Umdeildur kirkjuflutningur

Ágúst 2017

Umdeildur kirkjuflutningur

ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994-D/5. Stjórnarráð Íslands, bréf frá 1957–1961 (örk 4).
ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994-E/34. Bréfabók biskupsdæmis Íslands 1960, bréf nr. 115 og bréf nr. 167.

Nýlega var kvikmynd Óskars Þórs Axelssonar, Ég man þig, sem gerð er eftir samnefndri skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur, sýnd í ríkissjónvarpinu. Þar vatt fram tveimur sögum í mögnuðum spennutrylli – og sögusviðið er Hesteyri við Hesteyrarfjörð í Jökulfjörðum norðanverðum.

Á Hesteyri hefur verið búið um langa hríð. Samkvæmt manntalinu 1703 höfðu 19 manns þar heimilisfesti. Hesteyri varð löggiltur verslunarstaður árið 1881 og var þá reist þar útibú frá Ásgeirsverslun á Ísafirði. Árið 1894 reisti norska fyrirtækið Brödrene Bull hvalveiðistöð á Stekkeyri. Hún bar fyrst nafnið Gimli, síðan Hekla og var breytt í síldarsöltunarstöð og síðar síldarverksmiðju þegar Norðmenn hættu hvalveiðum og rekstri stöðvarinnar. Síldarverksmiðjan starfaði fram til ársins 1940. Með auknum umsvifum á Stekkeyri efldist byggðin og varð vísir að þorpi með allt að 80 íbúum, þegar hæst hóaði. Þegar rekstur á Stekkeyri dróst saman fækkaði íbúum Hesteyrar jafnt og þétt þar til þorpið fór í eyði. Síðustu íbúarnir voru hjónin Sigrún Bjarnadóttir (1905-2001) og Sölvi Betúelsson (1893-1984) sem bjuggu á Reyrhóli á Hesteyri. Þau fluttu til Bolungarvíkur í nóvember árið 1952.

Á vefnum kirkjukort.is er þetta ritað um kirkjuhald á Hesteyri.

„Á fyrstu árum byggðar á Hesteyri var þar bænhús sem var útkirkja frá kirkjunni á Stað í Aðalvík. Nokkru eftir að Brödrene Bull reistu hvalveiðistöð sína á Hesteyri árið 1894 ákváðu þeir að gefa Hesteyringum kirkju. Aðalhvatamaðurinn að þessari gjöf var Markus Bull frá Tönsberg í Noregi og fluttu þeir bræður timbrið í hana tilhöggvið frá Noregi. Var kirkjan fullbyggð þann 9. ágúst árið 1899, hún síðan vígð þann 3. september og þann 11. september afhenti Markus Bull Hesteyringum kirkjuna opinberlega. Kirkjunni sjálfri fylgdu ýmsar gjafir t.d. vegleg altaristafla, ljósastjakar, kaleikur, altariskanna, patína, skírnarskál, sálmabækur o.fl. Árið 1927 var Aðalvíkursókn skipt í tvennt og ári síðar var Hesteyrarkirkja endurbyggð yst sem innst.“

Nokkrum árum eftir að Hesteyri var komin í eyði fóru Súðvíkingar að leita hófanna um að reisa kirkju í þorpinu sem fór ört vaxandi. Súðavík var á endimörkum Eyrarsóknar í Seyðisfirði og um nokkuð langan veg að fara til sóknarkirkjunnar á Eyri. Þeir báru málið undir prófast Norður-Ísafjarðarprófastsdæmis, séra Sigurð Kristjánsson (1907-1980), sem vísaði málinu til biskups. Hinn 1. mars 1960 ritaði biskup Íslands, herra Sigurbjörn Einarsson (1911-2008, biskup 1959-1981), dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf og viðraði hugmynd sína um að flytja Hesteyrarkirkju til Súðavíkur. Hann gat þess í bréfinu að Súðvíkingar hafi sýnt hugmyndinni áhuga, en veltu fyrir sér hvort greiða ætti gjald fyrir kirkjuna. Biskup sagðist líta svo á „að eðlilegast sé, að Súðvíkingar fái þetta kirkjuhús án annarra kvaða en þeirra, að þeir hagnýti sér það. Kirkjan stendur umhirðulaus á eyðihjara og verður fyrirsjáanlega öllum ónýt og brakrúst innan fárra ára.“

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið féllst á þessa tillögu biskups með bréfi dagsettu 30. mars 1960 og biskup sendi prófasti bréf um þá ákvörðun samdægurs. Um haustið sama ár var Hesteyrarkirkja tekin niður, flutt til Súðavíkur og endurbyggð þar í nokkuð breyttri mynd. Smíðuð var ný forkirkja með söðulþaki og turni í stað pýramídaturnsins sem áður sat á sjálfu kirkjuskipinu. Þá hurfu tígulgluggarnir sem áður einkenndu framhlið kirkjunnar á Hesteyri. Árið 1990 var byggður kór við kirkjuna með kjallara undir eftir teikningum Elísabetar Gunnarsdóttur arkitekts og jafnframt gerðar verulegar umbætur á kirkjunni.

