Nordisk Arkivnyt er komið út

laugardagur, 24. mars 2012 - 13:45
  • Nordisk Arkivnyt
    Nordisk Arkivnyt

Út er komið fyrsta tölublað Nordisk Arkivnyt á þessu ári. Í blaðinu er m.a. umfjöllun um Héraðsskjalasafn Akranesskaupstaðar og Ljósmyndasafn Akraness eftir Gerði Jóhönnu Jóhannsdóttur héraðsskjalvörð. Einnig eru í blaðinu fréttir og frásagnir af starfsemi skjalasafna á öllum Norðurlöndunum.

Nordisk Arkivnyt kom fyrst út 1. mars 1956 í ritstjórn danska skjalavarðarins Harald Jørgensen. Fyrsta áratuginn eða svo hafði danska ríkisskjalasafnið veg og vanda af útgáfunni þó að öll norðurlöndin legðu til efni í blaðið. Árið 1966 stofnuðu ríkisskjalasöfnin á Norðurlöndunum útgáfuráð sem tók að sér rekstur blaðsins og hefur haft hann með höndum síðan. Í hverju útgáfulandanna er svæðisritstjóri sem aflar efnis fyrir blaðið í sínu landi. Aðalritstjórn blaðsins færist á milli landa þannig að hvert land, sem á aðild að útgáfunni, hefur aðalritstjórn með höndum í fimm ár. Árin 2005-2009 var aðalritstjórn í höndum Eiríks G. Guðmundssonar sviðsstjóra upplýsingasviðs Þjóðskjalasafns Íslands. Frá og með 1. janúar 2010 færðist ritstjórnin yfir til Danmerkur í hendur Leon Jespersen sem nú sér um aðalritstjórn blaðsins.