Aukinn kraftur í þjóðlendurannsóknum í Þjóðskjalasafni

fimmtudagur, 9. febrúar 2023 - 14:00
  • Þjóðskjalasafn Íslands skjalalestur
    Þjóðskjalasafn Íslands skjalalestur
  • Þjóðskjalasafn Íslands
    Þjóðskjalasafn Íslands
  • Þjóðskjalasafn Íslands - lestrarsalur
    Þjóðskjalasafn Íslands - lestrarsalur

Þjóðskjalasafn Íslands auglýsir nú eftir 1-2 sérfræðingum í tímabundin störf til allt að tveggja ára í þjóðlendurannsóknum. Starfið felst einkum í vinnu við gagnaöflun fyrir óbyggðanefnd en hlutverk hennar er að skera úr um mörk þjóðlendna og eignarlanda, mörk hluta þjóðlendna sem nýttar eru sem afréttir og að úrskurða um eingarréttindi innan þjóðlendna. Allt frá því óbyggðanefnd tók til starfa árið 1998 hefur nefndin í ríkum mæli notið liðsinnis Þjóðskjalasafns Íslands við öflun heimilda vegna ágreiningsmála sem nefndin hefur haft til meðferðar. Sú gagnaöflun er afar mikilvægur liður í því að málin séu rannsökuð til hlítar áður en úrskurðir eru kveðnir upp. Þjóðskjalasafn aflar heimilda og gagna fyrir óbyggðanefnd um eignar- og afnotaréttindi, sem og landamerki, á þeim landsvæðum sem til meðferðar eru hjá óbyggðanefnd og láta óbyggðanefnd þau í té. Jafnframt skrifar Þjóðskjalasafn sögulegar greinargerðir um þau gögn sem koma í leitirnar. Verkið er unnið á hlutlægan og fræðilegan hátt. Störf við þjóðlendurannsóknir í Þjóðskjalasafni fela m.a. í sér skjalarannsóknir, uppskriftir á skjölum með eldri skrift, efnisskráningu dómabóka og veðmálabóka, úrvinnslu heimilda, afgreiðslu fyrirspurna og önnur verkefni sem tengjast jarðamálum. Ein af afurðum þjóðlendurannsókna í Þjóðskjalasafni er svokallaður dómabókagrunnur. Í hann hafa verið skráðar upplýsingar um öll dómsmál sem er að finna í dómabókum frá því snemma á 17. öld og fram á þá tuttugustu, og þannig hefur þessi mikilvægi heimildaflokkur verður gerður aðgengilegri fyrir notendur.

Í upphafi árs 2023 eru tveir landshlutar til meðferðar hjá óbyggðanefnd, þ.e. svonefnt svæði 10B, Ísafjarðarsýslur, og svæði 11, Austfirðir. Kerfisbundinni gagnaöflun vegna svæðis 10B er lokið en hún stendur yfir vegna svæðis 11. Óbyggðanefnd áformar að kveða upp úrskurði vegna svæðis 10B á fyrri hluta ársins 2023. Að óbreyttu er stefnt að uppkvaðningu úrskurða vegna svæðis 11 árið 2024. Þá reiknar óbyggðanefnd með því að hefja á árinu 2023 málsmeðferð á svonefndu svæði 12, þ.e. eyjum og skerjum umhverfis landið. Stefnt er að því að störfum óbyggðanefndar ljúki árið 2024. Á Þjóðskjalasafni hefur þegar farið fram nokkur undirbúningsvinna vegna þessa, einkum við skráningu dóma- og þingbóka sýslumanna og jarða- og kirknabréfa. Áfram verður haldið með þá dómabókaskráningu til að búa í haginn fyrir gagnaöflun um eyjar og sker umhverfis landið. Af sömu ástæðu verður haldið áfram efnisskráningu jarða- og kirknabréfa.

Auglýsingu um störf í þjóðlendurannsóknum má finna hér.