Saga safnsins

Stofnun Þjóðskjalasafns Íslands

Stofnun Þjóðskjalasafns Íslands miðast við auglýsingu landshöfðingja 3. apríl 1882 um landsskjalasafn. Þar var mælt fyrir um, að skjalasöfn landshöfðingja, stiftsyfirvalda, amtmanns yfir suður- og vesturamti, biskups, landfógeta og hins umboðslega endurskoðanda skyldu geymd hvert í sínu herbergi á dómkirkjuloftinu í Reykjavík, og áttu þessir embættismenn að gæta hver síns skjalasafns eins og þeir höfðu gert að undanförnu. Sérstakt herbergi skyldi til þess ætlað að geyma í því skjöl frá embættismönnum úti um land. Það safn var undir umsjón landshöfðingjaritara. Sýslumönnum var gert að skyldu að senda öll embættisskjöl og bækur eldri en 30 ára í þetta sameiginlega skjalasafn landsins, að svo miklu leyti, sem þeir hefðu ekki sjálfir trygga geymslustaði fyrir þau. Prestar voru ekki skyldir að senda þangað skjöl, en þeir gerðu það samt.

Safnið komst ekki á fastan grundvöll fyrr en 1899. Þá veitti Alþingi fé til þess að launa sérstakan skjalavörð. Safninu var sett reglugerð árið eftir. Samkvæmt henni var öllum embættismönnum og stofnunum, andlegum og veraldlegum, svo og opinberum starfsmönnum og nefndum, þ.á m. umboðsmönnum, hreppsstjórum, hreppsnefndum og sáttanefndum, gert að skyldu að afhenda Landsskjalasafninu skjöl og bækur, sem eldri væru en 30 ára. Einnig átti safnið að fá skjalasöfn gamalla embætta og stofnana, sem lögð höfðu verið niður.

Haustið 1900 var Landsskjalasafn opnað til almenningsnota. Árið 1915 voru sett ný lög um safnið, nafni þess breytt úr Landsskjalasafn í Þjóðskjalasafn og forstöðumaður þess gerður að reglulegum embættismanni.

Þegar Íslendingar fengu heimastjórn 1904, fluttist skjalasafn hinnar íslensku stjórnardeildar til Íslands, en í Kaupmannahöfn varð eftir mikið magn skjala varðandi íslensk stjórnunarmálefni í ýmsum söfnum. Jón Þorkelsson, sem var fyrsti þjóðskjalavörðurinn, krafðist frekari skila á skjölum úr dönskum söfnum, en varð lítið ágengt.

Nokkru eftir 1918, er Ísland varð fullvalda, var farið að hreyfa skilum á skjölum varðandi íslensk málefni úr Ríkisskjalasafni Dana. Málið var rætt á fundum dansk-íslensku ráðgjafarnefndarinnar árið 1925 og á næstu árum. Samkomulag náðist árið 1927. Ríkisskjalasafn lét af hendi skjöl úr skjalasöfnum stjórnardeilda og leyndarskjalasafni, sem að mestu eða öllu leyti vörðuðu Ísland. Þó skyldi Ríkisskjalasafnið eiga áfram svo mikið af skjölum varðandi Ísland, að eftir þeim væri hægt að rekja þráðinn í yfirstjórn landsins, meðan því var stjórnað frá Kaupmannahöfn. Einnig voru afhent málsskjöl í íslenskum hæstaréttarmálum 1802-1921 og dálítið af skjölum úr Árnasafni. Aftur á móti urðu Íslendingar að afhenda til Kaupmannahafnar ýmis skjöl íslensku stjórnardeildarinnar í samræmi við ákvæði samningsins. Skjalaskipti þessi fóru fram árið 1928.

Húsnæði

Þjóðskjalasafn var til húsa á lofti Dómkirkjunnar árin 1882-1900 en flutti þá í Alþingishúsið og í Safnahúsið við Hverfisgötu 1908 þar sem lestrarsalur var til húsa til 1999. Á árunum 1986-1987 fluttu viðgerðarstofa og skrifstofur safnsins á Laugaveg 162, en þar er safninu ætlaður framtíðarstaður.

