Umbúðir

Skjalaöskjur

Bréfasafn og önnur innbundin skjöl eru látin í skjalaöskjur. Sérstakar öskjur eru notaðar við vörslu skjala sem geyma á til frambúðar. Askjan er hönnuð til hlífðar, auk þess að vera úr efni sem eyðileggur ekki skjölin. Efni sem notuð eru við framleiðslu á skjalaöskjum eiga að uppfylla alþjóðlegan staðal, ÍST EN ISO 9706, auk þess að uppfylla önnur skilyrði staðals SS 62 81 07sem á við um skjalaöskjur í stærðunum A4, folio og A3.

Nauðsynlegt er að fylla skjalaöskjuna því annars geta skjölin bognað og brotnað með tímanum.

Efni sem fjarlægja verður áður en skjöl eru látin í skjalaöskjur:

  • Bréfaklemmur
  • Heftirvír
  • Gúmmíbönd
  • Járn t.d. í möppum
  • Plastefni
  • Sjálflímandi blöð, miðar
  • Límbönd

Skjalaöskjur er uppfylla ofangreindar kröfur er hægt að panta hjá Hvítlist.

Málsmöppur

Það er nauðsynlegt að skilja skjölin í öskjunni vel að. Til þessa eru notaðar málsmöppur eða arkir úr pappír sem uppfyllir kröfur ÍST EN ISO-9706. Nota má 120 gr./m2 arkir af stærðinni 460 x 300 mm, sem henta fyrir skjöl í A4 stærð, eða arkir af stærðinni 460 x 360 mm, sem henta fyrir skjöl í folio stærð.  Arkirnar eru brotnar saman og notaðar sem málsmöppur. Möppur úr plasti á ekki að nota sem málsmöppur. Möppur sem uppfylla ofangreindar kröfur er hægt að panta hjá Þjóðskjalasafni Íslands.