Námskeið Þjóðskjalasafns á landsbyggðinni

miðvikudagur, 19. september 2012 - 11:45
  • Þátttakendur á námskeiði Þjóðskjalasafns um skjalavörslu afhendingarskyldra aðila
    Þátttakendur á námskeiði Þjóðskjalasafns um skjalavörslu afhendingarskyldra aðila

Dagana 4., 6. og 11. september voru haldin námskeið á vegum Þjóðskjalasafns um skjalavörslu afhendingarskyldra aðila sem sérstaklega voru ætluð starfsmönnum ríkisstofnana úti á landi.  Námskeiðin voru haldin í Fræðslumiðstöð Vestfjarða á Ísafirði, Háskólanum á Akureyri og í starfsstöð Þekkingarnets Austurlands á Egilsstöðum. Á námskeiðunum var farið almennt yfir helstu lög og reglur sem gilda um skjalavörslu opinberra aðila, hverjir séu afhendingarskyldir aðilar og kröfur og fyrirmæli Þjóðskjalasafns til skjalavörslu þeirra. Þá var sérstaklega farið yfir frágang og skráningu pappírsskjalasafna til afhendingar til Þjóðskjalasafns ásamt gerð málalykils.

Námskeiðin eru liður í viðleitni Þjóðskjalasafns að koma betur til móts við þá starfsmenn stofnana sem ekki eiga heimangengt á námskeið sem almennt eru haldin á Þjóðskjalasafni. Námskeiðin mæltust vel fyrir og var almennt mjög góð þátttaka og líflegar umræður. Starfsfólk Þjóðskjalasafns þakkar góðar móttökur.