Ráðstefna Alþjóða skjalaráðsins sett í morgun

þriðjudagur, 29. september 2015 - 15:45
  • 3rd ICA Annual Conference in Reykjavik 2015
    3rd ICA Annual Conference in Reykjavik 2015
  • Hilton Reykjavik Nordica Hotel
    Hilton Reykjavik Nordica Hotel

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, setti þriðju árlegu ráðstefnu Alþjóða skjalaráðsins (ICA) á Hilton Reykjavik Nordica Hotel í morgun. Einkunnarorð ráðstefnunnar eru: Sönnunargögn, öryggi og réttindi borgaranna. Að tryggja áreiðanlegar upplýsingar.

Um 500 manns frá 75 þjóðlöndum sækja ráðstefnuna sem stendur yfir í tvo daga. Margir ráðstefnugesta munu einnig heimsækja Þjóðskjalasafn Íslands næstu daga og fræðast nánar um starfsemi safnsins.

Í upphafi ráðstefnunnar bauð Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður ráðstefnugesti velkomna og Guðni Th. Jóhannesson flutti inngangsræðu í forföllum Kára Stefánssonar forstjóra DeCode. Á morgun mun Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur halda inngangsræðu. John Hocking, aðstoðaraðalritari Sameinuðu Þjóðanna, stýrir lokafundi ráðstefnunnar.

Inntak ráðstefnunnar er það mikilvæga hlutverk skjalasafna að varðveita upplýsingar um réttindi borgaranna og hvernig tryggja skal áreiðanleika þeirra. Um 70 fyrirlesarar munu deila þekkingu sinni í fjölbreyttum málstofum. Þar verður m.a. fjallað um vernd persónuupplýsinga og misnotkun viðkvæmra gagna, um upplýsingarétt almennings og aðgengi að upplýsingum, skjöl skjalasafna sem sönnunargögn í sakamálum, um opin gögn og opna stjórnsýslu í nútímanum, gæða- og áhættustjórnun í skjalastjórn og skjalavörslu. Þá verður einnig fjallað um öryggismál skjalasafna með tilliti til þjófnaðar, skemmdarverka og þeirra ógna sem steðja að skjalasöfnum vegna átaka og náttúruvár.

Vefur ráðstefnunnar.