Máldagar Ólafs biskups Rögnvaldssonar um Hólabiskupsdæmi

Ólafur Rögnvaldsson var norskur að ætterni, sonur Rögnvalds Kenikssonar riddara, Gottskálkssonar biskups. Hann varð biskup á Hólum í Hjaltadal árið 1459 og hélt því embætti til dauðadags, 1495. Ólafur þótti halda vel á fjármunum Hólastóls og hafði orð fyrir að vera siðavandur og „refsingasamur“.

Skinnbók sú, sem hér er sýnd á myndum, er frumrit máldagabókar Ólafs Rögnvaldssonar. Elsta ártal í bókinni er 1461 og hið síðasta 1510. Ýmsir máldagar í bókinni eru þó eldri að stofni til en frá dögum Ólafs biskups. Ljóst þykir að eitthvað hafi glatast úr bókinni, en óvíst er hversu mikið. Þorlákur biskup Skúlason (1597 - 1656, biskup á Hólum 1628-1656) lét afrita bókina árið 1639 og er það afrit varðveitt og þannig ljóst að ekkert hefur tapast úr bókinni síðan sú afritun var gerð.

Máldagabókin er úr safni Árna Magnússonar (AM 274, 4to). Árni fékk bókina smám saman lánaða hjá Steini biskupi Jónssyni (1660 - 1739, biskup á Hólum 1712-1739) og hugðist skila henni árið 1725, en af því varð ekki og endaði bókin því í safni Árna. Á miðum sem festir eru milli skinnblaðanna eru ýmsar athugasemdir Árna eins og þessi sem er milli fyrsta og annars blaðs:

„fra Hr. Steine Jonssyne, biskupe, med Hofsoss skipe 1724. Eru 20 blod. - Hier fyrer utan Rekaskraen á 7½ blade sem fylgdest med þessum Maldaga 1724. hana sendi eg til baka innbundna 1725. - 15 blöd verda þad sem eg til bokarinnar legg.“

Um skinnbókina segir svo í Íslenzku fornbréfasafni:

„Til skamms tíma var máldagabókin innbundin í fornt skinn, órakað og hárið rautt og sneri hárhamur út, og var annaðhvort útselaskinn eða nautskinn … En nú er búið að fletta hana því, og er forna bandið glatað. Er það illa farið, því að fyrir band þetta mun bók þessi í þjóðsögunum hafa orðið Rauðskinna sú, er mestr galdr var í, og var í höndum Hólabiskupa.“

Máldagabókin kom til Íslands úr Árnasafni í skjalaafhendingu Dana árið 1928 og hefur verið varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands síðan (Biskupsskjalasafn, Bps. B,II,4).

Heimildir:

Páll Eggert Ólason, Íslenskar æviskrár, IV. og V. bindi.
Íslenzkt fornbréfasafn V, 1.

Smellið á bókina hér að neðan til að skoða myndir af máldagabókinni.

Máldagar Ólafs biskups Rögnvaldssonar um Hólabiskupsdæmi