Björk Ingimundardóttir hlýtur viðurkenningu Hagþenkis

miðvikudagur, 4. mars 2020 - 13:45
 • Björk Ingimundardóttir.
  Björk Ingimundardóttir.
 • Svanhildur Kr. Sverrisdóttir formaður Hagþenkis og verðlaunahafinn Björk Ingimundardóttir.
  Svanhildur Kr. Sverrisdóttir formaður Hagþenkis og verðlaunahafinn Björk Ingimundardóttir.
 • Björk Ingimundardóttir flytur ávarp við athöfnina.
  Björk Ingimundardóttir flytur ávarp við athöfnina.
 • Björk Ingimundardóttir og Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður.
  Björk Ingimundardóttir og Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður.

Á hátíðardagskrá í Þjóðarbókhlöðunni 4. mars 2020 var tilkynnt að ritverk Bjarkar Ingimundardóttur sagnfræðings, Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi hlyti viðurkenningu Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, fyrir árið 2019.

Verk Bjarkar er grundvallarrit um félagsgerð og samfélag fyrri alda, enda hefur kirkjan sinnt mikilvægu hlutverki í lífi landsmanna. Í umsögn dómnefndar segir m.a. að verk Bjarkar sé „yfirgripsmikið uppflettirit ásamt kortum sem auðveldar yfirsýn yfir sögu landsins og á eftir að nýtast í margvíslegum rannsóknum um langan aldur.“

Formaður Hagþenkis, Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, veitti viðurkenninguna, sem felst í árituðu heiðursskjali og 1.250.000 kr peningaupphæð. Tónlist flutti Ragnheiður Ólafsdóttir.

Skjalasöfn kirkna og biskupsstóla eru varðveitt í Þjóðskjalasafni og telja um 360 hillumetra. Elstu skjölin eru frá tólftu öld en þau yngstu nokkurra ára gömul. Á árunum 1985-1990 endurskráði Björk skjalasöfn presta og prófasta og vann jafnframt að rannsókn á söfnunum. Markmiðið var ekki síst að benda á fjölþætta möguleika til þess að nýta skjalasöfn kirkjunnar í heild, rannsaka þau og vekja athygli á skjölunum sem grundvallarheimild um fjölmörg svið samfélagsins. Auk skjalaskrárinnar sjálfrar var verkefnið rannsókn á því hvar mörk sókna, prestakalla og prófastsdæma lágu og hvernig þau hafa breyst í aldanna rás. Sú rannsókn birtist í verki Bjarkar, sem telur tæplega 1100 blaðsíður í tveimur bindum. Verkið var gefið út af Þjóðskjalasafni Íslands.

Björk Ingimundardóttir fæddist árið 1943 á Hæli í Flókadal og er sagnfræðingur frá Háskóla Íslands. Hún starfaði á Þjóðskjalasafni 1971-2013 og hefur komið að útgáfu fjölda bóka. Meðal þeirra má nefna fyrsta bindi Yfirréttarins á Íslandi, Skjalasafn landfógeta 1695-1904 og Byggðir Borgarfjarðar. Árið 2011 var Björk gerð að heiðursfélaga í Sagnfræðingafélagi Íslands.

Þjóðskjalasafn óskar Björku Ingimundardóttur til hamingju með viðurkenninguna.

Þakkarræða Bjarkar Ingimundardóttur, sem hún flutti við athöfnina.

Viðtal Eiríks Guðmundssonar við Björk í Víðsjá á RÚV. Viðtalið var tekið samdægurs, skömmu eftir að viðurkenningin var veitt.