn frá störfum af heilsufarsástæðum frá 1. júní 2012. Ólafur hefur verið þjóðskjalavörður frá árinu 1984 og var þar áður skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi í sjö ár. Hann hefur á giftusömum starfsferli sínum í safninu gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir safnið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og samtök á sviði skjalavörslu hér á landi og erlendis og hefur m.a. gegnt formennsku í ýmsum nefndum á vegum Alþjóða skjalaráðsins (ICA) og er heiðursfélagi þess. Ólafur var skátahöfðingi Íslands 1995-2004 og hefur gegnt margvíslegum öðrum trúnaðarstörfum og hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín.

Þjóðskjalasafn þakkar Ólafi framúrskarandi vel unnin störf og óskar honum farsældar í hvívetna.

Staða þjóðskjalavarðar verður auglýst laus til umsóknar innan tíðar en Eiríkur G. Guðmundsson, settur þjóðskjalavörður, gegnir henni þar til ráðið hefur verið í starfið að nýju.