Landsnefnd Bláa skjaldarins á Íslandi

mánudagur, 27. október 2014 - 10:45
 • Frá stofnfundinum í Þjóðminjasafni
  Frá stofnfundinum í Þjóðminjasafni
 • Frá undirritun stofnsamningsins
  Frá undirritun stofnsamningsins
 • Njörður Sigurðsson sviðsstjóri hjá Þjóðskjalasafni Íslands ávarpar fundargesti
  Njörður Sigurðsson sviðsstjóri hjá Þjóðskjalasafni Íslands ávarpar fundargesti

Landsnefnd Bláa skjaldarins á Íslandi var formlega stofnuð sl. föstudag, 24. október, á degi Sameinuðu þjóðanna. Stofnfundurinn fór fram í Þjóðminjasafni Íslands og kom þar saman fjölmennur hópur fólks sem starfar að varðveislu menningarminja ásamt fulltrúum Almannavarna, Landsbjargar, Rauða krossins og ráðuneyta.

Blái skjöldurinn er menningunni það sem Rauði krossinn er mannúðar- og hjálparstarfi. Markmið hans að vernda menningarverðmæti þegar hættuástand skapast vegna náttúruhamfara og átaka m.a. með áætlunum og viðbrögðum þegar vá steðjar að og stuðningi þegar hættuástandi líkur. Landsnefndum Bláa skjaldarins hefur verið komið á fót um allan heim og þær hafa víða unnið mikilvægt starf við verndum menningarverðmæta. Íslendingar þekkja vel afl náttúrunnar og þær hamfarir sem geta orðið af hennar sökum á mannlegt samfélag. Íslenskri menningu er því mikilvægt að slíkri starfsemi, sem Blái skjöldurinn er, sé komið á fót hér á landi.

Aðild að landsnefndinni eiga félög og fulltrúar sem eru aðilar að alþjóðasamtökum safna, menningarminjastaða, bókasafna og skjalasafna. Fulltrúar í Landsnefnd Bláa skjaldarins á Íslandi eru:

 • Fyrir hönd Íslandsdeildar ICOM, Alþjóðasamtaka safna, Anna Guðný Ásgeirsdóttir, sviðstjóri fjármála- og þjónustusviðs á Þjóðminjasafni Íslands og settur þjóðminjavörður.
 • Fyrir hönd Íslensku ICOMOS nefndarinnar, Alþjóðasamtaka menningarminjastaða, Guðný Gerður Gunnarsdóttir, þjóðfræðingur.
 • Fyrir hönd fulltrúa í IFLA á Íslandi - Alþjóðasamtaka bókasafna á Íslandi Rósa Bjarnadóttir, fagstjóri Íslandssafns á Landsbóksafni Íslands - Háskólabókasafns.
 • Fyrir hönd fulltrúa í ICA á Íslandi - Alþjóðaskjalaráðsins Njörður Sigurðsson, sviðsstjóri á skjalasviði Þjóðskjalasafns Íslands.

Blái skjöldurinn - International Committee of the Blue Shield - var stofnaður árið 1996 til að vinna að verndun menningararfs sem er í hættu vegna náttúruhamfara og stríðsátaka. Markmið Bláa skjaldarins er að vinna að verndun menningararfs heimsins með því að samhæfa viðbragðsáætlanir þar sem hættuástand verður. Grundvöllur í starfi Alþjóðanefndar Bláa Skjaldarins er Haag-sáttmálinn frá 1954. Alþjóðanefnd Bláa skjaldarins hefur aðsetur í París en landsnefndir starfa víða um heim.

Nafnið Blái skjöldurinn vísar til bláa litarins í merki því sem menningarminjar, sem njóta verndar samkvæmt Haag-sáttmálanum, eru auðkenndar með. Blái skjöldurinn er UNESCO og öðrum alþjóðlegum samtökum til ráðgjafar og innan vébanda hans eru sérfræðingar með fjölbreytta þekkingu á sviði varðveislu menningararfs. Það gerir samtökunum kleift að safna og deila upplýsingum um ógn við menningarminjar um allan heim og vera til ráðgjafar um viðeigandi ráðstafanir þar sem verða vopnuð átök eða náttúrhamfarir og senda sérfræðinga á vettvang.

Vefur Alþjóðanefndar Bláa skjaldarins.