Viðgerðarstofa

Þjóðskjalasafn Íslands er stofnað 3. apríl 1882, en þá gaf landshöfðingi út auglýsingu um Landsskjalasafn. Staða landsskjalavarðar var þó ekki stofnuð fyrr en 1899 og safninu sett reglugerð árið eftir. Nafni safnsins var síðar breytt í Þjóðskjalasafn Íslands með lögum árið 1915.

Um upphaf bókbandsstofu/viðgerðarstofu segir í bréfi, dagsettu 9. apríl 1907, til Stjórnarráðsins:

... hafa bæði Landsbókasafnið og Landsskjalasafnið gert ráðstafanir til þess, að söfnum þessum verði í hinni nýju safnabyggingu ætluð sameiginleg bókbandsverkstofa og við söfnin ráðinn fastur bókbindari, er fullnuma væri bæði í iðn sinni og þar að auki í því að gera við og binda inn gömul og skemd skjöl, handrit og bækur safnanna á þann hátt, er nú er talinn bestur og öruggastur til frambúðar varðveislu.

Er síðan vísað í bréf ríkisskjalavarðar Dana til Ólafs konferentsráðs Halldórssonar 10. janúar f.á.

Hugsa söfnin sér að sæta tilboði því, sem kemur fram í því bréfi, og láta hinn væntanlega bókbindara sinn nema hina fullkomnustu aðferð í nefndu efni hjá bókbindara, sem hefir í hendi band og aðgerð skjala og handrita fyrir Ríkisskjalasafn Dana. Til þess hafa söfnin ráðið Runólf bókbindara Guðjónsson, ... Hann hefur og bundið töluvert af gömlu fyrir Landsskjalasafnið undanfarin ár upp á eigin hönd. Fyrir hönd Landsbókasafnsins og Landsskjalasafnsins.

Pálmi Pálsson.  Jón Þorkelsson.

Fór Runólfur utan sumarið 1907 og dvaldi í þrjá mánuði við Ríkisskjalasafnið, var námsefnið m.a.

  1. at behandle af Vand medtagne Arkivalier med det saakaldte "Zapon", hvorved det bløde og skøre Papir gennemtrænges med Cellulose og atter bliver stift og stærkt,
  2. at reparere beskadigede Papirer med japansk Silkepapir,
  3. at indbinde reparerede Protokoller paa de Maader og i den Indbinding, som man her anser for den hensigtsmæssigste og billigste,
  4. at indbinde eller pakke (Doubletter af) Provinsaviser paa de i Arkivet brugelige Maader, der ere stærkere og bedre end de af vore Biblioteker anvendte.

Að námi loknu hóf Runólfur Guðjónsson störf við Landsskjalasafnið um áramótin 1907-08.

Brot úr bréfi til Stjórnarráðsins, dagsettu 30. mars 1908, varpar nokkru ljósi á verkefni Runólfs.

Til þessarar nýju aðferðar heyrir, meðal annars, að bera á bækurnar til varnar fúa lög nokkurn, er Zapon nefnist ... en ekki kom verkefni það hingað út fyrr en í desember síðast. Af þessu leiddi það, að hinkra varð við með bókbandið frá því í sumar sem leið, að Runólfur var til utanfarar ráðin, og þar til alt væri til taks aptur, bæði hann og efni þau, er á þurfti að halda. Var því ekki tekið á því, nema að litlu leyti, fyrr en nú undir áramótin.

Árið 1964 var frú Vigdís Björnsdóttir handavinnukennari ráðin til að annast viðgerð handrita og skjala beggja safnanna, Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns, en hún hafði sumarið 1963 numið slíka viðgerð hjá Roger Powell, einum kunnasta bókbindara á Englandi. Veitti alþingi fjárveitingu til áhaldakaupa og innréttingar viðgerðastofu Þjóðskjalasafnsmegin í Safnahúsinu og var stofan í umsjá þjóðskjalavarðar. Var viðgerðarstofan formlega opnuð 1964. Á árunum 1986-1987 flutti viðgerðarstofa safnsins á Laugaveg 162.

Heimild: Þ.Í. E-306 Þjóðskjalasafn. Bréfabækur Þjóðskjalasafns 1900-1919.

Starfsmenn viðgerðarstofu:

  • Karen Þóra Sigurkarlsdóttir.
  • Olga Dagmar Erlendsdóttir.