Fjölbreyttar heimildir

Skjalasöfn opinberra aðila á Þjóðskjalasafni Íslands endurspegla íslenskt stjórnkerfi í gegnum tíðina enda geyma þau upplýsingar um sögu lands og þjóðar í gegnum árhundruðin. Í skjalasöfnum opinberra aðila má jafnframt lesa sögu viðkomandi aðila, finna skýringar á framgangi og jafnvel mistökum fyrri ára og allri þróun og breytingu innan embætta og stofnana. Saga hverrar stofnunar og embættis á sinn þátt í þjóðarsögunni og hefur stundum mikið að segja um framvindu hennar. Þekking á íslensku stjórnarfari er því mikilvæg til þess að átta sig á tilurð og uppbyggingu skjalasafna opinberra aðila.

Elsta varðveitta skjal á Þjóðskjalasafni er Reykholtsmáldagi en elsti hluti hans er talinn vera ritaður á síðari hluta 12. aldar en máldagi geymir upplýsingar um eignir og réttindi kirkju. Yngstu skjölin sem varðveitt eru á safninu eru nokkurra ára gömul. Meðal skjalasafna embætta og stofnana sem teljast vera opinberir aðilar og eru varðveitt á Þjóðskjalasafni eru t.d. skjalasöfn presta, prófasta og biskupa, allra ráðuneyta Stjórnarráðs Íslands, sýslumanna, hreppstjóra, embættis Forseta Íslands, Hæstaréttar og héraðsdóma, skóla og annarra opinberra stofnana.

Á Þjóðskjalasafni er því varðveitt saga lands og þjóðar í yfir 800 ár.