Nokkrar deilur urðu um flutning kirkjunnar á sínum tíma og töldu ýmsir Hesteyringar að kirkjunni hefði verið ráðstafað í heimildarleysi því hún hefði verið gefin Hesteyringum. Töluðu sumir um þjófnað í því skyni. Séra Sigurður Kristjánsson prófastur ritaði stutta grein um flutningsmálið í Lindina, tímarit sem Prestafélag Vestfjarða gaf út, og gat þess að þeir aðilar sem höfðu forgöngu um flutning kirkjunnar hafi verið „mjög víttir fyrir framkomu sína“ í blaðaskrifum, „en aldrei, að ég man, var véfengd heimild ráðuneytisins til slíkrar ráðstöfunar eða það vítt fyrir framkomu sína, sem undarlegt má virðast, þar sem það hafði úrslitavald um málið, og hefði ekkert verið gert án vilja þess og ákvarðana.“

Sigurður prófastur nefnir einnig í Lindargreininni að þegar Hesteyrarkirkja var tekin niður til flutnings hafi fundist í hornstaf hennar svohljóðandi skjal í lokuðu hylki:

 „Ár 1899 í júlí og ágústmánuðum er kirkja þessi reist af herra hvalfangara M. C. Bull frá Tönsberg á kostnað hinna sameinuðu kirkna Staðar og Hesteyrar alleina fyrir forgöngu faktors Sigurðar Pálssonar á Hesteyri og framkvæmir hr. M. C. Bull, sem gefið hefir flutning og smíðar á kirkjunni auk altaristöflu o.fl.
 Á Stað í Aðalvík er einnig gömul kirkja, með torfveggjum, timburþaki og göflum. Þegar niður fallin og á einnig að uppbyggjast innan tveggja ára.
 Tala safnaðarins um 400. Íbúatala Hesteyrar 70 auk 40 Norðmanna á Gimli. Prestur síra Páll E. Sívertsen lasburða til embættisverka. Kirkja á Stað illa sótt. Safnaðarlífið dauft. Kirkjusöngur ekki góður. Orgel á að koma í Hesteyrarkirkju innan skamms.
Ein verslun á Hesteyri, Á. Ásgeirssonar 10 ára gömul, auk þess 2 íbúðarhús úr timbri, 2 torfbæir og 2 húsmannshús.
 Seinnialdamenn! Ánægju og blessun færi yður þessi stofnun um ókomnar aldir. Haldið húsi þessu sem bezt við og prýðið það samkvæmt tilgangi þess og tímans sem þér lifið á.
 Blað þetta geymist sem kirkjunnar eign meðan kirkja stendur á Hesteyri.“

Sigurður prófastur flutti 2. maí 1955 ýmsa muni úr kirkjunum á Stað í Aðalvík og á Hesteyri til Ísafjarðar að boði biskups, sem þá var Ásmundur Guðmundsson (1888-1969, biskup 1953-1959). Á meðal þessara muna voru allir þeir munir sem Markus Carl Bull lét fylgja með kirkjunni, og taldir eru upp hér að ofan, nema altaristaflan. Séra Ágúst Sigurðsson prófastur á Prestbakka skrifaði tvær greinar um Hesteyrarkirkju/Súðavíkurkirkju í Íslendingaþætti Dags (27. nóvember 1999, bls. I-III og 3. júní 2000, bls. III-IV). Í þeirri fyrri fjallar hann um altaristöfluna í Hesteyrarkirkju. Myndefnið var gangan á vatninu í „gylltum, breiðum ramma, sem síra Þorvaldur Jónsson prófastur Norður-Ísfirðinga kallaði „Pétur gengur á sjó“, þegar hann vígði kirkjuna 3. september 1899“. Í síðari greininni segir séra Ágúst frá kynnum sínum af Ólafi Albertssyni kaupmanni í Kaupmannahöfn sem ólst upp á Hesteyri og lét sér mjög annt um æskustöðvarnar. Ólafur hefur greinilega verið ósáttur við flutning kirkjunnar frá Hesteyri til Súðavíkur. Séra Ágúst skrifar:

Það heyrði ég brátt á Ólafi Albertssyni, að altaristöflunni hefði þó tekizt að forða undan „ræningjunum“, rétt aðeins nógu snemma. Yrði aldrei sagt, hvar hún væri falin. Um það væri þögn og bræðralag.

