Safnanótt 2014

mánudagur, 3. febrúar 2014 - 15:30
  • Pétur Eggerz sem Eldklerkurinn
    Pétur Eggerz sem Eldklerkurinn

Á Safnanótt, 7. febrúar 2014, verður dagskrá í Þjóðskjalasafni Íslands, Laugavegi 162, Reykjavík. Boðið verður upp á kynningu á Þjóðskjalasafni og vasaljósaferðir í skjalageymslur safnsins. Möguleikhúsið flytur kafla úr hinum vinsæla einleik um eldklerkinn Jón Steingrímsson. Einnig gefst gestum kostur á að hlýða á sérfræðing Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands segja frá Lakagígum og hinum afdrifaríku eldsumbrotum sem hófust sumarið 1783 og erindi Gunnars Arnar Hannessonar sagnfræðings um samtímaheimildir um Skaftárelda og móðuharðindin. Hægt er að skoða skjalasýningu, taka þátt í verðlaunagetraun og kíkja í ættfræðiheimildir með aðstoð sérfræðinga safnsins. Skoðaðu dagskrána og skelltu þér í skoðunarferð um skjalageymslur safnsins. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík. Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur setur Vetrarhátíð með því að tendra 10 ljósalistaverk hátíðarinnar samstímis fimmtudagskvöldið 6. febrúar kl 19:30 í garði Listasafns Einars Jónssonar.

Viðamikil dagskrá Vetrarhátíðar stendur svo fram til laugardagsins 15. febrúar. Á Safnanótt bjóða 40 söfn á öllu höfuðborgarsvæðinu upp á fjölbreyttar dagskrár.