Eldgos í Þjóðskjalasafni á Safnanótt

föstudagur, 27. janúar 2023 - 14:00

Þjóðskjalasafn Íslands tekur þátt í Safnanótt sem fram fer 3. febrúar nk. Þetta er í fyrsta skipti síðan 2020 sem Safnanótt er haldin í Reykjavík. Þema safnanætur í Þjóðskjalasafni að þessu sinni er „eldgos“ en í ár eru 240 ár frá því að Skaftáreldar hófust, 60 ár frá því að gos í Surtsey byrjaði og 50 ár frá eldgosinu í Heimaey. Sýndar verða heimildir úr safnkostinum um eldgos, fluttir fyrirlestrar um efnið og boðið upp á kynningu um Þjóðskjalasafn og helstu dýrgripi safnsins. Fyrirlesarar verða Páll Zóphóníasson sem mun segja frá Vestmannaeyjagosinu 1973, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir um Mývatnselda 1724-1729, Atli Antonsson sem fjallar um eldgos í 19. aldar ljóðlist og Jón Kristinn Einarsson sem ætlar að segja frá séra Jóni Steingrímssyni og hnattrænum áhrifum Skaftárelda. Safnanótt í Þjóðskjalasafni hefst kl. 18:30 og lýkur kl. 22:15. Fyrirlestrar hefjast kl. 20 og sérstök kynning á Þjóðskjalasafni og sýning á dýgripum verður kl. 19 og 21:45.

Dagskrá Safnanætur í Þjóðskjalasafni má finna hér