Saga skjalasafna og skjalavörslu

Skjalasöfn mynduðust meðal fornþjóða, um leið og þær þróuðu með sér skrift. Skjalasöfn eru þekkt meðal Hittíta, Assyríumanna, Persa, Babyloníumanna og Egypta. Frá Egyptalandi eru varðveitt bréfaskipti Echnatons faraós (1411-1358 f.Kr.) og palestínskra smákónga. Enda þótt skjalasöfn séu þekkt allt frá þessum tíma sem hluti af stjórnsýslu, er ekki víst, að þau hafi verið til sem stofnanir. Í Grikklandi er talið, að fyrsta skjalasafnið, a.m.k. þar sem frumrit laga voru varðveitt, hafi verið stofnað um 460 f. Kr. Skjöl rómverska ríkisins voru þegar á 5. öld f. Kr. flutt í opinbera byggingu af öryggisástæðum, en áður höfðu þau verið geymd hjá æðstu stjórnendum ríkisins. Frá því um 500 f.Kr. voru skjöl Rómarríkis varðveitt í Satúrnusarhofinu í Róm, sem brann árið 78 f.Kr. Var þá byggt yfir fjármála- og löggjafarstarfsemi öldungaráðsins og skjalasafnið varðveitt þar. Byggingin kallaðist Tabularium og stendur enn.

Í opinberum skjalasöfnum Grikkja og Rómverja voru varðveitt mikilvægustu skjöl ríkisins, s.s. lög, stjórnskipunargerðir og mikilvægustu gerningar og ákvarðanir. Hins vegar sáu einstök embætti um varðveislu eigin skjala. A.m.k. var það svo hjá Rómverjum, en mun meira er vitað um skjalasafnasögu þeirra en Grikkja.

Reginmunur var á fornum skjalasöfnum Rómverja og Grikkja og skjalasöfnum í Evrópu á miðöldum. Skjalasöfn fornaldar geymdu skjöl og rituð lög, sem vörðuðu almenn réttindi borgaranna, en skjalasöfn miðalda varðveittu skjöl um sérréttindi og eignir einstakra stofnana eða hópa manna. Af síðastnefnda viðhorfinu mótuðust skjalasöfn í Evrópu langt fram eftir öldum og þá að sjálfsögðu íslensk skjalasöfn eða skjalasöfn, sem tengdust Íslandi.

Uppruni nútíma skjalasafna er talinn frá tímum frönsku byltingarinnar. Franska þjóðskjalasafnið var stofnað árið 1789 og skjalasafn frönsku stjórnarskrifstofanna árið 1796. Þá var í fyrsta sinn komið á fót heildstæðri skjalavörslu, er náði til skjalasafna, sem þegar voru til, og opinberra stofnana, þar sem skjöl urðu til. Í stofnun þessara skjalasafna fólst viðurkenning á því, að ríkið væri ábyrgt fyrir varðveislu sögulegra heimilda, þ.e. skjalaarfinum. Tilskipun frá 25. júní 1794, sem hefur verið nefnd yfirlýsingin um skjalaréttindi manna, var ekki síður mikilvæg. Með henni voru skjalasöfn opnuð öllum borgurum, aðgangur að skjölum var ekki lengur forréttindi.

Grundvallarregla nútíma skjalavörslu, upprunareglan, verður þó ekki til fyrr en á fyrri hluta 19. aldar. Upprunareglan eða „respect pour les fonds“ hefur fyrst og fremst verið eignuð Frökkum, sérstaklega Natalis de Wailly, og miðað er við árið 1841. Þó er upprunareglan kunn frá Þýskalandi 1816 og Hollandi 1826.

Með upprunareglu er átt við, að skjalasöfnum hinna ýmsu stofnana og embætta o.s.frv. sé ekki blandað saman og söfnin séu látin halda sér eins og þau voru mynduð af þeim, sem unnu með skjölin og gengu frá þeim á sínum tíma, en þeim ekki raðað að nýju eftir einhverju öðru kerfi, sem alls ekki þarf að vera í nokkrum tengslum við hið upprunalega.