Skýrsla um skjalavörslu og skjalastjórn sveitarstjórnarskrifstofa

fimmtudagur, 17. janúar 2019 - 14:00
  • Þjóðskjalasafn Íslands
    Þjóðskjalasafn Íslands

Í lok nýliðins árs kom út skýrsla með niðurstöðum eftirlitskönnunar Þjóðskjalasafns Íslands um skjalavörslu og skjalastjórn sveitarstjórnarskrifstofa sem eru afhendingarskyldar til safnsins. Könnunin fór fram í nóvember og desember 2017 og lauk úrvinnslu úr innsendum gögnum nýlega.

Þetta er í fyrsta skipti sem Þjóðskjalasafn kannar stöðu skjalamála sveitarfélaga sem eru afhendingarskyld til Þjóðskjalasafns en hefur þrisvar áður kannað stöðu skjalamála ríkisins (2004, 2012 og 2016). Niðurstöður könnunarinnar sýna að ástand skjalavörslu og skjalastjórnar hjá sveitarstjórnarskrifstofum sem eru afhendingarskyldar til Þjóðskjalasafns er þokkalegt. Meginvandi þeirra er að rafræn skjalavarsla á grundvelli reglna Þjóðskjalasafns og skil til safnsins er mjög skammt á veg komin. Í skýrslunni eru upplýsingar um könnunina, tölulegar niðurstöður og umfjöllun um meginniðurstöður. Þar eru einnig tillögur til úrbóta og nefnt hver gætu verið næstu skref í skjalavörslu og skjalastjórn sveitarstjórnarskrifstofa.

Skýrslan er bæði prentuð og gefin út á vef Þjóðskjalasafns, Skjalavarsla og skjalastjórn sveitarstjórnarskrifstofa afhendingarskyldra til Þjóðskjalasafns. Niðurstöður eftirlitskönnunar Þjóðskjalasafns Íslands 2017.