Markverðar heimildir leynast víða

föstudagur, 5. júlí 2013 - 12:30
 • Ekkna- og munaðarleysingjasjóður Dalahrepps, bókhaldsbók
  Ekkna- og munaðarleysingjasjóður Dalahrepps, bókhaldsbók
 • Minnisvarði um drukknaða sjómenn í Selárdal
  Minnisvarði um drukknaða sjómenn í Selárdal
 • Minnisvarði um drukknaða sjómenn í Selárdal. Minningarskjöldur með nöfnum hinna<br />látnu sjómanna
  Minnisvarði um drukknaða sjómenn í Selárdal. Minningarskjöldur með nöfnum hinnalátnu sjómanna
 • Minningarskjöldum með nöfnum þeirra sem fórust með seglskipinu Gyðu frá Bíldudal
  Minningarskjöldum með nöfnum þeirra sem fórust með seglskipinu Gyðu frá Bíldudal

Nýlega barst Þjóðskjalasafni að gjöf bókhaldsbók Ekkna- og munaðarleysingjasjóðs Dalahrepps sem í eru skráðir efnahags- og rekstrarreikningar sjóðsins fyrir árin 1916 til og með 1946. Dalahreppur hét síðar Ketildalahreppur og er nú hluti Vesturbyggðar. Gefandinn er hollvinur safnsins, Þrymur Sveinsson frá Miðhúsum í Reykhólasveit, en hann keypti bókina á fimm hundruð krónur á nytjamarkaði. Skjöl af þessu tagi eru mikilsverðar heimildir og eiga að sjálfsögðu helst heima á skjalasöfnum þar sem þær eru vel varðveittar og aðgengilegar öllum sem hafa áhuga á að skoða þær og rannsaka.

Íslendingar þekkja mætavel að það er ekki áfallalaust að sækja björg á sjó og miklu verra var ástandið áður þegar menn sóttu sjó á opnum bátum. Hinn 20. september árið 1900 gerði aftakaveður sem olli slysum og stórtjóni víða um land. Tvær kirkjur fuku í Svarfaðardal, seglskip rak á land á Akureyri og Ísafirði og mikið tjón varð á fiskiskútum í Reykjavíkurhöfn. Gríðarlegt manntjón varð vestur í Arnarfirði þennan dag þegar 18 menn fórust á fjórum bátum. Þá urðu 11 konur ekkjur og 24 börn föðurlaus. Árið 2000 var reistur minnisvarði í Selárdal um „þá menn úr Ketildalahreppi sem fórust 20. september 1900 og gistu hina votu gröf“. Þar eru skráð nöfn þeirra sem fórust og á hvaða bátum þeir voru.

Þá fórst seglskipið Gyða frá Bíldudal með allri áhöfn, átta manns, 10. apríl 1910. Mennirnir voru frá Bíldudal og nágrenni. Sumarið 1954 var reist á Bíldudal minnismerki um þennan atburð og þar eru birt nöfn allra skipverja á Gyðu sem fórust.

Það var því rík ástæða til að stofnaðir voru sjóðir til að styðja við þá sem áttu um sárast að binda eftir slíkar fórnir sem tóku fyrirvinnur frá heimilum, eiginmenn, feður, syni og bræður.