Uppteiknun dánarbús Þórarins Jónssonar frá Ytri Ásum í Skaftártungu

Febrúar 2014

Uppteiknun dánarbús Þórarins Jónssonar frá Ytri Ásum í Skaftártungu

ÞÍ. Sýslumaður Skaftafellssýslu ED2/1

Í ár ber dagskrá Þjóðskjalasafns Íslands á safnanótt, þann 7. febrúar, yfirskriftina „Móðan og myrkrið“ og er hún helguð Skaftáreldum og Móðuharðindunum. Í safninu eru varðveittar ýmsar heimildir um afleiðingar hamfaranna, áhrif þeirra á byggð og bú, viðbrögð stjórnvalda við neyðinni sem fylgdi og umræður um langtímaáhrif og mögulega fólksflutninga.

Eldsumbrotin í Lakagígum, Skaftáreldar, hófust í byrjun júní 1783 og stóðu yfir fram í febrúar árið eftir. Gosinu fylgdi mesta hraunrennsli á jörðinni á síðasta árþúsundi að því talið er og er rúmmál hraunsins um 12 - 14 km3 og þekur það um 580 km2. Samtímalýsingar benda einnig til þess að eldvirkni hafi verið undir Vatnajökli á sama tíma og að þær hræringar hafi haldið áfram til ársloka 1785. [1]

Tjón af völdum umbrotanna var mikið. Land spilltist af gjóskufalli, hraunrennsli, sandfoki og vatnsflóðum. Bæjarhús skemmdust og búfénaður féll vegna grasbrests og eitrunar. Gosið hófst snemma sumars þegar fóður var á þrotum og var búfjárfellir því mikill strax á fyrsta ári harðindanna. [2] 47 jarðir og 14 hjáleigur fóru í eyði í Skaftáreldum um lengri eða skemmri tíma í sveitunum sem harðast urðu úti. Heimilunum, sem fyrir gosið voru nálægt 160 talsins, fækkaði um allt að 90. [3] Erfitt er að gera samanburð á mannfjölda fyrir og eftir umbrotin þar sem fólk flosnaði upp af jörðum sínum, bændur fluttu sig milli jarða innan héraðs, fluttu úr héraði og jafnvel í aðrar sýslur á meðan á umbrotunum stóð. Samanburður á manntalsskýrslum gefur þó til kynna að íbúum eldsveitanna svokölluðu hafi fækkað um allt að 60% frá 1783 til 1784 en að frá sumri 1785 hafi fólki tekið að fjölga á ný. Á landsvísu er talið að fólksfækkun vegna móðuharðindanna hafi verið allt að 20%. [4]

Í Eldriti Jóns Steingrímssonar er að finna lýsingar á hvernig bæir og búfénaður urðu eldstraumi og vatnsflóðum að bráð og hvernig fólk missti flestar veraldlegar eigur sínar. Nefnir hann sérstaklega bóndann í Hvammi sem reyndi að koma fatnaði, ull, smíðatólum , bókakistli og peningum undan eyðileggingunni, en mistókst. [5]

Í skjalasafni sýslumanna er að finna merkilegar ritheimildir um lausafé fólks á síðari hluta 18. aldar, heimildir sem geta gefið góða mynd af eigum þeirra sem flýja þurftu heimili sín vegna hamfaranna. Í uppteiknunum dánarbúa og arfaskipta eru taldar allar eigur búsins sem til skipta komu. Úr Skaftafellssýslu eru engar uppteiknanir frá 1783 eða 1784 í safninu, en þær er að finna frá árunum 1781 og 1785. Frá árinu 1781 er ein uppteiknun varðveitt. Hún er af dánarbúi Þórarins Jónssonar frá Ytri Ásum í Skaftártungu og er sýnd hér. Ytri Ásar koma enn við sögu þegar hlaup verða í Skaftá og vitna ábúendur um brennisteinsfnyk þegar hlaup er í vændum. [6]

Uppteiknun þessi hefur ekki varðveist í heild sinni og niðurlag hennar vantar alveg. Þó má greina ýmis atriði sem gefa nokkra mynd af eigum Þórarins, sem samanstóðu af smiðjuverkfærum og fatnaði ásamt faraskjótum hans.

___________________________

  1. Sigurður Þórarinsson, 1984: Annáll Skaftárelda. S.11-36. Skaftáreldar 1783-1784. s.26.
  2. Gylfi Már Guðbergsson og Theodór Theodórsson, 1984: Áhrif Skaftárelda í Leiðvallar og Kleifahreppum. Skaftáreldar 1783-1784. S. 99-117. s. 103-104.
  3. Sama. S.106
  4. Sama. S. 110-111.
  5. Jón Steingrímsson, 1973: Æfisagan og önnur rit. Reykjavík 1973. S. 365-366.
  6. Vatnshæð í Skaftá nánast óbreytt. Frétt á www.ruv.is, 20.1.2014, síðast heimsótt 29.1.2014, http://www.ruv.is/frett/vatnshaed-i-skafta-nanast-obreytt.

 

Brynja Björk Birgisdóttir ritaði kynningartexta.
Jón Torfason skrifaði upp skjalið.

 

Hér að neðan er uppskrift af skjalinu.

Uppteiknun dánarbús Þórarins Jónssonar frá Ytri Ásum í Skaftártungu framhlið
Uppteiknun dánarbús Þórarins Jónssonar frá Ytri Ásum í Skaftártungu bakhlið