Samstarf um rannsóknir á dómsmálum á Austurlandi

mánudagur, 20. september 2021 - 9:15
  • Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður og Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi rita undir samstarfssamning um dómabækur
    Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður og Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi rita undir samstarfssamning um dómabækur

Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður og Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi rituðu nýverið undir samning um samstarf um skráningu, og rannsóknir á dómabókum úr Múlasýslu á árabilinu 1752-1900.

Í verkefninu verður hugað að því hvers konar mál komu fyrir dóm á tímabilinu og leitað svara við fjölmörgum rannsóknarspurningum sem snúa meðal annars að því hverjir freistuðust helst til afbrota, hver refsing þeirra var og litið til kyns og þjóðfélagsstöðu þeirra sem komu fyrir dóm.

Í verkefninu verður dómabókagrunnur Þjóðskjalasafns nýttur sem tæki til að skrá ólíkar tegundir mála sem komu fyrir dómstóla á tímabilinu og mun skráning Rannsóknarsetursins þannig bætast við þau gögn sem þegar eru skráð í dómabókagrunninn.