Nýtt merki Þjóðskjalasafns Íslands

fimmtudagur, 5. febrúar 2015 - 16:30
  • Nýtt merki Þjóðskjalasafns Íslands
    Nýtt merki Þjóðskjalasafns Íslands

Samhliða nýrri stefnumótun fyrir Þjóðskjalasafn Íslands var hannað nýtt merki safnsins. Þannig er leitast við að marka upphaf nýrra tíma í starfi safnsins.

Form, gerð og litur merkisins byggir á þremur fyrirmyndum.

Lögun og litur vísar til innsiglis. Innsigli voru notuð frá miðöldum og fram á okkar daga til þess að staðfesta gerninga og undirskriftir. Rautt hringlaga, stundum sporöskjulaga, innsigli er áberandi einkenni á skjölum í Þjóðskjalasafni síðustu alda. Innsigli sýnir uppruna þeirra upplýsinga sem það staðfestir og er þannig tákn um öryggi og áreiðanleika.

Teikningin á innsiglisfletinum er sett saman úr tveimur þáttum. Í fyrsta lagi byggir það á vafningum í handskrifuðu letri fyrri alda. Þá er einkum að finna í upphafsstöfum og fyrirsögnum handskrifaðra texta eða í skreytingum á skjölum. Í öðru lagi tákna ferningarnir í kjarna merkisins punkta í stafrænni mynd.

Merkinu er ætlað að segja að Þjóðskjalasafn Íslands varðveitir, um alla framtíð, af öryggi og trúmennsku, þann fjölbreytta menningararf sem því er falinn til vörslu, allt frá skinnskjölum miðalda til stafrænna upplýsinga samtímans.

Kría hönnunarstofa hannaði merkið.