Nordisk Arkivnyt er komið út

þriðjudagur, 24. júní 2014 - 15:45
  • Nordisk Arkivnyt 2. tbl 2014
    Nordisk Arkivnyt 2. tbl 2014

Annað tölublað Nordisk Arkivnyt fyrir árið 2014 er komið út. Tímaritið er á annað hundrað blaðsíður og stútfullt af athyglisverðu efni frá öllum Norðurlöndunum, auk fastra efnisatriða eins og Institutionen, Personalia, Publikationer og Dokumentet, sem er að þessu sinni íslenskar teikningar af fyrirhugaðri lagningu járnbrautar frá Reykjavík austur að Ölfusárbrú. Hægt er að lesa nánar um þessar áætlanir hér á vefnum.

Hrefna Róbertsdóttir, sagnfræðingur og svæðisritstjóri Nordisk Arkivnyt fyrir Ísland, skrifar grein um sýningu Þjóðskjalasafns og Borgarminjasafns á munum og skjölum frá upphafi byggðar í Reykjavík og frá tíma Innréttinganna. Sýningin stóð uppi á sýningarsvæði landnámssýningarinnar í Aðalstræti 16 frá desember 2011 fram í febrúar 2014 og var sett upp í tilefni af því að árið 2011 voru liðin 300 ár frá fæðingu Skúla Magnússonar (1711-1794), sem nefndur hefur verið faðir Reykjavíkur.

Tölfræði ríkis- og þjóðskjalasafnanna á Norðurlöndum er að venju birt í öðru tölublaði ársins. Þar kemur m.a. fram að þessi skjalasöfn geyma samtals 1.738 hillukílómetra af pappírsskjölum. Til samanburðar er lengd hringvegarins um Ísland 1.332 km. Mest af þessum skjölum er geymt í Svíþjóð (44,1% af skjalamagninu) en minnst á Íslandi (3% af skjalamagninu).

Hér má lesa meira um Nordisk Arkivnyt.