Rannsóknir

Í Þjóðskjalasafni er unnið að rannsóknarverkefni sem felst í því að skoða heimildir og skjöl helstu embætta Íslands frá siðaskiptum út frá skjalafræðilegum reglum, þ.e. upprunareglu. Einnig er embættisfærsla hvers embættismanns skoðuð og lagðar verða línur um nýskráningu þessara safna.

Hér er um að ræða grunnrannsókn sem mun auka skilning á heimildum sem liggja eftir hvern embættismann og þannig auðvelda og auka rannsóknir á skjölum og sögu hvers tímabils.

Aðferðafræði verkefnisins byggir á upprunareglu, eins og áður segir, sem er grunnvinnuregla við skjalavörslu. Hún felur í sér að hverju skjalasafni er haldið fyrir sig og virða á innri röð skjala í hverju skjalasafni. Vegna þessa er spurt um hvern skjalaflokk þegar unnið er með skjalasöfn, hver er tilurð þess að skjölin urðu til, hver er uppbygging skjalaflokkins/skjalanna, hver eru helstu einkenni skjalaflokksins/skjalanna og hvert er innihaldið auk þess sem athugað er hvort skjölin eru frumrit eða afrit. Þeir efnisþættir sem verkið byggir á eru því eftirfarandi:

  1. Inngangur með yfirliti yfir stjórnsýslusögu embættisins auk greinargerðar um embættisfærslu. Embættisbréf fylgiskjal.
  2. Dæmi um skjal/heimild. Inngangur með almennri umfjöllun um hana. Uppbygging hennar og innihald.
  3. Athugasemdir um heimildina. Hver eru einkenni hennar?
  4. Lagagrundvöllur heimildar. Hvenær hófst hún og hvenær lauk henni?
  5. Notkunarmöguleikar. Í hvaða rannsókn er hægt að nota heimildina/skjalið?
  6. Hvar finnst heimildin? Á hvaða safni?

Hér að neðan eru þær rannsóknir sem tengjast þessu verkefni og þegar er lokið.

  • Rannsóknarskýrsla

    Helga Jóna Eiríksdóttir. Embættisfærslur sýslumanna á 19. öld. Skjalfræðileg rannsókn á embættisfærslum sýslumanna Ísafjarðarsýslu, Rangárvallasýslu og Snæfellsnessýslu. Ágúst 2015 (PDF, 6,5MB).

  • Rannsóknarskýrsla

    Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir. Embættisskjöl og embættisfærsla landshöfðingja á Íslandi 1873 til 1904. September 2010 (PDF, 1,5MB).

  • Rannsóknarskýrsla

    Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir. Embættisskjöl og embættisfærsla amtmanna á Íslandi 1770 til 1904 og amtsráða 1875 til 1907. Október 2011 (PDF, 3,7MB).

  • Rannsóknarskýrsla

    Nanna Þorbjörg Lárusdóttir. Skjalasafn amtmanns yfir landinu öllu 1688-1770. Embættið og uppbygging skjalasafnsins. Ágúst 2011 (PDF, 2,7MB).

  • Rannsóknarskýrsla

    Ólafur Arnar Sveinsson. Leiðarvísir fyrir dóma- og þingbækur í skjalasöfnum sýslumanna í Þjóðskjalasafni Íslands. Mars 2011 (PDF, 1,2MB).