Afhending skjalasafns SÍS til Þjóðskjalasafns Íslands

föstudagur, 19. október 2012 - 16:30
  • Eiríkur G. Guðmundsson settur þjóðskjalavörður og Hannes Karlsson stjórnarformaður Sambands íslenskra samvinnufélaga undirrita samkomulag um afhendingu skjalasafns SÍS til Þjóðskjalasafns
    Eiríkur G. Guðmundsson settur þjóðskjalavörður og Hannes Karlsson stjórnarformaður Sambands íslenskra samvinnufélaga undirrita samkomulag um afhendingu skjalasafns SÍS til Þjóðskjalasafns
  • Flutningabíllinn affermdur
    Flutningabíllinn affermdur
  • Tengivagninn affermdur
    Tengivagninn affermdur
  • Hluti skjalasafnsins kominn í hús
    Hluti skjalasafnsins kominn í hús
  • Kristjana Kristinsdóttir og Þorgerður Hannesdóttir skoða gjörðabækur úr skjalasafninu
    Kristjana Kristinsdóttir og Þorgerður Hannesdóttir skoða gjörðabækur úr skjalasafninu
  • Gjörðabækur úr skjalasafni SÍS
    Gjörðabækur úr skjalasafni SÍS
  • Boðið var upp á veitingar við athöfnina
    Boðið var upp á veitingar við athöfnina

Skjalasafn SÍS kom í gærkvöldi frá Húsavík með flutningabíl með tengivagni á 60 vörubrettum. Skjalasafnið er um 600 hillumetrar að umfangi eða rúmlega 8.000 skjalaöskjur og vegur um 20 tonn.

Elstu skjölin í safninu eru frá stofnun þess árið 1902 og þau yngstu frá því um síðustu aldamót. Þar er einnig að finna gögn frá aðildarfélögum SÍS, sum frá síðustu áratugum 19. aldar, s.s. fundargerðarbækur kaupfélaga og önnur gögn tengd þeirra rekstri. Áður hefur Þjóðskjalasafni verið afhentar teikningar frá Teiknistofu SÍS og hluti fundargerðarbóka SÍS.

Samband íslenskra samvinnufélaga var stofnað þann 20. febrúar 1902 á Ysta-Felli í Köldukinn í Suður-Þingeyjarsýslu og varð því 110 ára í febrúar síðastliðnum. Upphaflega hét það Sambandskaupfélag Þingeyinga en árið 1906 var því breytt í Samband íslenskra samvinnufélaga. Saga Sambandsins er vissulega mikilvægur kafli í félags-, atvinnu- og efnahagssögu íslensku þjóðarinnar, og kaupfélögin léku mikilvæg hlutverk í framþróun þjóðarinnar á 20. öld og ein fjölmennustu almannasamtök þjóðarinnar.

Á glæsilegustu árum Sambandsins og kaupfélagana, frá 1940 til 1980, var Sambandið stærsti atvinnurekandi landsins. Um 1980 voru starfsmenn þess um 1.800. Þegar líða tók á 20. öld birtust ýmis vandamál í rekstri Sambandsins og kaupfélaganna samhliða margþættum breytingum í efnahagslegu umhverfi. Á aðalfundi árið 1990 var samþykkt að Sambandið skyldi gert upp, eignir seldar og skuldir greiddar. Þetta gekk að mestu eftir og var lokið árið 1992. Síðan hefur Sambandið aðeins verið félagslegur vettvangur kaupfélagana til samstarfs og samráðs.