Samráðshópur um varðveislu einkaskjalasafna

þriðjudagur, 5. október 2021 - 7:00
 • Bréf úr einkaskjalasafni
  Bréf úr einkaskjalasafni

Þjóðskjalavörður hefur skipað í samráðshóp um varðveislu einkaskjalasafna til næstu þriggja ára. Samráðshópurinn mun vinna að varðveislu einkaskjalasafna á opinberum vettvangi og að koma málum einkaskjalasafna í betri farveg. Í samráðhópnum sitja fulltrúar frá Þjóðskjalasafni Íslands, héraðsskjalasöfnum og Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.
Verkefni samráðshópsins eru:

 • Hafa umsjón með og þróa vefinn Einkaskjalasafn.is. Vefurinn er afrakstur samvinnuverkefnis Þjóðskjalasafns Íslands, héraðsskjalasafna og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og er vefurinn rekinn og hýstur af Þjóðskjalasafni. Samráðshópurinn heldur utan um vefinn og gerir tillögur með að þróa hann áfram, þ.m.t. að hvetja vörsluaðila einkaskjalasafna til að setja inn upplýsingar um varðveitt einkaskjalasöfn í samskrá, birta upplýsingar um aðfangastefnur eins og við á og annað sem tengist verkefnum hópsins.
 • Halda við og endurnýja reglulega leiðbeinandi aðfangastefnu fyrir Ísland.
 • Halda utan um aðfangastefnur vörsluaðila um söfnun einkaskjalasafna sem hafa verið samþykktar og birtar.
 • Standa fyrir sameiginlegu söfnunarátaki tiltekinna flokka einkaskjalasafna.
 • Hafa samstarf við aðra hagsmunaaðila um verkefni sem snúa að söfnun, varðveislu og aðgengi að einkaskjalasöfnum, s.s. háskólasamfélagið, menningarstofnanir, félagasamtök o.s.frv.
 • Annað sem snýr að söfnun, varðveislu, aðgengi og miðlun einkaskjalasafna á Íslandi eins og við á, s.s. verklag og leiðir til að tryggja varðveislu rafrænna einkaskjalasafna.

Samráðshópur um varðveislu einkaskjalasafna með skipunartíma til 31. ágúst 2024 er þannig skipaður:

 • Fulltrúar Þjóðskjalasafns Íslands: Gunnar Örn Hannesson, fagstjóri skráninga og Kristjana Vigdís Ingvadóttir, skjalavörður. Gunnar Örn er formaður hópsins.
 • Fulltrúar héraðsskjalasafna: Þorsteinn Tryggvi Másson, héraðsskjalavörður Árnesinga og Halldóra Jónsdóttir, héraðsskjalavörður Austur-Skaftafellssýslu.
 • Fulltrúi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns: Bragi Þorgrímur Ólafsson, fagstjóri handritasafns.