Einkaskjalasafn.is - samskrá yfir einkaskjalasöfn á Íslandi

þriðjudagur, 21. apríl 2015 - 9:45
  • Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra ávarpar gesti
    Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra ávarpar gesti
  • Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður ásamt gestum við athöfnina
    Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður ásamt gestum við athöfnina
  • Forsíða Einkaskjalasafn.is
    Forsíða Einkaskjalasafn.is

Fimmtudaginn 16. apríl sl. opnaði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, vefinn Einkaskjalasafn.is - samskrá yfir einkaskjalasöfn á Íslandi við athöfn í Þjóðskjalasafni Íslands.

Vefurinn er afurð samstarfsverkefnis Þjóðskjalasafns Íslands, héraðsskjalasafna og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns. Árið 2012 var skipaður vinnuhópur til að vinna að því að útbúa samskrá yfir einkaskjalasöfn á Íslandi. Verkefni vinnuhópsins voru að safna upplýsingum um einkaskjalasöfn hjá vörslustofnunum á einn stað og bæta þannig aðgengi að heimildaflokknum. Umsjón með verkefninu hefur Þjóðskjalasafn Íslands sem jafnframt á og rekur vefinn.

Á vefnum er nú að finna upplýsingar um rúmlega 5.000 einkaskjalasöfn sem varðveitt eru á 19 vörslustofnunum. Markmiðið er að á vefnum megi finna upplýsingar um öll einkaskjalasöfn sem vörslustofnir hér á landi geyma, hvort sem þau eru varðveitt í skjalavörslustofnunum eða öðrum vörslustofnunum, s.s. byggðasöfnum, minjasöfnum eða bókasöfnum.