Skjalasafn Skolt Sama á skrá um minni heimsins?

mánudagur, 7. apríl 2014 - 12:30
  • Skjalasafnið eftir forvörsluaðgerðir. Ljósmynd: Mikko Salminen / The National Archives Service of Finland, 2012
    Skjalasafnið eftir forvörsluaðgerðir. Ljósmynd: Mikko Salminen / The National Archives Service of Finland, 2012
  • Tréstokkurinn sem skjalakeflið er geymt í. Ljósmynd: Petri Mentu 2014
    Tréstokkurinn sem skjalakeflið er geymt í. Ljósmynd: Petri Mentu 2014
  • Svona leit skjalasafnið út um 1930. Ljósmynd: J. J. Mikkola: Kolttakylän arkisto, WSOY, Helsinki 1941
    Svona leit skjalasafnið út um 1930. Ljósmynd: J. J. Mikkola: Kolttakylän arkisto, WSOY, Helsinki 1941
  • Skolt Sama konur með börnum sínum í Suonikylä árið 1942. Ljósmynd: SA-kuva
    Skolt Sama konur með börnum sínum í Suonikylä árið 1942. Ljósmynd: SA-kuva
  • Upphaflegt heimahérað Skolt Sama í Suonjel í Pechenga (Petsamo). Mynd úr bæklingi finnska ríkisskjalasafnsins um þetta einstæða skjalasafn
    Upphaflegt heimahérað Skolt Sama í Suonjel í Pechenga (Petsamo). Mynd úr bæklingi finnska ríkisskjalasafnsins um þetta einstæða skjalasafn

Ríkisskjalasafn Finnlands og Skjalasafn Sama hafa sótt um að skjalasafn Skolt Sama verði fært í skrá UNESCO um minni heimsins (World Memory). Skjölin eru frá árunum 1601 til 1775 og og fjalla um land- og veiðiréttindi sem Rússakeisarar veittu Skolt Sömum í Petsamo (Pechenga) héraði, sem laut rússneskum yfirráðum frá 1533 til 1920, en var hluti Finnlands frá 1920 til 1944 þegar héraðið varð hluti af Sovétríkjunum.

Skjölin voru límd saman í renning með sérstöku beinalími og rúllað upp á kefli sem síðan var geymt í útskornum tréstokk. Aðeins þrír traustir menn, enginn þeirra úr sömu fjölskyldu, vissu hvar skjölin voru varðveitt.

Skolt Samar voru frumbyggjar í Petsamo á Kólaskaga. Eftir Vetrarstríðið árin 1939-1940 voru Skolt Samar fluttir til Finnlands og án þeirra vitundar voru hin dýrmætu skjöl einnig flutt til Finnlands, fyrst til Rovaniemi í Lapplandi og síðan í ríkisskjalasafnið í Helsinki. Skolt Samarnir héldu því lengi vel að skjölin hefðu glatast í stríðinu, en þau komu í ljós í ríkisskjalasafni Finnlands árið 1996. Þegar skjalasafn Sama var sett á laggirnar árið 2012 í Inari voru skjölin afhent þangað til framtíðarvarðveislu.

Finnar tengjast þegar tveimur færslum í skrá UNESCO um minni heimsins. Annars vegar er um að ræða kortasafn Adolf Erik Nordenskjöld (1832-1901) sem var tekið á skrána árið 1997 og hins vegar skjalasafn Radziwill fjölskyldunnar, en Hvíta-Rússland sótti um skráningu þess skjalasafns árið 2008 ásamt Finnlandi, Póllandi, Litháen, Rússlandi og Úkraínu og var skráningin samþykkt árið eftir.

Árið 2009 var samþykkt umsókn Íslendinga og Dana um að Handritasafn Árna Magnússonar yrði fært í skrána um minni heimsins. Árið 2012 sótti Þjóðskjalasafn, fyrir hönd Íslands, um að manntalið 1703 yrði fært í þessa sömu skrá. Umsóknin var samþykkt í júní 2013. Íslendingar eiga því tvær færslur í skrá UNESCO um minni heimsins og svo vill til að báðar tengjast þær sama manninum, hinum gagnmerka handritasafnara Árna Magnússyni. Það er líklega einsdæmi í sögu skrárinnar, sem nær aftur til ársins 1992 þó að fyrstu færslur í skrána hefjist á árinu 1997.