Jóna Símonía Bjarnadóttir, sagnfræðingur og héraðsskjalavörður á Ísafirði, ritar um gripi og áhöld Súðavíkurkirkju í bókina Kirkjur Íslands 28 (bls. 205-213). Í grein hennar kemur fram að altaristaflan úr Hesteyrarkirkju er í rauninni geymd á Byggðasafni Vestfjarða á Ísafirði. Í símtali textaskrifara við Jónu Símoníu 13. júlí 2017 sagði hún að altaristaflan hefði eiginlega uppgötvast á byggðasafninu; hún hefði ekki verið formlega afhent og ekki væri ólíklegt að henni hafi verið komið þar fyrir til geymslu. Í grein sinni lýsir Jóna Símonía altaristöflunni svona:

Taflan er olíumálverk á striga frá 1899 eftir danska listmálarann Hans Viggo Westergaard (1870-1928) og sýnir Jesúm ganga á vatninu en yst við sjónarrönd sjást lærisveinarnir á bát sínum. Innanmál málverksins er 146x217 cm. Það er rammað inn í voldugan ramma úr tré sem mælist 18 cm á breidd. Utanmál töflunnar er 175,5x238 cm. Ramminn er málaður í viðarlit með upphleyptum striklistum yst sem málaðir eru með gylltum, bláum og dumbrauðum litum. Undirstykki rammans er með öðru sniði, en þar eru striklistar næst myndfletinum og ferningslaga fletir yst báðum megin, málaðir dumbrauðir. Efst á rammanum miðjum er randskorin skrautfjöl, máluð blá með gylltum brúnum, en krossinn, sem var á miðri fjölinni, hefur brotnað af. Fjölin nær 13,5 cm upp fyrir rammann.

Svo virðist sem einu gripirnir í Súðavíkurkirkju sem voru áður í kirkjunni á Hesteyri séu kirkjuklukkurnar. Eins og í sögu Yrsu og kvikmynd Óskars Þórs fór tvennum sögum af flutningi kirkjunnar frá Hesteyri til Súðavíkur. Hér er enginn dómur lagður á málsatvik, en dregin fram fáein opinber skjöl sem málið varða, góðfúsum lesendum til fróðleiks.

Benedikt Jónsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Ágúst Sigurðsson. „Kirkjudagur í logni og sátt í Súðavík við Djúp“. Dagur. Íslendingaþættir 27. nóvember 1999, bls. I-III.
  • Ágúst Sigurðsson. „Hesteyrarkirkja flutt og breytt“. Dagur. Íslendingaþættir 3. júní 2000, bls. III-IV.
  • Elísabet Gunnarsdóttir. „Súðavíkurkirkja. Byggingarsaga kirkjunnar“. Kirkjur Íslands 28. Þorsteinn Gunnarsson og Jón Torfason ritstýrðu. Reykjavík, 2017, bls. 192-203.
  • Jóna Símonía Bjarnadóttir. „Súðavíkurkirkja. Gripir og áhöld“. Kirkjur Íslands 28. Þorsteinn Gunnarsson og Jón Torfason ritstýrðu. Reykjavík, 2017, bls. 203-213.
  • Kirkjukort.is, http://www.kirkjukort.net/kirkjur/sudavikurkirkja_0198.html. Skoðað 12. júlí 2017.
  • Sigurður Kristjánsson. Hesteyrarkirkja – Súðavíkurkirkja. Lindin, 10. árg. 1. tbl. 1962, bls. 104-106.
  • Símtal textaskrifara við Jónu Símoníu Bjarnadóttur héraðsskjalavörð á Ísafirði 13. júlí 2017.
  • ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994-D/5. Stjórnarráð Íslands, bréf frá 1957–1961 (örk 4).
  • ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994-E/34. Bréfabók biskupsdæmis Íslands 1960, bréf nr. 115.
  • ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994-E/34. Bréfabók biskupsdæmis Íslands 1960, bréf nr. 167.
  • ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994-D/39-1. Norður-Ísafjarðarprófastsdæmi. Bréf 1959-1960.
  • ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994-G/1-2. Norður-Ísafjarðarprófastsdæmi. Héraðsfundabækur 1927-1965, 1966-1970 (Héraðsfundargerðir 1927-1965).
Bréf Sigurbjörns Einarssonar biskups til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þar sem óskað er heimmildar til að flytja Hesteyrarkirkju til Súðavíkur.
Svarbréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þar sem ráðuneytið fellst á tillögu biskups.
Bréf Sigurbjörns Einarssonar biskups til séra Sigurðar Kristjánssonar prófasts Norður-Ísafjarðarprófastsdæmis þar sem hann tilkynnir ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
Bréf Sigurbjörns Einarssonar biskups til séra Sigurðar Kristjánssonar prófasts Norður-Ísafjarðarprófastsdæmis þar sem hann tilkynnir ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
Hesteyrarkirkja á Hesteyri. Myndin er sögð tekin í júlí 1960. Ljósmynd: Elísabet Engilráð Ísleifsdóttir. Myndin er fengin af Flickr, https://www.flickr.com/photos/52636462@N05/8398677008.
Súðavíkurkirkja. Myndin er tekin 11. júlí 2011. Ljósmynd Christian Bickel. Wikimedia Commons, https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Su%C3%B0av%C3%ADk_Kirche_3.JPG.