Skjöl úr einkaskjalasafni fylla í eyður

miðvikudagur, 25. mars 2015 - 10:30
  • Opna úr fólkstali í Hólmasókn í Reyðarfirði 1. október 1870
    Opna úr fólkstali í Hólmasókn í Reyðarfirði 1. október 1870
  • Opna úr sóknarmannatali í Hólmasókn í Reyðarfirði 3. apríl 1824
    Opna úr sóknarmannatali í Hólmasókn í Reyðarfirði 3. apríl 1824

Einkaskjalasafn Einars Ástráðssonar (1902-1967) fyrrverandi héraðslæknis á Eskifirði var afhent Þjóðskjalasafni Íslands fyrr í þessum mánuði. Karen Tómasdóttir, tengdadóttir Einars, afhenti safnið. Í því kennir ýmissa grasa og þar á meðal er rauð mappa sem inniheldur gögn sem líklega fylla í eyður glataðra gagna. Ljóst er að verulegur fengur er að þessum skjölum.

Fyrst er þar að nefna skjal sem ber yfirskriftina „Skýrsla um fólkstal með fl. í Hólmasókn 1 October 1870“ og er eins konar afrit manntalsins 1870 fyrir Hólmasókn í Reyðarfirði því skýrslan er miðuð við nákvæmlega sama dag og manntalið 1870. Það vill svo til að manntalsskýrslur 1. október 1870 úr Eyjafjarðarsýslu, Þingeyjarsýslum og Múlasýslum glötuðust í Kaupmannahöfn. Skýrslan úr safni Einars fyllir því að nokkru leyti í þessa eyðu.

Skýrslan úr einkaskjalasafni Einars Ástráðssonar er 8 bls í folio stærð og að öllu leyti handskrifuð með fínlega strikuðum dálkum; öll vel læsileg. Þar er að finna upplýsingar um 289 nafngreinda einstaklinga á 23 bæjum í sókninni. Í einkaskjalasafni Einars er einnig „Fólkstal í Hólma sókn í Suðurmúla prófastsdæmi 31 Des. 1870“, þar sem fram koma nöfn bæja og fólksfjöldi á hverjum bæ. Samkvæmt þeim upplýsingum vantar upplýsingar um 186 einstaklinga á 13 bæjum í Hólmasókn í fólkstalsskýrsluna. Engu að síður eru upplýsingarnar í henni mikilvægar og líklega það næsta sem komist verður að upplýsingum úr hinum horfnu manntalsskýrslum fyrir Hólmasókn í Reyðarfirði 1. október 1870.

Í rauðu möppunni í einkaskjalasafni Einars er einnig sóknarmannatal 1824 fyrir þessa sömu sókn, Hólmasókn í Reyðarfirði, sex og hálf síða í folio stærð. Yfirskrift þess er svohljóðandi: „Vid Húsvitjan, þann 1-3 Aprilis 1824, á Hólma Sóknar Innsveit i Reidarfirdi, fyri kom, sem fylgir:“ Neðri hluti hálfu síðunnar hefur rifnað frá og týnst. Á neðri hluta síðu tvö hefur hellst dökkur litur sem gerir textann að hluta illlæsilegan.

Sóknarmannatalið tekur til nánast allra bæja sem ætla má að hafi verið í sókninni á þessum tíma, nema líklega Sómastaða, Sómastaðagerðis og Hólma að hluta til. Í því eru upplýsingar um 273 nafngreinda einstaklinga á 30 bæjum. Engin sóknarmannatöl úr Hólmasókn fyrir tímabilið 1808-1829 eru varðveitt svo vitað sé. Sóknarmannatalið úr einkaskjalasafni Einars Ástráðssonar kemur því í góðar þarfir.

Þessi skjalaafhending er gott dæmi um hversu verðmæt gögn geta leynst í einkaskjalasöfnum og því ástæða til að brýna fólk til að vera á varðbergi og fara með gömul skjöl á næsta héraðsskjalasafn eða í Þjóðskjalasafnið og láta meta þau. Þegar skjöl eru annars vegar, þá eru skjalasöfnin yfirleitt betri valkostur en Sorpa.