Reglur um tilkynningu á rafrænum gagnasöfnum til umsagnar

föstudagur, 13. desember 2019 - 9:45
  • Þjóðskjalasafn Íslands.
    Þjóðskjalasafn Íslands.

Þjóðskjalasafn Íslands auglýsir til umsagnar drög að reglum um tilkynningu og samþykkt á rafrænum gagnasöfnum og skilum afhendingarskyldra aðila. Tengil á drög að reglunum ásamt greinargerð er að finna hér fyrir neðan. Þjóðskjalasafn er framkvæmdaaðili opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar skv. 3. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og skal m.a. setja reglur um skjalavörslu og skjalastjórn afhendingarskyldra aðila, sbr. 8. gr. sömu laga.

Aðferðarfræði og regluverk Þjóðskjalasafns við langtímavörslu á rafrænum gögnum byggist á aðferðum frá danska ríkisskjalasafninu og hefur safnið unnið eftir því síðasta áratug. Reglur þær sem nú liggja fyrir í drögum eru þýðing og staðfæring á reglum sem danska ríkisskjalasafnið setti um tilkynningu rafrænna gagnasafna árið 2013. Við setningu á þessum nýju reglum munu reglur nr. 624/2010 og nr. 625/2010 falla úr gildi, og þannig verða sameinaðar í einum reglum ákvæði um tilkynningar á hvers konar rafrænum gagnasöfnum afhendingarskyldra aðila. Nauðsynlegt er að endurnýja reglurnar til að fylgja þróun regluverks danska ríkisskjalasafnsins og tryggja varðveislu rafrænna gagna afhendingarskyldra aðila. Þá er endurskoðun jafnframt nauðsynleg vegna laga um opinber skjalasöfn sem sett voru 2014.

Frestur til að skila inn umsögnum er til og með 31. janúar 2020. Umsagnir og fyrirspurnir skal senda á netfangið skjalavarsla@skjalasafn.is.

Reglur um tilkynningu og samþykkt á rafrænum gagnasöfnum og skilum afhendingarskyldra aðila.