Grisjunarheimildir embættis landlæknis vegna rakningar á COVID-19

miðvikudagur, 21. október 2020 - 10:15
  • Þjóðskjalasafn Íslands.
    Þjóðskjalasafn Íslands.

Í tilefni frétta í fjölmiðlum um upplýsingar sem rakningarteymi embættis landlæknis notar til að rekja veirusmit vegna COVID-19 vill Þjóðskjalasafn benda á að þjóðskjalavörður hefur með heimild í 24. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn veitt tvær heimildir til eyðingar á gögnum sem landlæknisembættið hefur aflað vegna verkefnisins.

Hinn 27. mars sl. veitti þjóðskjalavörður embætti landlæknis heimild til að eyða staðsetningargögnum einstaklinga sem greinast með COVID-19 sjúkdóminn þegar hagnýtu gildi er lokið, en þeirra upplýsinga er aflað í gegnum smáforrit. Hinn 6. október sl. veitti þjóðskjalavörður embættinu heimild til að eyða greiðslukortaupplýsingum um viðskiptavini öldurhúsa þar sem greinst höfðu einstaklingar með COVID-19 þegar hagnýtu gildi er lokið.

Samkvæmt 24. gr. laga um opinber skjalasöfn er afhendingarskyldum aðilum óheimilt að ónýta eða farga nokkru skjali í skjalasöfnum sínum nema það sé gert á grundvelli samþykktar þjóðskjalavarðar, reglna sem settar eru á grundvelli laganna eða sérstaks lagaákvæðis.

Þjóðskjalasafn hefur frá maí á síðasta ári birt í lista allar afgreiddar grisjunarbeiðnir sem safninu berast frá afhendingarskyldum aðilum. Upplýsingar um afgreiddar grisjunarbeiðnir frá 2014-2019 má finna í fundargerðum grisjunarráðs sem lagt var niður árið 2019.