Ný skýrsla um skjalavörslu og skjalastjórn sveitarstjórnarskrifstofa

fimmtudagur, 18. nóvember 2021 - 9:00
  • Skýrsla. Skjalavarsla og skjaalastjórn sveitarfélaga.
    Skýrsla. Skjalavarsla og skjaalastjórn sveitarfélaga.

Þjóðskjalasafn Íslands hefur gefið út skýrslu með niðurstöðum úr eftirlitskönnun safnsins á skjalavörslu og skjalastjórn 19 sveitarstjórnarskrifstofa sem eru afhendingarskyldar lögum samkvæmt til Þjóðskjalasafns Íslands. Eftirlitskönnunin fór fram í febrúar og mars á þessu ári. Sveitarfélög sem ekki eru aðilar að héraðsskjalasafni eru afhendingarskyld til Þjóðskjalasafns og lúta því eftirliti safnsins samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn.

Í skýrslu Þjóðskjalasafns kemur fram að skjalavarsla og skjalastjórn þeirra 19 sveitarstjórnarskrifstofa
sem afhendingarskyldar eru til Þjóðskjalasafns fer hægt batnandi en litlar breytingar hafa orðið á stöðu þeirra frá því að hún var skoðuð síðast fyrir fjórum árum. Rafræn skjalavarsla sveitarstjórnarskrifstofa hefur jafnframt aukist lítillega en þó of hægt. Að meðaltali eru þrjú rafræn gagnasöfn í notkun hjá hverri sveitarstjórnarskrifstofu en í heild hefur Þjóðskjalasafn aðeins fengið tilkynningar frá þremur sveitarstjórnarskrifstofum um rafræn gagnasöfn. Jákvæð merki um meiri áherslu á þennan málaflokk er að starfsfólki í skjalavörslu og skjalastjórn hjá sveitarstjórnarskrifstofum er að fjölga. Árið 2017 höfðu 60% þeirra sérstakan starfsmann sem sá um skjalahaldið en í könnun ársins var það hlutfall komið upp í 81%. Með fjölgun starfsfólks sem sinnir skjalasafni sveitarstjórnarskrifstofunnar er von til þess að betri yfirsýn fáist yfir skjalasafnið. Þá hefur varðveisla tölvupósta hjá sveitarstjórnarskrifstofum stórbatnað, nú varðveita 88% tölvupósta en aðeins 57% gerðu það árið 2017.

Skýrsluna má nálgast hér:

Skjalavarsla og skjalastjórn sveitarstjórnarskrifstofa sem eru afhendingarskyldar til Þjóðskjalasafns.
Niðurstöður eftirlitskönnunar Þjóðskjalasafns Íslands 2021